M’Cheyne Bible Reading Plan
11 Fyrir því skalt þú elska Drottin Guð þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga.
2 Viðurkennið í dag _ því að ekki á ég orðastað við börn yðar, sem eigi hafa þekkt það né séð _, viðurkennið ögun Drottins Guðs yðar, mikilleik hans, hina sterku hönd hans og útréttan armlegg hans,
3 tákn hans og verk, sem hann gjörði í Egyptalandi á Faraó Egyptalandskonungi og öllu landi hans,
4 hversu hann fór með herlið Egypta, hesta þeirra og vagna, hversu hann lét vötn Sefhafsins flæða yfir þá, er þeir veittu yður eftirför, og tortímdi þeim fram á þennan dag,
5 og hversu hann gjörði til yðar í eyðimörkinni allt til þess er þér komuð hingað,
6 og hversu hann fór með Datan og Abíram, sonu Elíabs Rúbenssonar, hversu jörðin lauk upp munni sínum og svalg þá mitt á meðal allra Ísraelsmanna, ásamt fjölskyldum þeirra og tjöldum og öllum lifandi skepnum, sem voru í fylgd með þeim.
7 Því að augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem Drottinn hefir gjört.
8 Fyrir því skuluð þér varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar,
9 og til þess að þér megið lifa langa ævi í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim og niðjum þeirra, _ landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.
10 Landið sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, það er ekki eins og Egyptaland, þaðan sem þér fóruð, þar sem þú sáðir sæði þínu og vökvaðir landið með fæti þínum eins og kálgarð,
11 heldur er land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir,
12 land, sem Drottinn Guð þinn annast. Stöðuglega hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því frá ársbyrjun til ársloka.
13 Ef þér hlýðið skipunum mínum trúlega, þeim er ég legg fyrir yður í dag: að elska Drottin Guð yðar, og þjóna honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, _
14 þá mun ég gefa landi yðar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, svo að þú megir hirða korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína.
15 Þá mun ég og láta gras spretta í högum þínum handa skepnum þínum, svo að þú megir eta og saddur verða.
16 Gætið yðar, að hjarta yðar láti ekki tælast og þér víkið ekki af leið og dýrkið aðra guði og fallið fram fyrir þeim,
17 ella mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og hann mun loka himninum, svo að eigi komi regn og jörðin gefi eigi ávöxt sinn, og þér munuð skjótlega eyðast úr landinu góða, sem Drottinn gefur yður.
18 Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar.
19 Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.
20 Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín,
21 til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.
22 Ef þér varðveitið kostgæfilega allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir yður að halda: að elska Drottin Guð yðar, að ganga ávallt á hans vegum og halda yður fast við hann, _
23 þá mun Drottinn stökkva burt undan yður öllum þessum þjóðum, og þér munuð leggja undir yður þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þér.
24 Hver sá staður, er þér stígið fæti á, skal verða yðar eign. Frá eyðimörkinni allt til Líbanon, frá fljótinu, Efratfljótinu, allt til vesturhafsins skal land yðar ná.
25 Enginn mun standast fyrir yður. Ótta við yður og skelfingu mun Drottinn Guð yðar láta koma yfir hvert það land, er þér stígið fæti á, eins og hann hefir heitið yður.
26 Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun:
27 blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag,
28 en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.
29 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, þá skalt þú leggja blessunina á Garísímfjall og bölvunina á Ebalfjall.
30 En þau eru hinumegin Jórdanar, vestanvert við sólarlagsveginn, í landi Kanaanítanna, þeirra er búa á sléttlendinu, gegnt Gilgal, hjá Mórelundi.
31 Þér farið nú yfir Jórdan til þess að komast inn í og taka til eignar landið, sem Drottinn Guð yðar gefur yður, og þér munuð fá það til eignar og setjast að í því.
32 Gætið þess þá að halda öll þau lög og ákvæði, sem ég legg fyrir yður í dag.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
39 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.
2 Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.
3 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna, og hvaðan eru þeir til þín komnir?" Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir til mín komnir, frá Babýlon."
4 Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?" Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."
5 Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins allsherjar.
6 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn.
7 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."
8 En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."
9 Og fimmti engillinn básúnaði. Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins.
2 Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum.
3 Út úr reyknum komu engisprettur á jörðina og þær fengu sama mátt og sporðdrekar jarðarinnar.
4 Og sagt var við þær, að eigi skyldu þær granda grasi jarðarinnar né nokkrum grænum gróðri né nokkru tré, engu nema mönnunum, þeim er eigi hafa innsigli Guðs á ennum sér.
5 Og þeim var svo um boðið, að þær skyldu eigi deyða þá, heldur skyldu þeir kvaldir verða í fimm mánuði. Undan þeim svíður eins og undan sporðdreka, er hann stingur mann.
6 Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu æskja sér að deyja, en dauðinn flýr þá.
7 Og ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna.
8 Þær höfðu hár sem hár kvenna, og tennur þeirra voru eins og ljónstennur.
9 Þær höfðu brjósthlífar eins og járnbrynjur, og vængjaþyturinn frá þeim var eins og vagnagnýr, þegar margir hestar bruna fram til bardaga.
10 Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar. Og í hölum þeirra er máttur þeirra til að skaða menn í fimm mánuði.
11 Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddón og á grísku heitir hann Apollýón.
12 Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta.
13 Og sjötti engillinn básúnaði. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði.
14 Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni: "Leys þú englana fjóra, sem bundnir eru við fljótið mikla, Efrat."
15 Og englarnir fjórir voru leystir, sem búnir stóðu til stundar þessarar, dags þessa, mánaðar þessa og árs þessa, til þess að deyða þriðjung mannanna.
16 Og talan á herfylkingum riddaraliðsins var tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda. Ég heyrði tölu þeirra.
17 Og með þessum hætti sá ég hestana í sýninni og þá sem á þeim sátu: Þeir höfðu eldrauðar, svartbláar og brennisteinsgular brynjur, og höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn.
18 Í þessum þremur plágum varð þriðji hluti mannanna deyddur, af eldinum, reyknum og brennisteininum, sem út gekk af munnum þeirra.
19 Því að vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra, því að tögl þeirra eru lík höggormum. Eru höfuð á, og með þeim granda þeir.
20 Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið.
21 Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði.
by Icelandic Bible Society