Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 31

31 Móse fór og flutti öllum Ísrael þessi orð

og sagði við þá: "Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: ,Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan.`

Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt.

Og Drottinn mun fara með þær eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra, sem hann eyddi.

Og Drottinn mun gefa þær yður á vald, og þér skuluð fara með þær nákvæmlega eftir skipun þeirri, er ég hefi fyrir yður lagt.

Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra.

Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels.

10 Og Móse lagði svo fyrir þá: "Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni,

11 þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði.

12 Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

13 Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

14 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, andlátstími þinn nálgast. Kalla þú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið, svo að ég megi leggja fyrir hann skipanir mínar." Þá fóru þeir Móse og Jósúa og gengu inn í samfundatjaldið.

15 En Drottinn birtist í tjaldinu í skýstólpa, og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.

16 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum. Þá mun lýður þessi rísa upp og taka fram hjá með útlendum guðum lands þess, er hann heldur nú inn í, en yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn, þann er ég við hann gjörði.

17 Þá mun reiði mín upptendrast gegn þeim, og ég mun yfirgefa þá og byrgja auglit mitt fyrir þeim, og lýðurinn mun eyddur verða og margs konar böl og þrengingar yfir hann koma. Þá mun hann segja: ,Vissulega er þetta böl yfir mig komið, af því að Guð minn er ekki hjá mér.`

18 En á þeim degi mun ég byrgja auglit mitt vandlega vegna allrar þeirrar illsku, sem hann hefir í frammi haft, er hann sneri sér til annarra guða.

19 Skrifa þú nú upp kvæði þetta og kenn það Ísraelsmönnum, legg þeim það í munn, til þess að kvæði þetta megi verða mér til vitnisburðar gegn Ísraelsmönnum.

20 Því að ég mun leiða þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra, sem flýtur í mjólk og hunangi, og þeir munu eta og verða saddir og feitir og snúa sér til annarra guða og dýrka þá, en mér munu þeir hafna og rjúfa sáttmála minn.

21 Og þegar margs konar böl og þrengingar koma yfir þá, þá mun kvæði þetta bera vitni gegn þeim, því að það mun eigi gleymast í munni niðja þeirra. Því að ég veit, hvað þeim býr innanbrjósts nú þegar, áður en ég hefi leitt þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra."

22 Og Móse skrifaði upp kvæði þetta þann hinn sama dag og kenndi það Ísraelsmönnum.

23 Drottinn lagði skipanir sínar fyrir Jósúa Núnsson og sagði: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða Ísraelsmenn inn í landið, sem ég sór þeim, og ég mun vera með þér."

24 Þegar Móse hafði algjörlega lokið því að rita orð þessa lögmáls í bók,

25 þá bauð hann levítunum, sem bera sáttmálsörk Drottins, og sagði:

26 "Takið lögmálsbók þessa og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk Drottins Guðs yðar, svo að hún geymist þar til vitnisburðar gegn þér.

27 Því að ég þekki mótþróa þinn og þrjósku. Sjá, meðan ég enn er lifandi hjá yður í dag, hafið þér óhlýðnast Drottni, og hvað mun þá síðar verða að mér dauðum!

28 Safnið saman til mín öllum öldungum ættkvísla yðar og tilsjónarmönnum yðar, að ég megi flytja þeim þessi orð í heyranda hljóði og kveðja himin og jörð til vitnis móti þeim.

29 Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér gjörspillast og víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður á komandi tímum, er þér gjörið það sem illt er í augum Drottins, svo að þér egnið hann til reiði með athæfi yðar."

30 Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:

Sálmarnir 119:97-120

97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.

98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.

99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.

100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.

101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.

102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.

103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.

104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.

107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.

109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.

110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.

111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.

112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

Jesaja 58

58 Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!

Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.

"Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?" Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar.

Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar.

Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!" Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum,

10 ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

11 Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.

12 Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.

13 Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð,

14 þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.

Matteusarguðspjall 6

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.

Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn,

10 til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

11 Gef oss í dag vort daglegt brauð.

12 Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

13 Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. [Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]

14 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.

15 En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,

18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.

22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.

23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.

24 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

25 Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?

26 Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

27 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

28 Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.

29 En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

30 Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!

31 Segið því ekki áhyggjufullir: ,Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?`

32 Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.

33 En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

34 Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society