M’Cheyne Bible Reading Plan
23 Enginn sá, er meiddur hefir verið eistnamari eða hreðurskorinn, má vera í söfnuði Drottins.
2 Enginn bastarður má vera í söfnuði Drottins, jafnvel ekki tíundi maður frá honum má vera í söfnuði Drottins.
3 Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu,
4 vegna þess að þeir komu ekki í móti yður með brauð og vatn, þá er þér voruð á leiðinni frá Egyptalandi, og vegna þess að þeir keyptu í móti þér Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til þess að bölva þér.
5 En Drottinn Guð þinn vildi ekki hlýða á Bíleam, og Drottinn Guð þinn sneri bölvaninni í blessan fyrir þig, af því að Drottinn Guð þinn elskaði þig.
6 Þú skalt aldrei alla ævi þína láta þér annt um farsæld þeirra og velgengni.
7 Þú skalt eigi hafa andstyggð á Edómítum, því að þeir eru bræður þínir. Þú skalt eigi hafa andstyggð á Egyptum, því að þú dvaldir sem útlendingur í landi þeirra.
8 Afkomendur þeirra í þriðja lið mega vera í söfnuði Drottins.
9 Þegar þú fer í hernað móti óvinum þínum, þá skalt þú gæta þín við öllum illum hlutum.
10 Ef einhver, sem með þér er, er ekki hreinn vegna þess, sem hann hefir hent um nóttina, þá skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má eigi koma inn í herbúðirnar,
11 en að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni, og er sól er setst, má hann aftur ganga inn í herbúðirnar.
12 Þú skalt og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú fara erinda þinna.
13 Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin.
14 Því að Drottinn Guð þinn er á gangi um herbúðir þínar til þess að frelsa þig og gefa óvini þína á þitt vald; fyrir því skulu herbúðir þínar helgar vera, svo að hann sjái ekkert óþokkalegt hjá þér og snúi sér burt frá þér.
15 Þú skalt eigi framselja í hendur húsbónda þræl, sem flúið hefir til þín frá húsbónda sínum.
16 Hann skal setjast að hjá þér, í landi þínu, á þeim stað, er hann sjálfur velur, í einhverri af borgum þínum, þar sem honum best líkar. Þú skalt ekki sýna honum ójöfnuð.
17 Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði.
18 Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús Drottins Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er Drottni Guði þínum andstyggilegt.
19 Þú skalt ekki taka fjárleigu af bróður þínum, hvorki fyrir peninga, matvæli né nokkurn hlut annan, er ljá má gegn leigu.
20 Af útlendum manni mátt þú taka fjárleigu, en af bróður þínum mátt þú ekki taka fjárleigu, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur í landinu, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
21 Þegar þú gjörir Drottni Guði þínum heit, þá skalt þú ekki láta dragast að efna það, því að ella mun Drottinn Guð þinn krefjast þess af þér og það verða þér til syndar.
22 En þótt þú sleppir því að gjöra heit, þá hvílir engin sekt á þér fyrir það.
23 Það sem komið hefir yfir varir þínar, skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum.
24 Þegar þú kemur í víngarð náunga þíns, þá mátt þú eta vínber eins og þig lystir, þar til er þú ert mettur, en í ker þitt mátt þú ekkert láta.
25 Þegar þú kemur á kornakur náunga þíns, þá mátt þú tína öx með hendinni, en sigð mátt þú ekki sveifla yfir kornstöngum náunga þíns.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
50 Svo segir Drottinn: Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með? Eða hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður? Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin.
2 Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði? Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta.
3 Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning.
4 Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.
5 Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.
6 Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.
7 Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.
8 Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!
9 Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.
10 Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.
11 Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.
20 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.
2 Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.
3 Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.
4 Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.
5 En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan.
6 Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.
7 Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu.
8 Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins.
9 Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim.
10 Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.
11 Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað.
12 Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.
13 Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.
14 Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.
15 Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.
by Icelandic Bible Society