Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 2

Síðan snerum vér á leið og héldum inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins, eins og Drottinn hafði boðið mér, og vér fórum í kringum Seírfjöll marga daga.

Þá sagði Drottinn við mig:

"Þér hafið farið nógu lengi í kringum fjöll þessi. Haldið nú í norður.

En bjóð þú lýðnum og seg: ,Þér farið nú yfir landamerki bræðra yðar, Esaú sona, sem búa í Seír, og þeir munu verða hræddir við yður. En gætið þess vandlega

að gjöra þeim engan ófrið, því að ekki mun ég gefa yður svo mikið sem þverfet af landi þeirra, því að ég hefi gefið Esaú Seírfjöll til eignar.

Mat skuluð þér kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið eta, og vatn skuluð þér einnig kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið drekka.

Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort."`

Síðan héldum vér áfram burt frá bræðrum vorum Esaú sonum, sem búa í Seír, burt frá veginum yfir sléttlendið, burt frá Elat og Esjón Geber, og beygðum við og héldum leiðina til Móabseyðimerkur.

Þá sagði Drottinn við mig: "Leitið eigi á Móabíta og hefjið engan ófrið við þá, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi þeirra til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum Ar til eignar.

10 (Emítar bjuggu þar forðum, mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar.

11 Þeir voru og taldir Refaítar, eins og Anakítar, en Móabítar kölluðu þá Emíta.

12 Hórítar bjuggu og forðum í Seír, en Esaú synir hröktu þá burt og eyddu þeim, en settust sjálfir að löndum þeirra, eins og Ísrael gjörði við eignarland sitt, er Drottinn hafði gefið þeim.)

13 Takið yður nú upp og farið yfir Seredá." Og vér fórum yfir Seredá.

14 Í þrjátíu og átta ár vorum vér á leiðinni frá Kades Barnea, til þess er vér fórum yfir Seredá, uns öll kynslóðin, hinir vopnfæru menn, var dáin úr herbúðunum, eins og Drottinn hafði svarið þeim.

15 Hönd Drottins var einnig á móti þeim, svo að hann eyddi þeim úr herbúðunum, uns enginn þeirra var eftir.

16 En er allir vopnfærir menn af lýðnum voru dánir,

17 þá mælti Drottinn til mín þessum orðum:

18 "Þú fer í dag um land Móabíta, fram hjá Ar,

19 og munt þú þá koma í nánd við Ammóníta, en eigi skalt þú leita á þá né gjöra þeim nokkurn ófrið, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi Ammóníta til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum það til eignar.

20 (Það er og talið land Refaíta. Refaítar bjuggu þar forðum og kölluðu Ammónítar þá Samsúmmíta,

21 mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. En Drottinn eyddi þeim fyrir Ammónítum, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað,

22 eins og hann gjörði fyrir Esaú sonu, sem búa í Seír, þá er hann eyddi Hórítum fyrir þeim, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, og er svo enn í dag.

23 Svo var og um Avíta, sem bjuggu í þorpum allt til Gasa. Kaftórítar komu frá Kaftór og eyddu þeim og settust sjálfir að löndum þeirra.)

24 Takið yður nú upp og haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hefi gefið á þitt vald Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans. Tak nú til að vinna landið og legg til orustu við hann.

25 Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér."

26 Þá gjörði ég menn úr Kedemóteyðimörk á fund Síhons, konungs í Hesbon, með svolátandi friðarorð:

27 "Leyf mér að fara um land þitt. Mun ég fara rétta þjóðleið og skal ég eigi sveigja af til hægri né vinstri.

28 Mat munt þú selja mér fyrir silfur, að ég megi eta, og vatn skalt þú láta mig fá fyrir silfur, að ég megi drekka. Leyf mér aðeins að fara um fótgangandi _,

29 eins og þeir leyfðu mér, Esaú synir, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar _, uns ég fer yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."

30 En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa oss að fara um land sitt, því að Drottinn Guð þinn herti anda hans og gjörði hjarta hans þverúðarfullt, af því að hann vildi gefa hann í þínar hendur, eins og nú er fram komið.

31 Drottinn sagði við mig: "Sjá, ég hefi byrjað að selja þér í hendur Síhon og land hans. Tak nú til að vinna það, svo að þú megir eignast land hans."

32 Fór Síhon þá í móti oss með öllu liði sínu og átti orustu við oss hjá Jahas.

33 En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans.

34 Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast.

35 Fénaðinn einn tókum vér að herfangi, svo og ránsfenginn úr borgunum, er vér höfðum unnið.

36 Frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum, alla leið til Gíleað var engin sú borg, er oss væri ókleift að vinna. Drottinn Guð vor gaf þær allar á vort vald.

37 Aðeins komst þú ekki nærri landi Ammóníta, héraðinu fram við Jabboká, borgunum í fjalllendinu, né nokkru því, sem Drottinn Guð vor hafði bannað oss.

Sálmarnir 83-84

83 Ljóð. Asafs-sálmur.

Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!

Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,

þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.

Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"

Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:

Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,

Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.

Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]

10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,

11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.

12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,

13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."

14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.

15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,

16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

Jesaja 30

30 Vei hinum þverúðugu börnum _ segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan.

Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands.

En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar!

Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes!

Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar.

Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim.

Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.

Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega.

Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins.

10 Þau segja við sjáendur: "Þér skuluð eigi sjá sýnir," og við vitranamenn: "Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.

11 Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru."

12 Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það,

13 fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann.

14 Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.

15 Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. En þér vilduð það ekki

16 og sögðuð: "Nei, á hestum skulum vér þjóta" _ fyrir því skuluð þér flýja! _ "og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða" _ fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!

17 Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.

18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.

19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.

20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,

21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"

22 Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: "Burt héðan."

23 Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga.

24 Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.

25 Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.

26 Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.

27 Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur.

28 Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.

29 Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels.

30 Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum.

31 Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum.

32 Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim.

33 Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.

Hið almenna bréf Júdasar

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar hinum kölluðu, sem eru elskaðir af Guði föður og varðveittir Jesú Kristi.

Miskunn, friður og kærleiki margfaldist yður til handa.

Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.

Því að inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.

Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu.

Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.

Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.

Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: "Drottinn refsi þér!"

10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur.

11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.

12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum.

13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar.

14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: "Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra

15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum."

16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði.

17 En, þér elskaðir, minnist þeirra orða, sem áður hafa töluð verið af postulum Drottins vors Jesú Krists.

18 Þeir sögðu við yður: "Á síðasta tíma munu koma spottarar, sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum."

19 Þessir menn eru þeir, sem valda sundrungu, holdlegir menn, sem eigi hafa andann.

20 En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda.

21 Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.

22 Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir,

23 suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.

24 En honum, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína, lýtalausa í fögnuði,

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society