M’Cheyne Bible Reading Plan
20 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og þú sér hesta og vagna og liðfleiri her en þú ert, þá skalt þú ekki óttast þá, því að Drottinn Guð þinn er með þér, hann sem leiddi þig burt af Egyptalandi.
2 Og þegar að því er komið, að þér leggið til orustu, þá skal presturinn ganga fram og mæla til lýðsins
3 og segja við þá: "Heyr, Ísrael! Þér leggið í dag til orustu við óvini yðar. Látið ekki hugfallast, óttist ekki, skelfist ekki og hræðist þá ekki,
4 því að Drottinn Guð yðar fer með yður til þess að berjast fyrir yður við óvini yðar og veita yður fulltingi."
5 Því næst skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, er reist hefir nýtt hús, en hefir ekki vígt það, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður vígi það.
6 Hver sá maður, sem plantað hefir víngarð, en hefir engar hans nytjar haft, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður hafi hans not.
7 Hver sá maður, er fastnað hefir sér konu, en hefir ekki enn gengið að eiga hana, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður gangi að eiga hana."
8 Enn fremur skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, sem hræddur er og hugdeigur, skal fara og snúa heim aftur, svo að bræðrum hans fallist ekki hugur eins og honum."
9 Og er tilsjónarmennirnir hafa lokið því að mæla til lýðsins, skal skipa hershöfðingja yfir liðið.
10 Þegar þú býst til að herja á borg, þá skalt þú bjóða henni frið.
11 Og ef hún veitir friðsamleg andsvör og lýkur upp fyrir þér, þá skal allur lýðurinn, sem í henni finnst, vera þér ánauðugur og þjóna þér.
12 En vilji hún ekki gjöra frið við þig, heldur eiga ófrið við þig, þá skalt þú setjast um hana,
13 og þegar Drottinn Guð þinn gefur hana í hendur þér, skalt þú deyða með sverðseggjum allt karlkyn, sem í henni er,
14 en konum, börnum og fénaði og öllu, sem er í borginni, öllu herfanginu, mátt þú ræna handa þér og neyta herfangs óvina þinna, þess er Drottinn Guð þinn gefur þér.
15 Svo skalt þú fara með allar þær borgir, sem eru mjög í fjarska við þig og ekki eru af borgum þessara þjóða.
16 En í borgum þessara þjóða, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, skalt þú enga mannssál láta lífi halda.
17 Miklu fremur skalt þú gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og Drottinn Guð þinn hefir fyrir þig lagt,
18 til þess að þeir kenni yður ekki að taka upp allar þær svívirðingar, er þeir hafa í frammi haft guðum sínum til vegsemdar, og þér syndgið gegn Drottni Guði yðar.
19 Þegar þú verður að sitja lengi um einhverja borg til þess að taka hana herskildi, þá skalt þú ekki spilla trjám hennar með því að bera að þeim exi, því að þú getur etið af þeim aldinin, og þú skalt ekki höggva þau, því að hvort munu tré merkurinnar vera menn, svo að þau þurfi að vera í umsát þinni?
20 Þau tré ein, er þú veist að eigi bera æt aldin, þeim mátt þú spilla og höggva þau til þess að reisa úr þeim hervirki gegn borg þeirri, er á í ófriði við þig, uns hún fellur.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.
17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.
23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.
42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
47 Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir! Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða.
2 Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin!
3 Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg. Ég vil hefna mín og hlífi engum,
4 segir lausnari vor; Drottinn allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael.
5 Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna.
6 Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér. En þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok.
7 Og þú sagðir: "Ég skal verða drottning um aldur og ævi." Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða.
8 En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus."
9 En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar.
10 Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: "Enginn sér til mín." Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur!"
11 Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst.
12 Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt.
13 Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.
14 Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við.
15 Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.
17 Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu.
2 Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar."
3 Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn.
4 Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar.
5 Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.
6 Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana.
7 Og engillinn sagði við mig: "Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu:
8 Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur.
9 Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar.
10 Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.
11 Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar.
12 Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu.
13 Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu.
14 Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, _ því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga."
15 Og hann segir við mig: "Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur.
16 Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi,
17 því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram.
18 Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar."
by Icelandic Bible Society