M’Cheyne Bible Reading Plan
13 Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur,
2 og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: "Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!"
3 þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að Drottinn Guð yðar reynir yður til þess að vita, hvort þér elskið Drottin Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.
4 Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.
5 En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að tæla þig burt af þeim vegi, sem Drottinn Guð þinn bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
6 Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: "Vér skulum fara og dýrka aðra guði," þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt,
7 af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars,
8 þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum,
9 heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins.
10 Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
11 Og allur Ísrael skal heyra það og skelfast, svo að enginn hafist framar að slíkt ódæði þín á meðal.
12 Ef þú heyrir sagt um einhverja af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér til þess að búa í:
13 "Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal, og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: ,Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,"`
14 þá skalt þú rækilega rannsaka það, grennslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal,
15 þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum, bannfæra borgina og allt, sem í henni er, og fénaðinn í henni með sverðseggjum.
16 Allt herfangið úr henni skalt þú bera saman á torgið og brenna síðan borgina og allt herfangið í eldi sem eldfórn Drottni Guði þínum til handa, og hún skal verða ævarandi rúst og aldrei framar endurreist verða.
17 Og ekkert af hinu bannfærða skal loða við hendur þínar, til þess að Drottinn megi láta af hinni brennandi reiði sinni og auðsýni þér miskunnsemi, og til þess að hann miskunni þér og margfaldi þig, eins og hann sór feðrum þínum,
18 er þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns með því að varðveita allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, og gjörir það sem rétt er í augum Drottins Guðs þíns.
14 Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. Þér skuluð eigi rista skinnsprettur á yður né raka yður krúnu eftir framliðinn mann.
2 Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður, og þig hefir Drottinn kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru.
3 Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt.
4 Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé,
5 hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.
7 Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir, _
8 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta.
9 Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta,
10 en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein.
11 Alla hreina fugla megið þér eta,
12 en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn,
13 gleðuna og fálkakynið, _
14 allt hrafnakynið, _
15 strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið, _
16 ugluna, náttugluna og hornugluna,
17 pelíkanann, hrægamminn og súluna,
18 storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna.
19 Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta.
20 Öll hrein flugdýr megið þér eta.
21 Þér skuluð ekki eta neitt sjálfdautt. Útlendum manni, sem er innan borgarhliða þinna, mátt þú gefa það til að eta, eða selja það aðkomnum manni, því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.
22 Þú skalt tíunda vandlega allan ávöxt af útsæði þínu, allt það er vex á mörkinni, á ári hverju,
23 og þú skalt eta frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar, tíundina af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, svo að þú lærir að óttast Drottin Guð þinn alla daga.
24 Og sé vegurinn of langur fyrir þig og getir þú eigi borið það, af því að staðurinn, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er langt í burtu frá þér, þegar Drottinn Guð þinn hefir blessað þig,
25 þá skalt þú koma því í peninga, taka silfrið með þér og geyma þess vel og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur.
26 Og fyrir silfrið skalt þú kaupa hvað sem þig lystir, nautgripi, sauðfé, vín, áfengan drykk eða hvað annað, sem þig langar í, og þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Drottni Guði þínum og gleðja þig ásamt fjölskyldu þinni.
27 Og levítana, sem eru innan borgarhliða þinna, skalt þú ekki setja hjá, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér.
28 Þriðja hvert ár skalt þú færa út alla tíund af ávexti þínum það árið og leggja hana niður innan borgarhliða þinna,
29 svo að levítar, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér, útlendingar, munaðarleysingjar og ekkjur þær, sem eru innan borgarhliða þinna, megi koma og eta sig mett, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.
41 Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við.
2 Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi,
3 svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum?
4 Hver hefir gjört það og framkvæmt? _ Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami.
5 Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu.
6 Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: "Vertu hughraustur!"
7 Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: "Kveikingin er góð!" Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki.
8 En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.
9 Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: "Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!"
10 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.
11 Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast.
12 Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða.
13 Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: "Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!"
14 Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael.
15 Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir.
16 Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael.
17 Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, Drottinn, mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá.
18 Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum.
19 Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum,
20 svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið.
21 Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar.
22 Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er!
23 Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari.
24 Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs!
25 Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó.
26 Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: "Hann hefir rétt fyrir sér"? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt.
27 Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: "Sjá, þar kemur það fram!" og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða.
28 Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér.
29 Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.
11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.
2 Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.
3 Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."
4 Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.
5 Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.
6 Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.
7 Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.
8 Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.
9 Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.
10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.
11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.
12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.
13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.
14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.
15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda."
16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.
18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.
19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.
by Icelandic Bible Society