M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið,
2 þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna.
3 Og sú borg, sem næst er hinum vegna, _ öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki.
4 Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum.
5 Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, _ því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum _,
6 og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum,
7 og þeir skulu taka til orða og segja: "Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það.
8 Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!" Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða.
9 Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.
10 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra,
11 og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu,
12 þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar
13 og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín.
14 En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana.
15 Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um,
16 þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er,
17 heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn.
18 Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann,
19 þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima,
20 og segja við öldunga borgar hans: "Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur."
21 Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.
22 Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré,
23 þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
108 Ljóð. Davíðssálmur.
2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,
2 því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.
3 Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.
4 Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.
5 Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.
6 Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.
7 Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.
8 Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.
9 Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.
10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.
11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.
12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.
13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.
14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,
15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni
16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.
17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.
18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,
19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.
20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.
21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,
22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.
23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.
24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.
25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.
26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,
27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.
28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.
29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.
30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,
31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.
48 Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti,
2 því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar.
3 Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.
4 Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar,
5 fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: "Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því."
6 Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um.
7 Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: "Sjá, ég vissi það!"
8 Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið "trúrofi" frá móðurlífi.
9 Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.
10 Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar.
11 Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!
12 Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti.
13 Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau.
14 Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er Drottinn elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea?
15 Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi.
16 Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég. Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda.
17 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.
18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.
19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.
20 Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: Drottinn hefir frelsað þjón sinn Jakob!
21 Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp.
22 Hinum óguðlegu, segir Drottinn, er enginn friður búinn.
18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.
2 Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.
3 Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."
4 Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.
5 Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.
6 Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.
7 Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`
8 Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."
9 Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar.
10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."
11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra,
12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara,
13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir.
14 Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna.
15 Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi
16 og segja: "Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum.
17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður." Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar
18 og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: "Hvaða borg jafnast við borgina miklu?"
19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: "Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð."
20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.
21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.
22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast.
23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum.
24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."
by Icelandic Bible Society