M’Cheyne Bible Reading Plan
7 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, og hann hefir stökkt burt undan þér mörgum þjóðum: Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sjö þjóðum, sem eru fjölmennari og voldugri en þú, _
2 og er Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim, þá skalt þú gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð.
3 Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum.
4 Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega.
5 Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi.
6 Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.
7 Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir.
8 En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs.
9 Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.
10 En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum.
11 Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim.
12 Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum.
13 Hann mun elska þig, blessa þig og margfalda þig, og hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína, viðkomu nautgripa þinna og burði hjarðar þinnar í landinu, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér.
14 Þú munt blessuð verða öllum þjóðum framar, meðal karlmanna þinna og kvenmanna skal enginn vera ófrjósamur, né heldur meðal fénaðar þíns.
15 Og Drottinn mun bægja frá þér hvers konar sjúkleik, og enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann á þig leggja, heldur mun hann senda þær öllum þeim, er þig hata.
16 En þú skalt eyða öllum þeim þjóðum, sem Drottinn Guð þinn gefur á þitt vald. Þú skalt ekki líta þær vægðarauga og þú skalt eigi dýrka guði þeirra, því að það mundi verða þér að tálsnöru.
17 Ef þú skyldir segja í hjarta þínu: "Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég; hvernig fæ ég rekið þær burt?"
18 þá ver þú ekki hræddur við þær. Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Faraó og alla Egypta,
19 hinna miklu máttarverka, er þú sást með eigin augum, táknanna og stórmerkjanna, og hvernig Drottinn Guð þinn leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armlegg. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þær þjóðir, sem þú nú ert hræddur við.
20 Já, jafnvel skelfingu mun Drottinn Guð þinn senda meðal þeirra, uns allir þeir eru dauðir, sem eftir hafa orðið og falið hafa sig fyrir þér.
21 Þú skalt ekki hræðast þá, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hinn mikli og ógurlegi Guð.
22 Drottinn Guð þinn mun stökkva þessum þjóðum á burt undan þér smám saman; þú mátt ekki eyða þeim skjótlega, svo að villidýrunum fjölgi eigi um of fyrir þig.
23 En Drottinn Guð þinn mun gefa þær á þitt vald og koma miklum ruglingi á þær, uns þær eru gjöreyddar.
24 Og hann mun gefa konunga þeirra í hendur þér, og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn mun standast fyrir þér, uns þú hefir gjöreytt þeim.
25 Skurðlíkneski guða þeirra skalt þú brenna í eldi. Þú skalt eigi girnast silfrið og gullið, sem á þeim er, né taka það handa þér, svo að það verði þér eigi að tálsnöru, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni Guði þínum.
26 Og eigi skalt þú færa andstyggilegan hlut inn í hús þitt, svo að þú fallir ekki í sama bannið, sem hann er í. Þú skalt hafa megnan viðbjóð og andstyggð á því, því að það er bannfærður hlutur.
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
35 Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.
2 Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.
3 Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!
4 Segið hinum ístöðulausu: "Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður."
5 Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu.
6 Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.
7 Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.
8 Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar.
9 Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.
10 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
5 Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.
2 Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"
3 En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.
4 Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.
5 En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."
6 Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.
7 Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.
8 Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.
9 Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.
10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.
11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.
12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.
13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.
14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
by Icelandic Bible Society