M’Cheyne Bible Reading Plan
16 Gæt þess að halda Drottni Guði þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi Drottinn Guð þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi.
2 Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn til handa Drottni Guði þínum á þeim stað, sem Drottinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.
3 Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð _ því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, _ til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína.
4 Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns.
5 Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er Drottinn Guð þinn gefur þér,
6 heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil,
7 í það mund, er þú fórst af Egyptalandi. Og þú skalt sjóða það og eta á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, og morguninn eftir skalt þú snúa á leið og halda heim til tjalda þinna.
8 Sex daga skalt þú eta ósýrð brauð, og sjöunda daginn skal vera hátíðafundur til handa Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna.
9 Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur.
10 Þá skalt þú halda Drottni Guði þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig.
11 Og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.
12 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, og þú skalt gæta þess að halda þessi lög.
13 Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni.
14 Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna.
15 Í sjö daga skalt þú halda Drottni Guði þínum hátíð á þeim stað, sem Drottinn velur, því að Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.
16 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir Drottin skal enginn koma tómhentur.
17 Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér.
18 Dómendur og tilsjónarmenn skalt þú skipa í öllum borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, eftir ættkvíslum þínum, og þeir skulu dæma lýðinn réttlátum dómi.
19 Þú skalt eigi halla réttinum. Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu.
20 Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
21 Þú skalt ekki gróðursetja aséru af neins konar tré hjá altari Drottins Guðs þíns, því er þú gjörir þér.
22 Þú skalt ekki reisa þér neinn merkisstein, þann er Drottinn Guð þinn hatar.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.
2 Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.
3 Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.
4 Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.
5 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.
6 Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:
7 sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"
8 Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.
9 Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"
10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.
11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.
12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð.
13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?
14 Svo segir Drottinn, frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael: Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng.
15 Ég, Drottinn, er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar.
16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn,
17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:
18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var.
19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.
20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.
21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.
22 Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael.
23 Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi.
24 Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.
25 Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.
26 Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig.
27 Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér.
28 Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.
13 Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfðum þess voru guðlöstunar nöfn.
2 Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.
3 Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis, en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun,
4 og þeir tilbáðu drekann, af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: "Hver jafnast við dýrið og hver getur barist við það?"
5 Og því var gefinn munnur, er talaði stóryrði og guðlastanir, og lofað að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði.
6 Og það lauk upp munni sínum til lastmæla gegn Guði, til að lastmæla nafni hans og tjaldbúð hans og þeim, sem á himni búa.
7 Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð.
8 Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var.
9 Sá sem hefur eyra, hann heyri.
10 Sá sem ætlaður er til herleiðingar verður herleiddur. Sá sem sverði er ætlaður verður deyddur með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.
11 Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni og það hafði tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki.
12 Það fer með allt vald fyrra dýrsins fyrir augsýn þess og það lætur jörðina og þá, sem á henni búa, tilbiðja fyrra dýrið, sem varð heilt af banasári sínu.
13 Og það gjörir tákn mikil, svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna.
14 Og það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa, með táknunum, sem því er lofað að gjöra í augsýn dýrsins. Það segir þeim, sem á jörðunni búa, að þeir skuli gjöra líkneski af dýrinu, sem sárið fékk undan sverðinu, en lifnaði við.
15 Og því var leyft að gefa líkneski dýrsins anda, til þess að líkneski dýrsins gæti einnig talað og komið því til leiðar, að allir yrðu þeir deyddir, sem ekki vildu tilbiðja líkneski dýrsins.
16 Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín
17 og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess.
18 Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.
by Icelandic Bible Society