M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og þú hefir tekið það til eignar og ert setstur að í því,
2 þá skalt þú taka nokkuð af frumgróða alls ávaxtar landsins, er þú fær af landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, láta það í körfu og fara með það til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.
3 Þú skalt fara til prestsins, sem þá er, og segja við hann: "Ég játa í dag fyrir Drottni Guði þínum, að ég er kominn inn í landið, sem Drottinn sór feðrum vorum að gefa oss."
4 Og presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns.
5 Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: "Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð.
6 En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu.
7 Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð.
8 Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum.
9 Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.
10 Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér." Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum.
11 Og þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru.
12 Þegar þú hefir greitt alla tíund af afrakstri þínum þriðja árið, tíundarárið, og hefir fengið hana í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni, svo að þau megi eta hana innan borgarhliða þinna og verða mett,
13 þá skalt þú segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: "Ég hefi flutt hið heilaga burt úr húsinu og fengið það í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni og farið þannig nákvæmlega eftir boðorði þínu, því er þú hefir fyrir mig lagt. Ég hefi eigi breytt út af neinu boðorða þinna né gleymt nokkru þeirra.
14 Ég hefi eigi etið neitt af því í sorg minni, eigi flutt neitt af því burt, er ég var óhreinn, og eigi gefið dauðum manni neitt af því. Ég hefi hlýtt raustu Drottins Guðs míns og gjört allt eins og þú hefir fyrir mig lagt.
15 Lít niður frá þínum heilaga bústað, frá himnum, og blessa þú lýð þinn Ísrael og landið, sem þú hefir gefið oss, eins og þú sórst feðrum vorum, land sem flýtur í mjólk og hunangi."
16 Í dag býður Drottinn Guð þinn þér að halda þessi lög og ákvæði. Þú skalt því varðveita þau og halda þau af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
17 Þú hefir látið Drottin lýsa yfir því í dag, að hann vilji vera þinn Guð og að þér skuluð ganga á hans vegum og varðveita lög hans, skipanir og ákvæði og hlýða hans raustu.
18 Og Drottinn hefir látið þig lýsa yfir því í dag, að þú viljir vera hans eignarlýður, eins og hann hefir boðið þér, og að þú viljir varðveita allar skipanir hans,
19 svo að hann geti hafið þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, og þú sért Drottni Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
53 Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?
2 Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.
3 Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.
4 En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan,
5 en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.
6 Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.
7 Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.
8 Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.
9 Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.
10 En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.
11 Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.
12 Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.
1 Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.
2 Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.
3 Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,
4 Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,
5 Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,
6 og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,
7 Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,
8 Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,
9 Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,
10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.
11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.
12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,
13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,
14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,
15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,
16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.
17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.
18 Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.
19 Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.
20 Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.
21 Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra."
22 Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins:
23 "Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel," það þýðir: Guð með oss.
24 Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.
25 Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.
by Icelandic Bible Society