Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 8

Öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo að þér megið lifa og margfaldast og komast inn í landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, og fá það til eignar.

Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.

Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.

Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár.

Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig.

Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann.

Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum,

inn í land, þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land, þar sem nóg er af olíutrjám og hunangi,

inn í land, þar sem þú munt ekki eiga við fátækt að búa og þar sem þig mun ekkert bresta, inn í land, þar sem steinarnir eru járn og þar sem þú getur grafið kopar úr fjöllunum.

10 Og þegar þú hefir etið og ert orðinn mettur, þá skalt þú vegsama Drottin Guð þinn fyrir landið góða, sem hann gaf þér.

11 Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag.

12 Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim,

13 þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt,

14 lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu,

15 sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum,

16 hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir.

17 Og seg þú ekki í hjarta þínu: "Minn eigin kraftur og styrkur handar minnar hefir aflað mér þessara auðæfa."

18 Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að hann fái haldið þann sáttmála, er hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa.

19 En ef þú gleymir Drottni Guði þínum og eltir aðra guði, dýrkar þá og fellur fram fyrir þeim, þá votta ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast.

20 Eins og þjóðirnar, er Drottinn eyðir fyrir yður, svo munuð þér og farast, af því að þér hlýdduð ekki röddu Drottins Guðs yðar.

Sálmarnir 91

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.

Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.

11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.

12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.

13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

Jesaja 36

36 Svo bar til á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs, að Sanheríb Assýríukonungur fór herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær.

Þá sendi Assýríukonungur marskálk sinn með miklu liði frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Hann nam staðar hjá vatnstokknum úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn.

Þá gengu þeir út til hans Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari.

Og marskálkurinn mælti til þeirra: "Segið Hiskía: Svo segir hinn mikli konungur, Assýríukonungur: Hvert er það athvarf er þú treystir á?

Er þú ráðgjörir hernað og hyggur þig fullstyrkan til, þá er það munnfleipur eitt. Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér?

Sjá, þú treystir á þennan brotna reyrstaf, á Egyptaland, en hann stingst upp í höndina á hverjum þeim, er við hann styðst, og fer í gegnum hana. Slíkur er Faraó Egyptalandskonungur öllum þeim, er á hann treysta.

Og segir þú við mig: ,Vér treystum á Drottin, Guð vorn,` eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía nam burt, er hann sagði við Júda og Jerúsalem: ,Fyrir þessu eina altari skuluð þér fram falla?`

Kom til og veðja við herra minn, Assýríukonunginn: Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá.

Hvernig munt þú þá fá rekið af höndum þér einn höfuðsmann meðal hinna minnstu þjóna herra míns? Og þó treystir þú á Egyptaland vegna hervagnanna og riddaranna!

10 Og hvort mun ég nú hafa farið til þessa lands án vilja Drottins til þess að eyða það? Drottinn sagði við mig: ,Far þú inn í þetta land og eyð það."`

11 Þá sögðu þeir Eljakím, Sébna og Jóak við marskálk konungs: "Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum."

12 En marskálkurinn sagði: "Hefir herra minn sent mig til herra þíns eða til þín til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt með yður að eta sinn eigin saur og drekka þvag sitt?"

13 Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu og mælti: "Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs!

14 Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður.

15 Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss; þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.`

16 Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni,

17 þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða.

18 Látið eigi Hiskía ginna yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.` Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs?

19 Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi?

20 Hverjir eru þeir af öllum guðum þessara landa, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?"

21 En menn þögðu og svöruðu honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: "Svarið honum eigi."

22 En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.

Opinberun Jóhannesar 6

Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: "Kom!"

Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.

Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.

Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: "Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu."

Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu.

10 Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: "Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?"

11 Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.

12 Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð.

13 Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín.

14 Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum.

15 Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla.

16 Og þeir segja við fjöllin og hamrana: "Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins;

17 því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society