Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 1

Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab. (

Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.)

Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá,

eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí.

Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti:

Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: "Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli.

Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins.

Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."

Þá sagði ég við yður: "Ég rís ekki einn undir yður.

10 Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins.

11 Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður.

12 Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar!

13 Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður."

14 Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: "Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um."

15 Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar.

16 Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: "Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur.

17 Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því."

18 Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra.

19 Því næst lögðum vér upp frá Hóreb og fórum yfir alla eyðimörkina miklu og hræðilegu, sem þér hafið séð, leiðina til fjalllendis Amoríta, eins og Drottinn Guð vor hafði fyrir oss lagt. Og vér komum til Kades Barnea.

20 Þá sagði ég við yður: "Þér eruð komnir að fjalllendi Amoríta, sem Drottinn, Guð vor, gefur oss.

21 Sjá, Drottinn Guð þinn hefir fengið þér landið. Far þú og tak það til eignar, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir boðið þér. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

22 Þá genguð þér allir til mín og sögðuð: "Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til."

23 Mér féll þetta vel í geð, og tók ég tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri.

24 Og þeir fóru af stað og héldu norður til fjalla og komust í Eskóldal og könnuðu landið.

25 Tóku þeir með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu oss. Og þeir fluttu oss fregnir og sögðu: "Gott er landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."

26 En þér vilduð eigi fara þangað og óhlýðnuðust skipun Drottins, Guðs yðar.

27 Og þér mögluðuð í tjöldum yðar og sögðuð: "Af því að Drottinn hataði oss, hefir hann leitt oss burt af Egyptalandi til þess að selja oss í hendur Amorítum, svo að þeir eyði oss.

28 Hvert erum vér að fara? Bræður vorir hafa skelft hjörtu vor með því að segja: ,Fólkið er stærra og hærra að vexti en vér. Borgirnar eru stórar og víggirtar hátt í loft upp. Vér höfum meira að segja séð þar Anakíta."`

29 Þá sagði ég við yður: "Látið eigi hugfallast og hræðist þá ekki.

30 Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer, mun berjast fyrir yður, eins og hann hjálpaði yður bersýnilega í Egyptalandi

31 og á eyðimörkinni, þar sem þú sást, hvernig Drottinn, Guð þinn bar þig, eins og faðir ber barn sitt, alla þá leið, er þér hafið farið, þar til er þér komuð hingað."

32 En þrátt fyrir allt þetta vilduð þér ekki treysta Drottni Guði yðar,

33 sem gekk á undan yður á leiðinni til að leita upp tjaldstaði handa yður, á næturnar í eldi til þess að vísa yður veginn, sem þér ættuð að halda, en á daginn í skýi.

34 En er Drottinn heyrði umtölur yðar, varð hann reiður, sór og sagði:

35 "Sannlega skal enginn af þessum mönnum, af þessari illu kynslóð, fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa feðrum yðar,

36 nema Kaleb Jefúnneson, hann skal fá að sjá það. Honum mun ég gefa landið, sem hann hefir stigið fæti á, og sonum hans, sökum þess að hann hefir fylgt Drottni trúlega."

37 Drottinn reiddist mér einnig yðar vegna og sagði: "Þú skalt ekki heldur komast þangað.

38 Jósúa Núnsson, sem stendur fyrir augliti þínu, hann skal komast þangað. Tel þú hug í hann, því að hann mun úthluta því Ísrael til eignar.

39 Börn yðar, sem þér sögðuð að mundu verða fjandmönnunum að bráð, og synir yðar, sem í dag vita eigi grein góðs og ills, munu komast þangað. Þeim vil ég gefa það, og þeir skulu fá það til eignar.

40 En þér skuluð snúa á leið og halda inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins."

41 Þá svöruðuð þér og sögðuð við mig: "Vér höfum syndgað gegn Drottni. Vér viljum fara og berjast, eins og Drottinn Guð vor hefir boðið oss." Og þér gyrtuð yður, hver sínum hervopnum, og tölduð það hægðarleik að leggja upp á fjöllin.

42 Þá sagði Drottinn við mig: "Seg þeim: ,Þér skuluð eigi fara þangað og eigi berjast, því að ég er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar."`

43 Og ég talaði til yðar, en þér gegnduð ekki, heldur óhlýðnuðust skipun Drottins og gjörðuð yður svo djarfa að leggja upp á fjöllin.

44 Fóru þá Amorítar, sem bjuggu á fjöllum þessum, í móti yður, eltu yður, eins og býflugur gjöra, og tvístruðu yður alla leið frá Seír til Horma.

45 Og þér hurfuð aftur og grétuð frammi fyrir Drottni, en Drottinn heyrði ekki bænir yðar og hlýddi ekki á yður.

46 Þannig hélduð þér kyrru fyrir í Kades langan tíma, eins langan tíma og þér dvölduð þar.

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Jesaja 29

29 Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring,

þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.

Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér.

Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu.

En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði.

Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.

Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni.

Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall.

Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.

10 Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar _ spámennina _ og brugðið hulu yfir höfuð yðar _ þá sem vitranir fá.

11 Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég get það ekki, því að hún er innsigluð."

12 En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég er ekki læs."

13 Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar,

14 sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.

15 Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: "Hver sér oss? Hver veit af oss?"

16 Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: "Hann hefir eigi búið mig til," og smíðin geti sagt um smiðinn: "Hann kann ekki neitt?"

17 Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.

18 Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.

19 Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael.

20 Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka,

21 þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.

22 Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna.

23 Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.

24 Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.

Þriðja bréf Jóhannesar

Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi, sem ég ann í sannleika.

Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllum hlutum og að þú sért heill heilsu, eins og sálu þinni vegnar vel.

Ég varð mjög glaður, þegar bræður komu og báru vitni um tryggð þína við sannleikann, hversu þú lifir í sannleika.

Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.

Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn.

Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði.

Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum.

Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.

Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss.

10 Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.

11 Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.

12 Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur.

13 Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna.

14 En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við munnlega.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society