M’Cheyne Bible Reading Plan
36 Ætthöfðingjarnir af kynkvísl Gíleaðs sona, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Jósefs sona, gengu fram og töluðu fyrir augliti Móse og fyrir augliti höfuðsmannanna, ætthöfðingja Ísraelsmanna,
2 og sögðu: "Drottinn hefir boðið þér, herra, að fá Ísraelsmönnum landið til eignar með hlutkesti. Þér var og, herra, boðið af Drottni að fá eignarhluta Selofhaðs bróður vors dætrum hans í hendur.
3 Giftist þær nú einhverjum af sonum annarra ættkvísla Ísraelsmanna, þá tekst erfð þeirra af erfð feðra vorra og bætist við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og tekst þannig af erfðahluta vorum.
4 Og þegar fagnaðarár Ísraelsmanna kemur, þá verður erfð þeirra bætt við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og erfð þeirra tekst af erfð ættleggs feðra vorra."
5 Þá gaf Móse Ísraelsmönnum svofelld fyrirmæli að boði Drottins: "Ættleggur Jósefs sona hefir rétt að mæla!
6 Þetta eru fyrirmæli Drottins um dætur Selofhaðs: Þær mega giftast hverjum sem þær vilja; aðeins skulu þær giftast einhverjum úr föðurætt sinni,
7 svo að erfð Ísraelsmanna gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir Ísraelsmenn halda fast í erfð föðurættar sinnar.
8 Sérhver dóttir af ættkvíslum Ísraelsmanna, er erfð hlýtur, skal giftast í föðurætt sína, svo að hver Ísraelsmanna erfi föðurleifð sína
9 og erfð gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir ættleggir Ísraelsmanna halda fast í erfð sína."
10 Dætur Selofhaðs gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse,
11 og giftust þær Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa, dætur Selofhaðs, sonum föðurbræðra sinna.
12 Giftust þær mönnum af kynkvísl sona Manasse Jósefssonar, og varð erfð þeirra kyrr í ættlegg föðurættar þeirra.
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
28 Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu.
2 Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá Drottni. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni.
3 Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím.
4 Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.
5 Á þeim degi mun Drottinn allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar
6 og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna.
7 En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra.
8 Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.
9 "Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum?
10 Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt."
11 Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar,
12 hann sem sagði við þá: "Þetta er hvíldin _ ljáið hinum þreytta hvíld! _ Hér er hvíldarstaður." En þeir vildu ekki heyra.
13 Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: "Skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt," að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.
14 Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem.
15 Þér segið: "Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna."
16 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.
17 Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.
18 Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni.
19 Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.
20 Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.
21 Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.
22 Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.
23 Hlustið á og heyrið mál mitt! Hyggið að og heyrið orð mín!
24 Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt?
25 Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn?
26 Guð hans kennir honum hina réttu aðferð og leiðbeinir honum.
27 Eigi er krydd þreskt með þreskisleða né vagnhjóli velt yfir kúmen, heldur er kryddblómið barið af með þúst og kúmen með staf.
28 Mun neyslukorn mulið sundur? Nei, menn halda ekki stöðugt áfram að þreskja það og keyra eigi vagnhjól sín né hesta yfir það, menn mylja það eigi sundur.
29 Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar. Hann er undursamlegur í ráðum og mikill í vísdómi.
1 Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.
2 Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.
3 Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.
4 Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.
5 Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.
6 Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.
7 Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.
8 Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.
9 Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.
10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.
11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.
12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.
by Icelandic Bible Society