Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 19

19 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir, hverra land Drottinn Guð þinn gefur þér, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í borgum þeirra og húsum,

þá skalt þú skilja frá þrjár borgir í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

Þú skalt leggja veg að þeim og skipta gjörvöllu landi þínu, því er Drottinn Guð þinn lætur þig eignast, í þrjá hluti, og skal það vera til þess að þangað megi flýja hver sá, er mann vegur.

Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr til þess að forða lífi sínu: Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður,

svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af _ sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu,

til þess að hefndarmaðurinn elti ekki vegandann meðan móðurinn er á honum og nái honum, af því að vegurinn er langur, og drepi hann, þótt hann sé ekki dauðasekur, með því að hann var ekki óvinur hans áður.

Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt skilja þrjár borgir frá.

Og ef Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir svarið feðrum þínum, og hann gefur þér gjörvallt landið, sem hann hét að gefa feðrum þínum,

svo framarlega sem þú gætir þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, með því að elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum alla daga, þá skalt þú enn bæta þrem borgum við þessar þrjár,

10 til þess að saklausu blóði verði eigi úthellt í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og blóðsök falli eigi á þig.

11 En ef maður hatast við náunga sinn og situr um hann, ræðst á hann og lýstur hann til bana og flýr síðan í einhverja af borgum þessum,

12 þá skulu öldungar þeirrar borgar, er hann á heima í, senda þangað og sækja hann og selja í hendur hefndarmanni til lífláts.

13 Þú skalt ekki líta hann vægðarauga, heldur hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel.

14 Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett, á arfleifð þinni, er þú munt eignast í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

15 Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða _ hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt. Því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri.

16 Nú rís falsvottur gegn einhverjum og ber á hann lagabrot,

17 og skulu þá báðir þeir, er kærumálið eiga saman, ganga fram fyrir Drottin, fyrir prestana og dómarana, sem þá eru í þann tíma,

18 og dómararnir skulu rannsaka það rækilega, og ef þá reynist svo, að votturinn er ljúgvottur, að hann hefir borið lygar á bróður sinn,

19 þá skuluð þér gjöra svo við hann sem hann hafði hugsað að gjöra við bróður sinn, og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

20 Og hinir munu heyra það og skelfast og eigi framar hafast að slíkt ódæði þín á meðal.

21 Eigi skalt þú líta slíkt vægðarauga: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.

Sálmarnir 106

106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?

Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.

Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,

að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.

Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.

Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.

Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.

Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.

10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.

11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.

13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.

14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.

15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.

16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.

17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,

18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,

20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.

21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,

22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.

23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.

25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.

26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,

27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.

29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.

30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.

31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,

33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,

35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.

36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,

37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum

38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.

39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Jesaja 46

46 Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.

Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.

Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi:

Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.

Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?

Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram.

Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.

Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar.

Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.

10 Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.

11 Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.

12 Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu!

13 Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.

Opinberun Jóhannesar 16

16 Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: "Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina."

Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess.

Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.

Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði.

Og ég heyrði engil vatnanna segja: "Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi.

Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess."

Og ég heyrði altarið segja: "Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir."

Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi.

Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.

10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl.

11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.

12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.

13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru,

14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.

15 "Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans."

16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.

17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: "Það er fram komið."

18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti.

19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar.

20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til.

21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society