Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 12

12 Þetta eru lög þau og ákvæði, sem þér skuluð gæta að breyta eftir í landi því, sem Drottinn, Guð feðra þinna, gefur þér til eignar, alla þá daga sem þér lifið á jörðinni.

Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré.

Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað.

Eigi skuluð þér svo breyta við Drottin Guð yðar,

heldur skuluð þér leita til þess staðar, sem Drottinn Guð yðar mun til velja úr öllum kynkvíslum yðar til þess að láta nafn sitt búa þar, og þangað skalt þú fara.

Þangað skuluð þér færa brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það, sem þér færið að fórnargjöf, heitfórnir yðar og sjálfviljafórnir, og frumburði nautgripa yðar og sauðfénaðar.

Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni Guði yðar og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar yfir öllu því, er þér hafið aflað, yfir því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.

Þér megið ekki hegða yður þá eins og vér hegðum oss hér nú, er hver gjörir það, sem honum gott þykir,

því að þér eruð ekki enn komnir á hvíldarstaðinn né til arfleifðarinnar, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

10 En þegar þér eruð komnir yfir Jórdan og hafið setst að í landinu, sem Drottinn Guð yðar lætur yður fá til eignar, og þegar hann hefir veitt yður frið fyrir öllum óvinum yðar allt í kring og þér búið óhultir,

11 þá skal sá staður, er Drottinn Guð yðar velur til þess að láta nafn sitt búa þar, vera staðurinn, sem þér færið til allt sem ég býð yður: brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það sem þér færið að fórnargjöf og allar útvaldar heitfórnir yðar, er þér heitið Drottni.

12 Og þér skuluð gleðjast frammi fyrir Drottni Guði yðar, þér og synir yðar og dætur, þrælar yðar og ambáttir, ásamt levítunum, sem eru innan borgarhliða yðar, því að þeir hafa eigi hlutskipti né óðal með yður.

13 Gæt þín, að þú fórnir ekki brennifórnum þínum á hverjum þeim stað, er þér ræður við að horfa,

14 heldur á þeim stað, er Drottinn velur í einhverri af kynkvíslum þínum. Þar skalt þú fórna brennifórnum þínum og þar skalt þú gjöra allt það, sem ég býð þér.

15 Þó mátt þú slátra og eta kjöt eftir eigin vild þinni innan allra borgarhliða þinna, eftir þeirri blessun, er Drottinn Guð þinn gefur þér. Bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það, sem væri það skógargeit eða hjörtur.

16 Aðeins megið þér ekki eta blóðið; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

17 Þú mátt eigi eta innan borgarhliða þinna tíund af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni, né frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, né nokkuð af heitfórnum þínum, er þú hefir heitið, né sjálfviljafórnir þínar, né nokkuð, sem þú færir að fórnargjöf,

18 heldur skalt þú eta það frammi fyrir Drottni Guði þínum, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, þú og sonur þinn og dóttir þín og þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum yfir öllu því, sem þú hefir aflað.

19 Gæt þín, að þú setjir ekki levítana hjá alla þá daga, sem þú lifir í landi þínu.

20 Þegar Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir heitið þér, og þú segir: "Ég vil eta kjöt!" af því að þig lystir að eta kjöt, þá mátt þú eta kjöt, eins og þig lystir.

21 Ef sá staður, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er mjög langt í burtu frá þér, þá skalt þú slátra af nautum þínum og sauðum, sem Drottinn hefir gefið þér, eins og ég hefi fyrir þig lagt, og þú skalt eta það innan borgarhliða þinna eins og þig lystir.

22 Aðeins skalt þú eta það eins og menn eta skógargeit eða hjört; bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það.

23 Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu.

24 Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

25 Þú skalt ekki neyta þess, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.

26 En helgigjafir þínar, þær er þér ber að færa, og heitfórnir þínar skalt þú taka og fara með þær til þess staðar, sem Drottinn velur.

27 Og þú skalt fram bera brennifórnir þínar, kjötið og blóðið, á altari Drottins Guðs þíns, og blóðinu úr sláturfórnum þínum skal hella á altari Drottins Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.

28 Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns.

29 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra,

30 þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: "Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?"

31 Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.

32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.

Sálmarnir 97-98

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Jesaja 40

40 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar.

Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar!

Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni!

Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!

Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!"

Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.

Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras.

Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."

Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: "Sjá, Guð yðar kemur!"

10 Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum.

11 Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.

12 Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum?

13 Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann?

14 Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?

15 Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni.

16 Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar.

17 Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum.

18 Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann?

19 Líkneskið steypir smiðurinn, og gullsmiðurinn býr það slegnu gulli og setur á silfurfestar,

20 en sá, sem eigi á fyrir slíkri fórnargjöf, velur sér þann við, er ekki fúni, og leitar að góðum smið, er reist geti svo líkneski, að ekki haggist!

21 Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?

22 Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í.

23 Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma.

24 Varla eru þeir gróðursettir, varla niðursánir, varla hefir stofn þeirra náð að festa rætur í jörðinni fyrr en hann andar á þá, og þá skrælna þeir upp og stormbylurinn feykir þeim burt eins og hálmleggjum.

25 Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi.

26 Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.

27 Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: "Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?"

28 Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.

29 Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.

30 Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga,

31 en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.

Opinberun Jóhannesar 10

10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.

Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.

Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.

Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."

Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins

og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,

en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."

Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."

10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.

11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society