Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 18

18 Eigi skulu levítaprestarnir, öll kynkvísl Leví, fá hlut og óðal með Ísrael. Á eldfórnum Drottins og erfðahluta hans skulu þeir lifa.

En óðal skulu þeir eigi fá meðal bræðra sinna. Drottinn er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.

Þessi skulu vera réttindi prestanna af hálfu lýðsins, af hálfu þeirra manna, er fórna sláturfórn, hvort heldur er nauti eða sauð: Presti skal gefa bóginn, báða kjammana og vinstrina.

Frumgróðann af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og fyrstu ullina, sem þú klippir af sauðfé þínu, skalt þú gefa honum.

Því að Drottinn Guð þinn hefir útvalið hann af öllum kynkvíslum þínum, til þess að hann og synir hans gegni þjónustu í nafni Drottins alla daga.

Nú kemur levíti úr einhverri af borgum þínum í öllum Ísrael, þar er hann dvelur sem útlendingur _ og hann má koma eftir vild sinni _ til þess staðar, er Drottinn velur,

og má hann þá gegna þjónustu í nafni Drottins Guðs síns eins og allir bræður hans, levítarnir, er standa þar frammi fyrir Drottni.

Þeir skulu fá jafnan hlut til viðurværis, án tillits til þess, er hann fær fyrir selda séreign sína.

Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða.

10 Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður

11 eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum.

12 Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér.

13 Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni Guði þínum.

14 Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt.

15 Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða.

16 Mun þannig fyllilega rætast það, er þú baðst Drottin Guð þinn um hjá Hóreb, daginn sem þér voruð þar saman komnir, er þú sagðir: "Eigi vildi ég lengur þurfa að heyra raust Drottins Guðs míns né oftar að sjá þennan mikla eld, svo að ég deyi ekki."

17 Þá sagði Drottinn við mig: "Vel er það mælt, sem þeir segja.

18 Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum.

19 Og hvern þann, er eigi vill hlýða á orð mín, þau er hann mun flytja í mínu nafni, hann mun ég krefja reikningsskapar.

20 En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.

21 Ef þú segir í hjarta þínu: ,Hvernig fáum vér þekkt úr þau orð, er Drottinn hefir ekki talað?`

22 þá vit, að þegar spámaður talar í nafni Drottins og það rætist eigi né kemur fram, þá eru það orð, sem Drottinn hefir eigi talað. Af ofdirfsku sinni hefir spámaðurinn talað það, þú þarft ekki að hræðast hann."

Sálmarnir 105

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Jesaja 45

45 Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:

Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar.

Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.

Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.

Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki,

svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er Drottinn og enginn annar.

Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta.

Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar.

Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: "Hvað getur þú?" eða handaverk hans: "Hann hefir engar hendur."

10 Vei þeim, sem segir við föður sinn: "Hvað munt þú fá getið!" eða við konuna: "Hvað ætli þú getir fætt!"

11 Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna!

12 Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.

13 Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, _ segir Drottinn allsherjar.

14 Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: "Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð."

15 Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.

16 Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.

17 En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.

18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.

19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.

20 Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.

21 Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.

22 Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.

23 Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.

24 "Hjá Drottni einum," mun um mig sagt verða, "er réttlæti og vald." Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.

25 Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.

Opinberun Jóhannesar 15

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins.

Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.

Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda.

Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society