M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.
2 Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb.
3 Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.
4 Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum.
5 Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði:
6 "Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
7 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
8 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.
9 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,
10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér.
13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,
14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú.
15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.
16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
17 Þú skalt ekki morð fremja.
18 Þú skalt ekki drýgja hór.
19 Þú skalt ekki stela.
20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.
21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."
22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.
23 Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar,
24 og sögðuð: "Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi.
25 Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja.
26 Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi?
27 Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því."
28 Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: "Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu.
29 Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.
30 Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!`
31 En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar."
32 Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri.
33 Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
33 Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða.
2 Drottinn, ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.
3 Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir.
4 Þá mun herfangi verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva.
5 Hár er Drottinn, því að hann býr á hæðum, hann fyllir Síon réttindum og réttlæti.
6 Örugga tíma skalt þú hljóta, gæfufjársjóð átt þú í visku og þekkingu. Ótti Drottins er auður lýðsins.
7 Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.
8 Þjóðvegirnir eru eyðilagðir, mannaferðir hættar. Menn rjúfa sáttmálann, fyrirlíta vitnin og virða náungann vettugi.
9 Landið sýtir og visnar, Líbanon blygðast sín og skrælnar, Saronsléttan er orðin eins og eyðimörk, Basan og Karmel fella laufið.
10 Nú vil ég upp rísa, segir Drottinn, nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa.
11 Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður.
12 Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi.
13 Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn!
14 Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: "Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?"
15 Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er,
16 hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra.
17 Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land.
18 Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana?
19 Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.
20 Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið.
21 Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.
22 Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss.
23 Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið. Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna.
24 Og enginn borgarbúi mun segja: "Ég er sjúkur." Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.
3 Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.
2 Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum.
3 Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.
4 En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir.
5 Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.
6 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
7 Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp.
8 Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.
9 Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig.
10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.
11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.
12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs:
15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur.
16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.
17 Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.
18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi.
19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun.
20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.
21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
by Icelandic Bible Society