Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 1

Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið:

"Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.

Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse.

Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná.

Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.

Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim.

Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur.

Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.

Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur."

10 Þá bauð Jósúa tilsjónarmönnum lýðsins á þessa leið:

11 "Farið um allar herbúðirnar og bjóðið lýðnum og segið: ,Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar."`

12 En við Rúbeníta, Gaðíta og hálfa ættkvísl Manasse mælti Jósúa á þessa leið:

13 "Minnist þess, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður, er hann sagði: ,Drottinn, Guð yðar, mun veita yður hvíld og gefa yður þetta land.`

14 Konur yðar, börn yðar og búsmali skal eftir verða í landi því, er Móse gaf yður hinumegin Jórdanar, en þér skuluð fara hertygjaðir fyrir bræðrum yðar, allir þér sem vopnfærir eruð, og veita þeim fulltingi,

15 þar til er Drottinn veitir bræðrum yðar hvíld eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, sem Drottinn, Guð yðar, gefur þeim. Þá skuluð þér snúa aftur í eignarland yðar og setjast þar að, í landinu, sem Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar, austanmegin."

16 Þeir svöruðu Jósúa á þessa leið: "Vér skulum gjöra allt sem þú býður oss, og fara hvert sem þú sendir oss.

17 Eins og vér í öllu hlýddum Móse, svo viljum vér og hlýða þér. Veri Drottinn, Guð þinn, með þér, eins og hann var með Móse.

18 Hver sá er þverskallast gegn skipun þinni og hlýðir ekki orðum þínum í öllu, sem þú býður oss, skal líflátinn verða. Vertu aðeins hughraustur og öruggur."

Sálmarnir 120-122

120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.

Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.

Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?

Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.

Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.

Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.

Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

Jesaja 61

61 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn,

til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda,

til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.

Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.

Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður,

en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.

Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.

Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.

Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað.

10 Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.

11 Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.

Matteusarguðspjall 9

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar.

Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?

Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar` eða: ,Statt upp og gakk`?

En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"

Og hann stóð upp og fór heim til sín.

En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.

10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans.

11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

12 Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: "Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?"

15 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.

16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa.

17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja."

18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: "Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna."

19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.

20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans.

21 Hún hugsaði með sér: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."

22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu.

23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi,

24 sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum.

25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp.

26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað.

27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: "Miskunna þú okkur, sonur Davíðs."

28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: "Trúið þið, að ég geti gjört þetta?" Þeir sögðu: "Já, herra."

29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: "Verði ykkur að trú ykkar."

30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: "Gætið þess, að enginn fái að vita þetta."

31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda.

33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: "Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael."

34 En farísearnir sögðu: "Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.

36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.

37 Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.

38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society