M’Cheyne Bible Reading Plan
24 Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni, en hún finnur síðan ekki náð í augum hans, af því að hann verður var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni, og hann skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur og lætur hana fara burt af heimili sínu, _
2 ef hún því næst, eftir að hún er farin burt af heimili hans, fer og giftist öðrum manni,
3 en þessi seinni maður leggur líka óvild á hana og skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur, og lætur hana fara burt af heimili sínu _, eða ef seinni maðurinn, sem kvæntist henni, deyr,
4 þá má ekki fyrri maður hennar, sá er við hana skildi, taka hana aftur sér að eiginkonu, eftir að hún er saurguð orðin, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni, og þú skalt eigi flekka landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
5 Þegar maður er nýkvæntur, þá skal hann ekki fara í hernað og engar álögur skulu á hann lagðar. Hann skal vera frjáls maður fyrir heimili sitt eitt ár, svo að hann gleðji konu sína, er hann hefir gengið að eiga.
6 Eigi skal taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði, því að það væri að taka líf mannsins að veði.
7 Ef maður verður uppvís að því að stela einhverjum af bræðrum sínum, einhverjum af Ísraelsmönnum, og hann fer með hann sem þræl eða selur hann, þá skal slíkur þjófur deyja. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
8 Gæt þín í líkþrárveikindum að athuga vandlega og fara eftir öllu því, sem levítaprestarnir tjá yður. Þér skuluð gæta þess að gjöra svo sem ég hefi fyrir þá lagt.
9 Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Mirjam á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi.
10 Þegar þú lánar náunga þínum eitthvað, hvað sem það svo er, þá skalt þú eigi ganga inn í hús hans til þess að taka veð af honum.
11 Þú skalt staðnæmast úti fyrir, og sá, er þú lánar, skal færa þér veðið út.
12 Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans,
13 heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti Drottins Guðs þíns.
14 Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu innan borgarhliða þinna.
15 Þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn, áður en sól sest, _ því að hann er fátækur, og hann langar til að fá það _, svo að hann hrópi ekki til Drottins yfir þér og það verði þér til syndar.
16 Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd.
17 Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði.
18 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
19 Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.
20 Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.
21 Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.
22 Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
51 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir!
2 Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.
3 Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.
4 Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.
5 Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.
6 Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.
7 Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra,
8 því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.
9 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?
10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?
11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,
13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?
14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _
15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.
16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"
17 Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!
18 Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.
19 Þetta tvennt henti þig _ hver aumkar þig? _ eyðing og umturnun, hungur og sverð _ hver huggar þig?
20 Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns.
21 Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni:
22 Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja.
23 Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: "Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!" Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.
21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.
2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.
3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.
4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."
5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."
6 Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.
7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.
8 En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."
9 Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins."
10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði.
11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.
12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.
13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið.
14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.
15 Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar.
16 Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar.
17 Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils.
18 Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri.
19 Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð,
20 fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst.
21 Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler.
22 Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.
23 Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.
24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.
25 Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga _ því að nótt verður þar ekki.
26 Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna.
27 Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.
by Icelandic Bible Society