M’Cheyne Bible Reading Plan
33 Þessi er blessunin, er guðsmaðurinn Móse blessaði með Ísraelsmenn, áður en hann andaðist:
2 Drottinn kom frá Sínaí og rann upp fyrir þeim á Seír. Hann lét ljós sitt skína frá Paranfjöllum og kom frá hinum helgu tíu þúsundum, eldingarnar í hægri hendi hans voru þeim til varnar.
3 Já, hann elskar sinn lýð, allir hans heilögu eru í hans hendi. Og þeir fara eftir leiðsögu þinni, sérhver þeirra meðtekur af orðum þínum.
4 Móse setti oss lögmál, óðal Jakobs safnaðar.
5 Og Drottinn varð konungur í Jesjúrún, þá er höfðingjar lýðsins söfnuðust saman, ættkvíslir Ísraels allar samt.
6 Lifi Rúben og deyi ekki, þannig að menn hans verði fáir að tölu.
7 Og þetta er blessunin um Júda: Heyr, Drottinn, bænir Júda, og leið hann aftur til þjóðar sinnar, _ með höndum sínum hefir hann barist fyrir hana _ og ver þú honum hjálp gegn fjendum hans.
8 Og um Leví sagði hann: Túmmím þín og úrím heyra mönnum hollvinar þíns, þess er þú reyndir hjá Massa og barðist gegn hjá Meríbavötnum,
9 _ heyra þeim, er sagði um föður og móður: Ég sá þau ekki, er eigi kannaðist við bræður sína og leit eigi við börnum sínum. Því að þeir varðveittu orð þitt og héldu sáttmála þinn.
10 Þeir kenna Jakob dóma þína og Ísrael lögmál þitt, þeir bera reykelsi fyrir vit þín og alfórn á altari þitt.
11 Blessa, Drottinn, styrkleik hans, og lát þér þóknast verk handa hans. Myl sundur lendar óvina hans og þeirra er hata hann, svo að þeir fái eigi risið upp aftur.
12 Um Benjamín sagði hann: Ljúflingur Drottins býr óhultur hjá honum. Hann verndar hann alla daga og hefir tekið sér bólfestu milli hálsa hans.
13 Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu, er undir hvílir,
14 með hinu dýrmætasta, er sólin framleiðir, og með hinu dýrmætasta, sem tunglin láta spretta,
15 með hinu besta á hinum eldgömlu fjöllum og með hinu dýrmætasta á hinum eilífu hæðum,
16 með hinu dýrmætasta af jörðinni og öllu því, sem á henni er, og með þóknun hans, sem bjó í þyrnirunninum. Þetta komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna!
17 Prýðilegur er frumgetinn uxi hans, og horn hans eru sem horn vísundarins. Með þeim rekur hann þjóðir undir, allt til endimarka jarðarinnar. Þetta eru tíu þúsundir Efraíms, og þetta eru þúsundir Manasse!
18 Um Sebúlon sagði hann: Gleðst þú, Sebúlon, yfir sæförum þínum, og þú, Íssakar, yfir tjöldum þínum!
19 Þjóðflokkum bjóða þeir til fjallsins, þar fórna þeir réttum fórnum, því að þeir munu sjúga í sig nægtir hafsins og hina huldustu fjársjóðu sandsins.
20 Um Gað sagði hann: Blessaður sé sá, sem veitir Gað landrými! Hann hefir lagst niður sem ljónynja, og rífur sundur arm og hvirfil.
21 Hann valdi sér landið, er fyrst var tekið, því að þar var landshluti geymdur ætthöfðingja. Og hann kom með höfðingjum lýðsins, hann framkvæmdi réttlæti Drottins og dóma hans ásamt Ísrael.
22 Um Dan sagði hann: Dan er ljónshvolpur, sem kemur stökkvandi frá Basan.
23 Um Naftalí sagði hann: Naftalí, saddur velþóknunar og fullur af blessun Drottins, tak þú sjó og Suðurland til eignar!
24 Um Asser sagði hann: Blessaðastur af sonunum sé Asser! Veri hann eftirlæti bræðra sinna og vökvi fót sinn í olíu!
25 Slár þínar séu af járni og eir, og afl þitt réni eigi fyrr en ævina þrýtur!
26 Enginn er sem Guð Jesjúrúns, er ekur yfir himininn til hjálpar þér og á skýjunum í tign sinni!
27 Hæli er hinn eilífi Guð, og hið neðra eru eilífir armar. Hann stökkti óvinum þínum undan þér og sagði: Gjöreyð!
28 Og síðan bjó Ísrael óhultur, lind Jakobs ein sér, í landi korns og vínlagar, þar sem himinninn lætur dögg drjúpa.
29 Heill þér, Ísrael! Hver er sem þú? _ lýður, sigursæll fyrir hjálp Drottins! Hann er skjöldur þíns fulltingis, og hann er sverð tignar þinnar. Óvinir þínir munu smjaðra fyrir þér, og þú munt fram bruna á hæðum þeirra.
34 Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan,
2 allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins,
3 og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.
4 Og Drottinn sagði við hann: "Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!` Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast."
5 Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt,
6 og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er.
7 Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.
8 Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse.
9 En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
10 En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis,
11 þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans,
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
60 Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!
2 Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér.
3 Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.
4 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.
5 Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.
6 Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
7 Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér: Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.
8 Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?
9 Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt _ vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.
10 Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.
11 Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja.
12 Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.
13 Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna.
14 Og synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael.
15 Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða.
16 Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.
17 Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.
18 Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.
19 Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull.
20 Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.
21 Og lýður þinn _ þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.
22 Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.
8 Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi.
2 Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
3 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni.
4 Jesús sagði við hann: "Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
5 Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann:
6 "Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn."
7 Jesús sagði: "Ég kem og lækna hann."
8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: "Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.
9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það."
10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: "Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.
11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki,
12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna."
13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: "Far þú, verði þér sem þú trúir." Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.
15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina.
16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.
17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: "Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora."
18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið.
19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: "Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."
20 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."
21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."
22 Jesús svarar honum: "Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu."
23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.
25 Þeir fara til, vekja hann og segja: "Herra, bjarga þú, vér förumst."
26 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?" Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
27 Mennirnir undruðust og sögðu: "Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum."
28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.
29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"
30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.
31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."
32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.
33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.
34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
by Icelandic Bible Society