Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 2

Jósúa Núnsson sendi tvo njósnarmenn leynilega frá Sittím og sagði: "Farið og skoðið landið og Jeríkó!" Þeir fóru og komu í hús portkonu einnar, er Rahab hét, og tóku sér þar gistingu.

Konunginum í Jeríkó var sagt: "Sjá, hingað komu menn nokkrir í kveld af Ísraelsmönnum til þess að kanna landið."

Sendi þá konungurinn í Jeríkó til Rahab og lét segja henni: "Sel fram mennina, sem til þín eru komnir, þá er komnir eru í hús þitt, því að þeir eru komnir til þess að kanna allt landið."

En konan tók mennina báða og leyndi þeim. Og hún sagði: "Satt er það, menn komu til mín, en eigi vissi ég hvaðan þeir voru,

og er loka skyldi borgarhliðinu í rökkrinu, fóru mennirnir burt. Eigi veit ég hvert þeir hafa farið. Veitið þeim eftirför sem skjótast, þá munuð þér ná þeim."

En hún hafði leitt þá upp á þakið og falið þá undir hörjurtarleggjum, sem breiddir voru á þakið.

Menn konungs veittu þeim eftirför veginn til Jórdanar, að vöðunum. Og borgarhliðinu var lokað, þá er leitarmennirnir voru út farnir.

Áður en njósnarmennirnir gengu til hvílu, gekk hún til þeirra upp á þakið

og sagði við þá: "Ég veit, að Drottinn hefir gefið yður land þetta og að ótti við yður er yfir oss kominn og að allir landsbúar hræðast yður.

10 Því að frétt höfum vér, að Drottinn þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo, þá Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, að þér eydduð þeim með öllu.

11 Síðan vér heyrðum þetta, er æðra komin í brjóst vor, og enginn hugur er í nokkrum manni, þegar yður skal mæta, því að Drottinn, Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.

12 Sverjið mér nú við Drottin, að fyrst ég sýndi ykkur miskunn, þá skuluð þið og miskunn sýna húsi föður míns og gefið mér um það óbrigðult merki,

13 að þið viljið láta föður minn og móður, bræður mína og systur halda lífi, og alla, sem þeim heyra, og frelsa oss frá dauða!"

14 Mennirnir svöruðu henni: "Við setjum líf okkar í veð fyrir yður, ef þú lætur ekki vitnast erindi okkar. Og þegar Drottinn gefur oss land þetta, þá skulum vér auðsýna þér miskunn og trúfesti."

15 Þá lét hún þá síga í festi út um gluggann, því að hús hennar stóð við borgarmúrinn og sjálf bjó hún úti við múrinn.

16 Og hún sagði við þá: "Haldið til fjalla, svo að leitarmennirnir finni ykkur ekki, og leynist þar þrjá daga, uns leitarmennirnir eru aftur horfnir. Eftir það getið þið farið leiðar ykkar."

17 Mennirnir sögðu við hana: "Lausir viljum við vera eiðs þess, er þú lést okkur sverja þér,

18 nema svo verði, að þegar vér komum inn í landið, þá bindir þú í gluggann, þann er þú lést okkur síga út um, festina þessa rauðu, og kallir saman í hús þitt föður þinn og móður og bræður þína og allt heimilisfólk föður þíns,

19 en gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar, þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum, en við sýknir, en verði hönd lögð á nokkurn þann, sem í þínu húsi er, þá skal dauði hans verða gefinn okkur að sök.

20 Og ef þú lætur vitnast erindi okkar, þá erum við lausir þess eiðs, er þú lést okkur sverja þér."

21 Hún sagði: "Svo skal vera sem þið segið!" Lét hún þá síðan fara, og þeir gengu burt, en hún batt rauðu festina í gluggann.

22 Gengu þeir þá á burt og héldu til fjalla og dvöldust þar þrjá daga, uns leitarmennirnir voru aftur heim horfnir. Höfðu leitarmennirnir leitað þeirra alla leiðina, en ekki fundið.

23 Hurfu þá þessir tveir menn aftur og gengu niður af fjöllunum og fóru yfir um og komu til Jósúa Núnssonar og sögðu honum frá öllu, er fyrir þá hafði komið.

24 Og þeir sögðu við Jósúa: "Drottinn hefir gefið allt landið oss í hendur, enda hræðast allir landsbúar oss."

Sálmarnir 123-125

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

Jesaja 62

62 Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys.

Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða.

Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.

Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að Drottinn ann þér og land þitt mun manni gefið verða.

Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér.

Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur. Þér sem minnið Drottin á, unnið yður engrar hvíldar!

Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni.

Drottinn hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: "Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft,

heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa Drottin fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns."

10 Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!

11 Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: "Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!"

12 Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.

Matteusarguðspjall 10

10 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.

Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,

Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus,

Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.

Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg.

Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt.

Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.`

Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.

Takið ekki gull, silfur né eir í belti,

10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.

11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.

12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs,

13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.

14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.

15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.

16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.

17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum.

18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.

19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal.

20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.

21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.

24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.

25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?

26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.

27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.

28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.

29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.

30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.

31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.

32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.

33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.

34 Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.

35 Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.

36 Og heimamenn manns verða óvinir hans.`

37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.

38 Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.

39 Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.

40 Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig.

41 Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun, og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns.

42 Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society