M’Cheyne Bible Reading Plan
30 Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin, sem ég hefi lagt fyrir þig í dag, kemur fram við þig, og þú hugfestir það meðal allra þeirra þjóða, er Drottinn Guð þinn rekur þig til,
2 og þú snýr þér aftur til Drottins Guðs þíns og hlýðir raustu hans í öllu, sem ég býð þér í dag, bæði þú og börn þín, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni,
3 þá mun Drottinn Guð þinn snúa við högum þínum og miskunna þér og safna þér aftur saman frá öllum þjóðum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir dreift þér á meðal.
4 Þótt þínir brottreknu væru yst við skaut himins, þá mun Drottinn Guð þinn saman safna þér þaðan og sækja þig þangað.
5 Og Drottinn Guð þinn mun leiða þig inn í landið, sem feður þínir áttu, og þú skalt taka það til eignar, og hann mun gjöra enn betur til þín og fjölga þér enn meir en feðrum þínum.
6 Drottinn Guð þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa.
7 Og Drottinn Guð þinn mun láta allar þessar bölvanir bitna á óvinum þínum og fjendum, þeim er hafa ofsótt þig.
8 En þú munt aftur hlýða raustu Drottins og halda allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag.
9 Drottinn Guð þinn mun veita þér gnægð gæða í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns, því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir feðrum þínum,
10 ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
11 Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér.
12 Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
13 Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
14 Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því.
15 Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.
16 Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
17 En ef hjarta þitt gjörist fráhverft og þú verður óhlýðinn og lætur tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og dýrka þá,
18 þá boða ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. Þér munuð þá eigi lifa mörg árin í landi því, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.
19 Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa,
20 með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
57 Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli. Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni,
2 þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum.
3 Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju!
4 Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi?
5 Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum.
6 Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku?
7 Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir.
8 Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra.
9 Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar.
10 Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: "Ég gefst upp!" Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki.
11 Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða? Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki?
12 En ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín _ þau munu þér að engu liði verða.
13 Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau. En sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall.
14 Sagt mun verða: "Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!"
15 Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.
16 Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.
17 Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.
18 Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum,
19 vil ég gefa ávöxt varanna _ segir Drottinn. Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann!
20 En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju.
21 Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.
5 Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.
2 Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:
3 "Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.
4 Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.
5 Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.
6 Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.
7 Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.
8 Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.
9 Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.
11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.
12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.
13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.
15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.
16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.
17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.
18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.
19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.
20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.
21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.`
22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis.
23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér,
24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.
25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.
26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.
27 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.`
28 En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.
29 Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.
30 Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.
31 Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.`
32 En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.
33 Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin.`
34 En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs,
35 né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.
36 Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart.
37 En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda.
38 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`
39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.
40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka.
41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.
42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.
43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.`
44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,
45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.
46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?
47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?
48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
by Icelandic Bible Society