Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 32

32 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!

Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.

Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!

Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.

Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.

Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði?

Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!

Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona.

Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.

10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.

11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.

12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum.

13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum.

14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.

15 En Jesjúrún varð feitur og sparkaði aftur undan sér, _ feitur varðst þú, digur og sællegur! Þá hafnaði hann Guði, skapara sínum, og fyrirleit bjarg hjálpræðis síns.

16 Þeir vöktu vandlæti hans með útlendum guðum, egndu hann til reiði með andstyggðum.

17 Þeir færðu fórnir vættum, sem ekki eru Guð, guðum, sem þeir höfðu eigi þekkt, nýjum guðum, nýlega upp komnum, er feður yðar höfðu engan beyg af.

18 Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið.

19 Drottinn sá það og hafnaði þeim af gremju við sonu sína og dætur.

20 Og hann sagði: Ég vil byrgja auglit mitt fyrir þeim, ég ætla að sjá, hver afdrif þeirra verða. Því að þeir eru rangsnúin kynslóð, börn, sem engin tryggð er í.

21 Þeir hafa vakið vandlæti mitt með því, sem ekki er Guð, egnt mig til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. Nú mun ég vekja vandlæti þeirra með því, sem ekki er þjóð, egna þá til reiði með heiðnum lýð.

22 Því að eldur kviknaði í nösum mér, og hann logar lengst niður í undirheima, eyðir jörðina og ávöxtu hennar og kveikir í undirstöðum fjallanna.

23 Ég vil hrúga yfir þá margs konar böli, eyða á þá öllum örvum mínum.

24 Þótt þeir séu megraðir af hungri og tærðir af sýki og eitraðri sótt, þá mun ég hleypa tönnum villidýranna á þá, ásamt eitri þeirra, er í duftinu skríða.

25 Sverðið mun eyða þeim úti fyrir, en hræðslan í húsum inni, bæði yngismönnum og meyjum, brjóstmylkingum og gráhærðum öldungum.

26 Ég mundi segja: Ég vil blása þeim burt, afmá minning þeirra meðal mannanna! _

27 ef ég óttaðist ekki, að mér mundi gremjast við óvinina, að mótstöðumenn þeirra mundu leggja það út á annan veg, að þeir mundu segja: Hönd vor var á lofti, og það var ekki Drottinn, sem gjörði allt þetta!

28 Því að þeir eru ráðþrota þjóð, og hjá þeim eru engin hyggindi.

29 Ef þeir væru vitrir, þá mundu þeir sjá þetta, hyggja að, hver afdrif þeirra munu verða.

30 Hvernig gæti einn maður elt þúsund og tveir rekið tíu þúsundir á flótta, ef bjarg þeirra hefði ekki selt þá, ef Drottinn hefði ekki ofurselt þá?

31 Því að bjarg þeirra er ekki eins og vort bjarg _ um það geta óvinir vorir dæmt.

32 Því að vínviður þeirra er af vínviði Sódómu, af akurlöndum Gómorru. Vínber þeirra eru eitruð vínber, þrúgur þeirra beiskar.

33 Vín þeirra er höggormsólyfjan og banvænt nöðrueitur.

34 Er þetta ekki geymt hjá mér, innsiglað í forðabúrum mínum?

35 Mín er hefndin og mitt að endurgjalda, þá er þeir gjörast valtir á fótum. Því að glötunardagur þeirra er nálægur, og það ber óðfluga að, er fyrir þeim liggur.

36 Drottinn mun rétta hluta þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína, þá er hann sér, að öll hjálp er úti og enginn er framar til, þræll né frelsingi.

37 Þá mun hann segja: Hvar eru nú guðir þeirra, bjargið, er þeir leituðu hælis hjá,

38 sem átu feiti fórna þeirra og drukku vín dreypifórna þeirra? Rísi þeir nú upp og hjálpi yður, veri þeir yður nú hlíf!

39 Sjáið nú, að ég, ég er hann, og að enginn guð er til nema ég! Ég deyði og ég lífga, ég særi og ég græði, og enginn getur frelsað af minni hendi.

40 Því að ég lyfti hendi minni til himins og segi: Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, _

41 þegar ég hefi hvesst mitt blikandi sverð, og ég legg hönd á dóminn, þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína og endurgjalda þeim, er hata mig!

42 Ég vil gjöra örvar mínar drukknar af blóði, og sverð mitt skal hold eta _ af blóði veginna manna og hertekinna, af höfði fyrirliða óvinanna.

43 Vegsamið, þjóðir, lýð hans! því að hann hefnir blóðs þjóna sinna. Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína og friðþægir fyrir land síns lýðs.

44 Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson.

45 Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels,

46 sagði hann við þá: "Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

47 Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

48 Þann hinn sama dag talaði Drottinn við Móse og sagði:

49 "Far þú þarna upp á Abarímfjall, upp á Nebófjall, sem er í Móabslandi gegnt Jeríkó, og lít yfir Kanaanland, sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar.

50 Og þú skalt deyja á fjallinu, er þú fer upp á, og safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks,

51 af því að þið sýnduð mér ótrúmennsku mitt á meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Síneyðimörk, af því að þið helguðuð mig ekki meðal Ísraelsmanna.

52 Því að handan yfir skalt þú fá að líta landið, en inn í landið, sem ég gef Ísraelsmönnum, skalt þú ekki komast."

Sálmarnir 119:121-144

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.

130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.

132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.

133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.

134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.

135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.

136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Jesaja 59

59 Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki.

Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.

Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.

Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir.

Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.

Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra.

Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra.

Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.

Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.

10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.

11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.

12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.

13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.

14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.

15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.

16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.

17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.

18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.

19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.

20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn.

21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.

Matteusarguðspjall 7

Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.

Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?` Og þó er bjálki í auga sjálfs þín.

Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

10 Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

11 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

12 Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.

13 Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn.

14 Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.

15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.

16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?

17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.

18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.

19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.

20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

21 Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.

22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`

23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.`

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.

25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.

26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.

27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið."

28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans,

29 því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society