M’Cheyne Bible Reading Plan
9 Heyr Ísrael! Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp,
2 stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú þekkir og hefir sjálfur heyrt sagt um: "Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?"
3 Vit það því nú, að það er Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer sem eyðandi eldur. Hann mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu, svo að þú skjótlega getir rekið þær burt og gjöreytt þeim, eins og Drottinn hefir heitið þér.
4 Þegar Drottinn Guð þinn hefir rekið þær á burt undan þér, þá mátt þú ekki segja í hjarta þínu: "Sökum míns eigin réttlætis hefir Drottinn leitt mig inn í þetta land og fengið mér það til eignar," þar eð það er vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn stökkvir þeim á burt undan þér.
5 Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér, og til þess að halda það loforð, er Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
6 Vita skaltu því, að það er ekki vegna réttlætis þíns, að Drottinn, Guð þinn, gefur þér þetta góða land til eignar, því að þú ert harðsvíraður lýður.
7 Minnstu þess og gleym því eigi, hvernig þú reittir Drottin Guð þinn til reiði í eyðimörkinni. Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast Drottni.
8 Hjá Hóreb reittuð þér Drottin til reiði, og Drottinn reiddist yður svo, að hann ætlaði að tortíma yður.
9 Ég var þá farinn upp á fjallið til þess að taka á móti steintöflunum, töflunum, sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og ég dvaldi á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að neyta matar eða drekka vatn.
10 Drottinn fékk mér tvær steintöflur, ritaðar með fingri Guðs, og á þeim voru öll þau orð, er Drottinn hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir.
11 Og er fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar.
12 Drottinn sagði við mig: "Statt þú upp, far þú skjótt niður héðan, því að fólk þitt, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim; þeir hafa gjört sér steypt líkneski."
13 Og hann sagði við mig: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
14 Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er."
15 Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu, en fjallið stóð í björtu báli, og hélt ég á báðum sáttmálstöflunum í höndunum.
16 Og ég leit til, og sjá: Þér höfðuð syndgað móti Drottni, Guði yðar, þér höfðuð gjört yður steyptan kálf og höfðuð þannig skjótt vikið af þeim vegi, sem Drottinn hafði boðið yður.
17 Þá þreif ég báðar töflurnar og þeytti þeim af báðum höndum og braut þær í sundur fyrir augunum á yður.
18 Og ég varp mér niður fyrir augliti Drottins, eins og hið fyrra sinnið, fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og át ekki brauð og drakk ekki vatn, vegna allra yðar synda, sem þér höfðuð drýgt með því að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, svo að þér egnduð hann til reiði.
19 Því að ég var hræddur við þá reiði og heift, sem Drottinn bar til yðar, að hann ætlaði að tortíma yður. Og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta sinn.
20 Drottinn reiddist einnig mjög Aroni, svo að hann ætlaði að tortíma honum, en ég bað og fyrir Aroni í það sama sinn.
21 En synd yðar, kálfinn, sem þér höfðuð gjört, tók ég og brenndi í eldi og muldi hann vandlega í smátt, uns hann varð að fínu dufti, og duftinu kastaði ég í lækinn, sem rann þar ofan af fjallinu.
22 Enn fremur reittuð þér Drottin til reiði í Tabera, í Massa og hjá Kibrót-hattava.
23 Og þegar Drottinn sendi yður frá Kades Barnea og sagði: "Farið og takið til eignar landið, sem ég hefi gefið yður," þá óhlýðnuðust þér skipun Drottins Guðs yðar og trúðuð honum ekki og hlýdduð ekki raustu hans.
24 Þér hafið verið Drottni óhlýðnir frá því ég þekkti yður fyrst.
25 Svo féll ég fram fyrir augliti Drottins þá fjörutíu daga og fjörutíu nætur, sem ég varp mér niður, því að hann kvaðst mundu tortíma yður.
26 Og ég bað Drottin og sagði: "Drottinn Guð! Eyðilegg eigi þinn lýð og þína eign, sem þú frelsaðir með þínum mikla krafti, sem þú út leiddir af Egyptalandi með voldugri hendi.
27 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs! Lít ekki á þvermóðsku þessa fólks, guðleysi þess og synd,
28 svo að menn geti eigi sagt í landi því, sem þú leiddir oss út úr: ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þá inn í landið, sem hann hafði heitið þeim, og af því að hann hataði þá, hefir hann farið með þá burt til þess að láta þá deyja í eyðimörkinni.`
29 Því að þín þjóð eru þeir og þín eign, sem þú út leiddir með miklum mætti þínum og útréttum armlegg þínum."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
37 Og er Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins.
2 En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja Amozsonar spámanns,
3 og skyldu þeir segja við hann: "Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða.
4 Vera má, að Drottinn, Guð þinn, heyri orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi, herra sínum, til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir."
5 En er þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja,
6 þá sagði Jesaja við þá: "Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér.
7 Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi."
8 Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís.
9 Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: "Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig." Og er hann heyrði það, gjörði hann sendimenn til Hiskía með þessari orðsending:
10 "Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.`
11 Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða?
12 Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær _ Gósan og Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telassar?
13 Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?"
14 Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni.
15 Og Hiskía bað til Drottins og sagði:
16 "Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð.
17 Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr! Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú öll orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð.
18 Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra,
19 og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu.
20 En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð."
21 Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi,
22 þá er þetta orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér, dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér.
23 Hvern hefir þú smánað og spottað? Og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum heilaga í Ísrael!
24 Þú hefir látið þjóna þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp á efsta tind þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur.
25 Ég gróf til vatns og drakk, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.`
26 Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum.
27 En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa.
28 Ég sé þig, þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér.
29 Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst.
30 Þetta skaltu til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
31 Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxtu að ofan.
32 Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.
33 Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni.
34 Hann skal aftur snúa sömu leiðina, sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma _ segir Drottinn.
35 Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."
36 Þá fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.
37 Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve.
38 En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.
7 Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré.
2 Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu,
3 og sagði: "Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors."
4 Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.
5 Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,
6 af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund,
7 af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,
8 af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.
9 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.
10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.
11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð
12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.
13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"
14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.
15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.
16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.
17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."
by Icelandic Bible Society