Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 29

29 Þessi eru orð sáttmálans, sem Drottinn bauð Móse að gjöra við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans, sem hann gjörði við þá hjá Hóreb.

Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Þér hafið séð allt það, sem Drottinn gjörði fyrir augum yðar í Egyptalandi við Faraó og alla þjóna hans og allt land hans,

hin miklu máttarverk, er þú hefir séð með eigin augum, hin miklu tákn og undur.

En allt fram á þennan dag hefir Drottinn ekki gefið yður hjarta til að skilja með, augu til að sjá eða eyru til að heyra.

Ég leiddi yður í fjörutíu ár um eyðimörkina. Föt yðar slitnuðu ekki á yður, og skór þínir slitnuðu ekki á fótum þér,

brauð átuð þér ekki, og vín eða áfengan drykk drukkuð þér ekki, til þess að þér mættuð skilja, að ég er Drottinn, Guð yðar.

Er þér komuð hingað, og Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, fóru í móti oss til orustu, þá unnum vér sigur á þeim

og tókum land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse til eignar.

Varðveitið því orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim, til þess að yður lánist vel allt, sem þér gjörið.

10 Þér standið í dag allir frammi fyrir Drottni, Guði yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael,

11 börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, _ bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir _,

12 til þess að gangast undir sáttmála Drottins, Guðs þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er Drottinn Guð þinn gjörir við þig í dag,

13 til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Guð, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.

14 En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina,

15 heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir Drottni Guði vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag.

16 Þér vitið sjálfir, að vér bjuggum á Egyptalandi og hvernig vér komumst mitt í gegnum þær þjóðir, er þér urðuð að fara gegnum.

17 Og þér sáuð viðurstyggðir þeirra og skurðgoð þeirra úr tré og steinum, silfri og gulli, sem hjá þeim voru.

18 Aðeins að eigi sé meðal yðar karl eða kona eða heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni Guði vorum og gangi að dýrka guði þessara þjóða! Aðeins að eigi sé meðal yðar rót, sem beri eitur og malurt að ávexti! _

19 enginn sem telji sig sælan í hjarta sínu og segi, er hann heyrir orð þessa eiðfesta sáttmáls: "Mér mun vel farnast, þótt ég gangi fram í þrjósku hjarta míns." Slíkt mundi leiða til þess, að hið vökvaða yrði afmáð ásamt hinu þurra.

20 Drottinn mun eigi vilja fyrirgefa honum, heldur mun reiði Drottins og vandlæting þá bálast gegn slíkum manni, og öll bölvunin, sem rituð er í þessari bók, mun þá á honum hvíla, og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni.

21 Og Drottinn mun skilja slíka ættkvísl úr öllum ættkvíslum Ísraels henni til glötunar, samkvæmt öllum bölvunum sáttmálans, sem ritaður er í þessari lögmálsbók.

22 Hin komandi kynslóð, börn yðar, sem upp munu vaxa eftir yður, og útlendir menn, sem koma munu af fjarlægu landi, munu segja, er þeir sjá plágur þær og sóttir, er Drottinn hefir lagt á land þetta, _

23 landið er allt orðið að brennisteini, salti og brunaskellum, þar verður eigi sáð og ekkert sprettur þar og engin jurt kemur þar upp úr jörðinni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gómorra, Adma og Sebóím, er Drottinn umturnaði í reiði sinni og heift _,

24 já, allar þjóðir munu segja: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þetta land? Hvernig stendur á þessari miklu ofsareiði?"

25 Þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gjörði við þá, er hann leiddi þá af Egyptalandi,

26 en gengu að dýrka aðra guði og falla fram fyrir þeim, guði, er þeir þekktu eigi og hann hafði eigi úthlutað þeim.

27 Fyrir því upptendraðist reiði Drottins gegn landi þessu, svo að hann lét yfir þá koma alla þá bölvun, sem rituð er í þessari bók.

28 Og Drottinn sleit þá upp úr landi þeirra í reiði og heift og mikilli gremju og þeytti þeim í annað land, og er svo enn í dag."

29 Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.

Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Jesaja 56

56 Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega.

Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt.

Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir Drottni á hönd, segja: "Drottinn mun skilja mig frá lýð sínum!" Og eigi má geldingurinn segja: "Ég er visið tré!"

Því að svo segir Drottinn: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn,

þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.

Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans _ alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála,

þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.

Hinn alvaldi Drottinn segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!

Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins!

10 Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra.

11 Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína. Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag:

12 "Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!"

Matteusarguðspjall 4

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum.

Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.

Þá kom freistarinn og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum."

Jesús svaraði: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni."`

Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins

og segir við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

Jesús svaraði honum: "Aftur er ritað: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra

og segir: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig."

10 En Jesús sagði við hann: "Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."`

11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.

12 Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu.

13 Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí.

14 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

15 Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna.

16 Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.

17 Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.

21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,

22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.

24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.

25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society