M’Cheyne Bible Reading Plan
27 Móse og öldungar Ísraels buðu lýðnum og sögðu: "Varðveitið allar þær skipanir, sem ég legg fyrir yður í dag.
2 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú reisa upp stóra steina og strjúka þá utan kalki
3 og rita á þá öll orð lögmáls þessa, þá er þú ert kominn yfir um, til þess að þú komist inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér.
4 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan, þá skuluð þér reisa upp þessa steina, sem ég hefi mælt fyrir um í dag, á Ebalfjalli og strjúka þá utan kalki.
5 Þú skalt og reisa Drottni Guði þínum þar altari, altari af steinum. Þú mátt ekki bera að þeim járntól.
6 Af óhöggnum steinum skalt þú reisa altari Drottins Guðs þíns, og á því skalt þú fórna Drottni Guði þínum brennifórnum.
7 Og þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum.
8 Og þú skalt rita á steinana öll orð þessa lögmáls mjög greinilega."
9 Móse og levítaprestarnir töluðu til alls Ísraels og sögðu: "Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ert þú orðinn lýður Drottins, Guðs þíns.
10 Fyrir því skalt þú hlýða raustu Drottins Guðs þíns og halda skipanir hans og lög, sem ég legg fyrir þig í dag."
11 Þennan sama dag bauð Móse lýðnum og sagði:
12 "Þessir skulu standa á Garísímfjalli til þess að blessa lýðinn, þegar þér eruð komnir yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín.
13 Og þessir skulu standa á Ebalfjalli til að lýsa bölvan: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.
14 Levítarnir skulu taka til máls og segja með hárri raustu við alla Ísraelsmenn:
15 Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handaverk smiðs, og reisir það á laun! Og allur lýðurinn skal svara: Amen.
16 Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
17 Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
18 Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
19 Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
20 Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
21 Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
22 Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
23 Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
24 Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
25 Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
26 Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim! Og allur lýðurinn skal segja: Amen."
28 Ef þú hlýðir grandgæfilega raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og heldur allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, þá mun Drottinn Guð þinn hefja þig yfir allar þjóðir á jörðu,
2 og þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns:
3 Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.
4 Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
5 Blessuð er karfa þín og deigtrog þitt.
6 Blessaður ert þú, þegar þú gengur inn, og blessaður ert þú, þegar þú gengur út.
7 Drottinn mun láta óvini þína bíða ósigur fyrir þér, þá er upp rísa í móti þér. Um einn veg munu þeir fara í móti þér, en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér.
8 Drottinn láti blessun fylgja þér í forðabúrum þínum og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann blessi þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
9 Drottinn gjöri þig að lýð, sem heilagur er fyrir honum, eins og hann hefir svarið þér, ef þú varðveitir skipanir Drottins Guðs þíns og gengur á hans vegum.
10 Og allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni Drottins, og þær munu óttast þig.
11 Drottinn mun veita þér gnægð gæða í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns í landi því, sem Drottinn sór feðrum þínum að gefa þér.
12 Drottinn mun upp ljúka fyrir þér forðabúrinu sínu hinu góða, himninum, til þess að gefa landi þínu regn á réttum tíma og blessa öll verk handa þinna, og þú munt fé lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka fé að láni.
13 Drottinn mun gjöra þig að höfði og eigi að hala, og þú skalt stöðugt stíga upp á við, en aldrei færast niður á við, ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, til þess að þú varðveitir þær og breytir eftir þeim,
14 og ef þú víkur ekki frá neinu boðorða þeirra, er ég legg fyrir yður í dag, hvorki til hægri né vinstri, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim.
15 En ef þú hlýðir ekki raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir:
16 Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum.
17 Bölvuð er karfa þín og deigtrog þitt.
18 Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
19 Bölvaður ert þú, þegar þú gengur inn, og bölvaður ert þú, þegar þú gengur út.
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
54 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn.
2 Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.
3 Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4 Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5 Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6 Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn.
7 Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8 Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9 Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.
10 Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, _ segir miskunnari þinn, Drottinn.
11 Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum.
12 Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.
13 Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.
14 Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér.
15 Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.
16 Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.
17 Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér _ segir Drottinn.
2 Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem
2 og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu."
3 Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.
4 Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: "Hvar á Kristur að fæðast?"
5 Þeir svöruðu honum: "Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
6 Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels."
7 Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst.
8 Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: "Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu."
9 Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.
10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,
11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.
13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."
14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.
15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."
16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.
17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:
18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.
19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi
20 og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins."
21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.
22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi.
23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."
by Icelandic Bible Society