Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 17

17 Þú skalt ekki fórna Drottni Guði þínum nokkru því nauti eða sauð, sem lýti er á, einhver slæmur galli, því að það er andstyggilegt Drottni Guði þínum.

Ef hjá þér finnst, í einhverri af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, maður eða kona, er gjörir það sem illt er í augum Drottins Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmála hans,

og fer og dýrkar aðra guði og fellur fram fyrir þeim, eða fyrir sólinni eða tunglinu eða öllum himinsins her, er ég hefi eigi leyft,

og verði þér sagt frá þessu og þú heyrir það, þá skalt þú rækilega rannsaka það, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið í Ísrael,

þá skalt þú leiða mann þann eða konu, er slíkt ódæði hefir framið, að borgarhliðinu _ manninn eða konuna, og lemja þau grjóti til bana.

Eftir framburði tveggja eða þriggja vitna skal sá líflátinn verða, er fyrir dauðasök er hafður. Eigi skal hann líflátinn eftir framburði eins vitnis.

Vitnin skulu fyrst reiða hönd gegn honum til þess að deyða hann, og því næst allur lýðurinn. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

Ef þér er um megn að dæma í einhverju máli: manndrápsmáli, máli um eignarrétt, meiðslamáli _ í einhverjum þrætumálum innan borgarhliða þinna, þá skalt þú hafa þig til vegar og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur,

og þú skalt ganga fyrir levítaprestana og dómarann, sem þá er, og þú skalt spyrja þá ráða, og þeir skulu segja þér dómsatkvæðið.

10 Og þú skalt fara eftir því atkvæði, sem þeir segja þér á þeim stað, sem Drottinn velur, og þú skalt gæta þess að gjöra allt eins og þeir segja þér fyrir.

11 Eftir þeim fyrirmælum, sem þeir tjá þér, og eftir þeim dómi, sem þeir segja þér, skalt þú fara. Þú skalt eigi víkja frá atkvæðinu, sem þeir segja þér, hvorki til hægri né vinstri.

12 En ef nokkur gjörir sig svo djarfan, að hann vill eigi hlýða á prestinn, sem stendur þar í þjónustu Drottins Guðs þíns, eða á dómarann _ sá maður skal deyja, og þú skalt útrýma hinu illa úr Ísrael,

13 svo að allur lýðurinn heyri það og skelfist og enginn sýni framar slíka ofdirfsku.

14 Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, og þú hefir fengið það til eignar og ert setstur þar að og segir: "Ég vil taka mér konung, eins og allar þjóðirnar, sem í kringum mig eru,"

15 þá skalt þú taka þann til konungs yfir þig, sem Drottinn Guð þinn útvelur. Mann af bræðrum þínum skalt þú taka til konungs yfir þig. Eigi mátt þú setja útlendan mann yfir þig, þann sem eigi er bróðir þinn.

16 Eigi skal hann hafa marga hesta, né heldur fara aftur með lýðinn til Egyptalands til þess að afla sér margra hesta, með því að Drottinn hefir sagt við yður: "Þér skuluð aldrei snúa aftur þessa leið."

17 Hann skal og eigi hafa margar konur, svo að hjarta hans gjörist eigi fráhverft, og hann skal eigi draga saman ógrynni af silfri og gulli.

18 Og þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók.

19 Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast Drottin Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði,

20 að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína og víki eigi frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri, svo að hann megi um langa ævi ríkjum ráða í Ísrael, hann og synir hans.

Sálmarnir 104

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,

11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.

12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.

13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.

14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni

15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.

16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett

17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.

18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.

20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.

21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.

22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,

23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Jesaja 44

44 Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið.

Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið.

Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt.

Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum.

Einn mun segja: "Ég heyri Drottni," annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína "Helgaður Drottni" og kenna sig við Ísrael.

Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.

Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!

Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.

Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.

10 Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði?

11 Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, _ látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.

12 Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann.

13 Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi.

14 Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau.

15 Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því.

16 Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn."

17 En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"

18 Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki.

19 Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!"

20 Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"

21 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða!

22 Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.

23 Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.

24 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði: Ég er Drottinn, sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust,

25 sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku,

26 sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna. Ég er sá sem segi um Jerúsalem: "Verði hún aftur byggð!" og um borgirnar í Júda: "Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!"

27 Ég er sá sem segi við djúpið: "Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!"

28 Ég er sá sem segi um Kýrus: "Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!"

Opinberun Jóhannesar 14

14 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.

Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar.

Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni.

Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.

Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.

Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,

og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."

Og enn annar engill kom á eftir og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns."

Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: "Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína,

10 þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins.

11 Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess."

12 Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.

13 Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."

14 Og ég sá, og sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð.

15 Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: "Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað."

16 Og sá, sem á skýinu sat, brá sigð sinni á jörðina og upp var skorið á jörðinni.

17 Og annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka bitra sigð.

18 Og annar engill gekk út frá altarinu, hann hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess, sem hafði bitru sigðina: "Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð."

19 Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu.

20 Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af vínþrönginni, svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society