M’Cheyne Bible Reading Plan
35 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum, að þeir fái levítunum borgir til íbúðar af óðalseignum sínum, og til beitar skuluð þér fá þeim landið kringum borgirnar.
3 Og borgirnar skulu vera þeim til íbúðar, og beitilandið, er undir þær liggur, skal vera fyrir gripi þeirra, fénað þeirra og allar aðrar skepnur þeirra.
4 Og beitilandið hjá borgunum, er þér fáið levítunum, skal vera þúsund álnir út frá borgarveggnum hringinn í kring.
5 Og fyrir utan borgina skuluð þér mæla austurhliðina tvö þúsund álnir, suðurhliðina tvö þúsund álnir, vesturhliðina tvö þúsund álnir og norðurhliðina tvö þúsund álnir, en borgin sjálf sé í miðju. Þetta beitiland í kringum borgirnar skulu þeir fá.
6 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að fá levítunum, þá skuluð þér láta af hendi griðastaðina sex, til þess að þangað megi flýja menn, er víg hafa unnið, en auk þeirra skuluð þér fá þeim fjörutíu og tvær borgir.
7 Borgirnar, er þér fáið levítunum, skulu vera fjörutíu og átta borgir alls, ásamt með beitilandi því, er undir þær liggur.
8 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að láta af óðali Ísraelsmanna, þá skuluð þér láta mannmörgu ættkvíslirnar leggja til fleiri, en hinar fámennu færri. Hver einn skal fá levítunum af borgum sínum í réttu hlutfalli við erfðahlut þann, er hann hefir fengið."
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,
11 þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana.
12 Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins.
13 En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex.
14 Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera.
15 Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.
16 Hafi hann lostið hann með járntóli, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari, og manndrápara skal vissulega af lífi taka.
17 Hafi hann lostið hann með stein í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.
18 Eða hafi hann lostið hann með trétól í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.
19 Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, hann skal drepa hann, ef hann hittir hann.
20 Og hrindi hann honum af hatri eða kasti í hann af ásetningi, svo að hann bíður bana af,
21 eða ljósti hann af fjandskap með hendinni, svo að hann bíður bana af, þá skal sá, er laust hann, vissulega líflátinn verða; hann er manndrápari. Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann.
22 En hafi hann hrundið honum óvart, en eigi af fjandskap, eða kastað í hann einhverju verkfæri, þó eigi af ásettu ráði,
23 eða hann kastar til hans steini, sem getur orðið manni að bana, án þess að sjá hann, svo að hann bíður bana af, og var þó ekki óvinur hans og ætlaði ekki að gjöra honum mein,
24 þá dæmi söfnuðurinn milli vegandans og hefndarmannsins eftir lögum þessum.
25 Og söfnuðurinn skal forða veganda undan hefndarmanninum og söfnuðurinn skal láta flytja hann aftur í griðastað þann, er hann hafði flúið í, og skal hann dvelja þar uns æðsti presturinn deyr, sem smurður hefur verið með heilagri olíu.
26 En ef vegandi fer út fyrir landamerki griðastaðar þess, er hann hefir í flúið,
27 og hefndarmaður hittir hann fyrir utan landamerki griðastaðar hans, og hefndarmaður vegur veganda, þá er hann eigi blóðsekur.
28 Því að vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns.
29 Þetta skulu vera lög hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
30 Nú drepur einhver mann, og skal þá manndráparann af lífi taka eftir framburði votta. Þó má ekki kveða upp dauðadóm yfir manni eftir framburði eins vitnis.
31 Og eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur, heldur skal hann af lífi tekinn verða.
32 Eigi skuluð þér heldur leyfa manni að leysa sig með fébótum undan því að flýja í griðastað sinn, heldur megi hverfa aftur og búa í landinu áður en prestur deyr.
33 Og þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið, og landið fær eigi friðþæging fyrir það blóð, sem úthellt er í því, nema með blóði þess, sem úthellti því.
34 Og þú skalt ekki saurga landið, sem þér búið í, með því að ég bý í því. Ég, Drottinn, bý meðal Ísraelsmanna."
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
27 Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.
2 Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð:
3 Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.
4 Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku _
5 nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.
6 Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.
7 Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir?
8 Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði.
9 Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar.
10 Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti.
11 Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.
12 Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn!
13 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.
5 Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.
2 Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.
3 Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,
4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?
6 Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.
7 Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:]
8 Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman.
9 Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn.
10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn.
11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans.
12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.
13 Þetta hef ég skrifað yður, sem trúið á nafn Guðs sonar, til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf.
14 Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.
15 Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um.
16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja.
17 Allt ranglæti er synd, en til er synd, sem ekki er til dauða.
18 Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir hann og hinn vondi snertir hann ekki.
19 Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.
20 Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.
by Icelandic Bible Society