M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Snerum vér nú á leið og héldum veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti oss með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí.
2 Þá sagði Drottinn við mig: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."
3 Drottinn Guð vor gaf oss þannig og í hendur Óg, konung í Basan, og lið hans allt, og vér felldum hann, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist.
4 Þá unnum vér allar borgir hans. Var engin sú borg, að vér eigi næðum henni frá þeim: sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan.
5 Allt voru þetta borgir víggirtar háum múrveggjum, hliðum og slagbröndum, auk mikils fjölda af óumgirtum þorpum.
6 Og vér gjöreyddum þær, eins og vér höfðum áður gjört við Síhon, konung í Hesbon, með því að gjöreyða hverja borg að karlmönnum, konum og börnum.
7 En fénaðinn allan og ránsfenginn úr borgunum tókum vér að herfangi.
8 Þannig tókum vér í það skipti úr höndum beggja Amorítakonunga land allt hinumegin Jórdanar frá Arnoná til Hermonfjalls
9 (Hermon kalla Sídoningar Sirjon, en Amorítar kalla það Senír),
10 allar borgir á sléttlendinu, Gíleað allt og Basan, alla leið til Salka og Edreí, þær borgir í Basan, er heyrðu konungsríki Ógs.
11 Því að Óg, konungur í Basan, var sá eini, sem eftir var af Refaítum. Sjá, líkkista hans var gjör úr járni og er enn til í Rabba hjá Ammónítum. Hún er níu álna löng og fjögra álna breið eftir venjulegu alinmáli.
12 Þetta land tókum vér þá til eignar. Frá Aróer, sem liggur við Arnoná, og hálft Gíleaðfjalllendi og borgirnar í því gaf ég Rúbenítum og Gaðítum,
13 en það, sem eftir var af Gíleað, og allt Basan, konungsríki Ógs, gaf ég hálfri ættkvísl Manasse, allt Argóbhérað. Basan allt er kallað Refaítaland.
14 Jaír, son Manasse, nam allt Argóbhérað allt að landamærum Gesúríta og Maakatíta og kallaði það, sem sé Basan, eftir nafni sínu Jaírsþorp, og helst það nafn enn í dag.
15 Makír gaf ég Gíleað,
16 og Rúbenítum og Gaðítum gaf ég land frá Gíleað suður að Arnoná, í dalinn miðjan, _ voru það suðurtakmörkin, _ og alla leið að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta.
17 Enn fremur sléttlendið með Jórdan á mörkum, frá Genesaretvatni suður að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, undir Pisgahlíðum, austanmegin.
18 Þá bauð ég yður og sagði: "Drottinn Guð yðar hefir gefið yður þetta land til eignar. Farið vígbúnir fyrir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, allir þér sem vopnfærir eruð.
19 En konur yðar og börn og búsmali yðar _ ég veit að þér eigið mikinn fénað _ skal verða eftir í borgunum, sem ég hefi gefið yður,
20 þar til er Drottinn Guð yðar veitir bræðrum yðar hvíld, eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, er Drottinn Guð yðar gefur þeim hinumegin Jórdanar. Þá megið þér snúa aftur, hver til óðals síns, er ég hefi gefið yður."
21 Jósúa bauð ég þá og sagði: "Þú hefir séð allt það með eigin augum, sem Drottinn Guð yðar hefir gjört þessum tveimur konungum. Eins mun Drottinn fara með öll þau konungaríki, sem þú ert á leið til.
22 Eigi skuluð þér óttast þau, því að Drottinn Guð yðar berst fyrir yður."
23 Þá bað ég Drottin líknar og sagði:
24 "Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk?
25 Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon."
26 En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: "Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig.
27 Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan.
28 En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér."
29 Dvöldum vér nú um hríð í dalnum á móts við Bet Peór.
85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.
2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
31 Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins.
2 En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.
3 Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.
4 Svo hefir Drottinn við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.
5 Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.
6 Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá.
7 Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.
8 Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir.
9 Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.
1 Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum,
2 sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá.
3 Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.
4 Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans,
5 og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu.
6 Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
7 Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.
8 Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.
9 Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.
10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli,
11 er sagði: "Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu."
12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur,
13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans.
14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi.
15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna.
16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.
17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti
18 og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.
19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.
20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.
by Icelandic Bible Society