Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 15

15 Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda.

En þeirri umlíðun er svo farið: Sérhver lánardrottinn skal veita umlíðun á því, sem hann hefir lánað náunga sínum. Hann skal eigi ganga hart að náunga sínum og bróður, því að umlíðun hefir boðuð verið Drottni til dýrðar.

Að útlendum manni mátt þú ganga hart, en það, sem þú átt hjá bróður þínum, skalt þú líða hann um.

Reyndar mun enginn fátækur hjá þér vera, því að Drottinn mun blessa þig ríkulega í landi því, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar,

ef þú aðeins hlýðir kostgæfilega raustu Drottins Guðs þíns með því að gæta þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag.

Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, eins og hann hefir heitið þér, svo að þú munt lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka lán, og þú munt drottna yfir mörgum þjóðum, en þær munu eigi drottna yfir þér.

Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum,

heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.

Gæt þín, að eigi komi sú ódrengskaparhugsun upp í hjarta þínu: "Sjöunda árið, umlíðunarárið, er fyrir hendi!" og að þú lítir eigi fátækan bróður þinn óblíðu auga og gefir honum ekkert, svo að hann hrópi til Drottins yfir þér, og það verði þér til syndar.

10 Miklu fremur skalt þú gefa honum og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun Drottinn Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur,

11 því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu.

12 Ef bróðir þinn, hebreskur maður eða hebresk kona, selur sig þér, þá skal hann þjóna þér í sex ár, en sjöunda árið skalt þú láta hann lausan frá þér fara.

13 Og þegar þú lætur hann lausan frá þér fara, þá skalt þú ekki láta hann fara tómhentan.

14 Þú skalt gjöra hann vel úr garði og gefa honum af hjörð þinni, úr láfa þínum og vínþröng þinni, þú skalt gefa honum af því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.

15 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig. Fyrir því legg ég þetta fyrir þig í dag.

16 En segi hann við þig: "Ég vil ekki fara frá þér," af því að honum er orðið vel við þig og skyldulið þitt, með því að honum líður vel hjá þér,

17 þá skalt þú taka al og stinga í gegnum eyra honum inn í hurðina, og skal hann síðan vera þræll þinn ævinlega. Á sömu leið skalt þú og fara með ambátt þína.

18 Lát þér eigi fallast um það, þótt þú eigir að láta hann lausan frá þér fara, því að í sex ár hefir hann unnið þér tvöfalt, miðað við kaup kaupamanns. Og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í öllu, sem þú gjörir.

19 Alla frumburði karlkyns, sem fæðast á meðal nautgripa þinna og sauðfjár þíns, skalt þú helga Drottni Guði þínum. Frumburði nauta þinna skalt þú ekki hafa til vinnu né klippa frumburði sauðfjár þíns.

20 Frammi fyrir augliti Drottins Guðs þíns skalt þú eta þá á ári hverju á þeim stað, sem Drottinn velur, ásamt skylduliði þínu.

21 En ef einhver lýti eru á þeim, ef þeir eru haltir eða blindir eða hafa einhvern annan slæman galla, þá skalt þú eigi fórna þeim Drottni Guði þínum.

22 Innan borgarhliða þinna skalt þú eta þá, og það jafnt óhreinn sem hreinn, sem væri það skógargeit eða hjörtur.

23 Blóðsins eins skalt þú ekki neyta; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

Sálmarnir 102

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.

20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar

21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,

22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,

23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.

25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.

26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.

27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.

28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.

29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

Jesaja 42

42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.

Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.

Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.

Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.

Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:

Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar

til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.

Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.

Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.

10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!

11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!

12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!

13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:

14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.

15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.

16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.

17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."

18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!

19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?

20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.

21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.

22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: "Skilið þeim aftur!"

23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?

24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki.

25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.

Opinberun Jóhannesar 12

12 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.

Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.

Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.

Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.

Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.

En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.

Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,

en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.

Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.

10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.

11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.

12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."

13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið.

14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins.

15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum.

16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér.

17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.

18 Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society