M’Cheyne Bible Reading Plan
22 Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns.
2 En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur.
3 Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér.
4 Ef þú sér asna eða uxa bróður þíns liggja afvelta á veginum, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim. Þú skalt vissulega hjálpa honum til að reisa þá á fætur.
5 Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.
6 Ef fuglshreiður verður fyrir þér á leið þinni, uppi í tré eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá skalt þú ekki taka móðurina ásamt ungunum.
7 Þú skalt sleppa móðurinni, en taka ungana eina, til þess að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.
8 Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.
9 Þú skalt eigi sá víngarð þinn tvenns konar sæði, svo að allt falli ekki undir helgidóminn, sæðið, sem þú sáir, og eftirtekjan af víngarðinum.
10 Þú skalt ekki plægja með uxa og asna saman.
11 Þú skalt ekki fara í föt, sem ofin eru af tvenns konar efni, af ull og hör saman.
12 Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.
13 Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni,
14 og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: "Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,"
15 þá skulu foreldrar stúlkunnar taka meydómsmerki hennar og fara með þau til öldunga borgarinnar í borgarhliðið,
16 og faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: "Dóttur mína gaf ég þessum manni að eiginkonu, en hann hefir óbeit á henni.
17 Nú ber hann svívirðilegar sakir á hana og segir: ,Ég fann eigi meydómsmerki hjá dóttur þinni.` En hér eru sannanir fyrir meydómi dóttur minnar!" Og þau skulu breiða út rekkjuklæðið í augsýn öldunga borgarinnar.
18 Og öldungar borgarinnar skulu taka manninn og refsa honum,
19 og þeir skulu gjöra bætur á hendur honum, hundrað sikla silfurs, og greiða þá föður stúlkunnar, fyrir það að hann ófrægði mey í Ísrael. Og hún skal vera kona hans, honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.
20 En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið,
21 þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
22 Ef maður er staðinn að því að liggja hjá konu annars manns, þá skulu þau bæði deyja, maðurinn, sem lá hjá konunni, og konan sjálf. Þannig skalt þú útrýma hinu illa úr Ísrael.
23 Nú er mey manni föstnuð, og karlmaður hittir hana innan borgar og leggst með henni,
24 þá skuluð þér leiða þau bæði að borgarhliðinu og lemja þau grjóti til bana, stúlkuna vegna þess að hún kallaði ekki, þó að hún væri inni í borginni, og manninn vegna þess að hann spjallaði konu náunga síns. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
25 En ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, og hann tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn einn deyja, sá er með henni lagðist.
26 En stúlkunni skalt þú ekkert gjöra. Hún hefir ekki framið neitt það, sem dauða sé vert, því að hér stóð eins á og þegar maður ræðst á náunga sinn og drepur hann.
27 Því að þar sem hann hitti hana úti á víðavangi, kann fastnaða stúlkan að hafa kallað, en enginn verið við til að hjálpa henni.
28 Ef maður hittir mey, sem eigi er föstnuð, og hann tekur hana og leggst með henni og komið er að þeim,
29 þá skal maðurinn, er lagðist með henni, greiða föður stúlkunnar fimmtíu sikla silfurs, en hún skal verða kona hans, fyrir því að hann hefir spjallað hana. Honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.
30 Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu föður síns.
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.
2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.
3 Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4 En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _
6 nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
7 Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.
8 Svo segir Drottinn: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn,
9 til þess að segja hinum fjötruðu: "Gangið út," og þeim sem í myrkrunum eru: "Komið fram í dagsbirtuna." Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá.
10 Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum.
11 Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka.
12 Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene.
13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.
14 Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"
15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.
17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.
18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður.
19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt _ já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.
20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"
21 Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"
22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.
23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.
24 Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?
25 Já, svo segir Drottinn: Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa.
26 Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.
19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.
2 Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."
3 Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."
4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"
5 Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."
6 Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.
7 Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.
8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."
9 Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs."
10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."
11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.
12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.
13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.
14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.
15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.
16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."
17 Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: "Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs
18 til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra."
19 Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans.
20 Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini.
21 Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.
by Icelandic Bible Society