M’Cheyne Bible Reading Plan
34 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þegar þér komið inn í Kanaanland, þá skal það vera landið, sem þér hljótið til eignar, Kanaanland til ystu ummerkja.
3 Suðurhliðin skal vera: frá Síneyðimörk meðfram Edóm. Og austurendi suðurtakmarkanna skal vera suðurendi Dauðahafs.
4 Þaðan skulu takmörkin liggja í boga fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og ná yfir til Sín og endir þeirra vera fyrir sunnan Kades Barnea. Skulu þau liggja til Hasar Addar og ná yfir til Asmón.
5 Frá Asmón skulu takmörkin liggja í boga til Egyptalandsár og alla leið til sjávar.
6 Að vesturtakmörkum skuluð þér hafa hafið mikla; þetta skulu vera vesturtakmörkin.
7 Norðurtakmörkin skulu vera þessi: Frá hafinu mikla skuluð þér taka stefnu á Hórfjall.
8 Frá Hórfjalli skuluð þér taka stefnu þangað sem leið liggur til Hamat, og þaðan alla leið til Sedad.
9 Skulu takmörkin ná til Sífrón og enda í Hasar Enan. Þetta skulu vera landamerki yðar að norðanverðu.
10 Að austanverðu skuluð þér setja merkjalínuna frá Hasar Enan til Sefam.
11 En frá Sefam skulu landamerkin liggja suður til Ribla, fyrir austan Aín. Þaðan skulu landamerkin liggja niður eftir og nema við fjallhrygginn fyrir austan Genesaretvatn.
12 Og landamerkin skulu liggja niður með Jórdan og enda við Dauðahafið. Þessi skulu merki vera lands yðar hringinn í kring."
13 Og Móse bauð Ísraelsmönnum og sagði: "Þetta er landið, sem þér skuluð fá til eignar með hlutkesti og Drottinn bauð að gefa níu ættkvíslunum og hálfri.
14 Því að ættkvísl Rúbens sona, hver ætt fyrir sig, og ættkvísl Gaðs sona, hver ætt fyrir sig, og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn eignarhluta.
15 Tvær ættkvíslirnar og hálf hafa fengið sinn eignarhluta hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, austanmegin."
16 Drottinn talaði við Móse og sagði:
17 "Þessi eru nöfn þeirra manna, er skipta skulu landinu milli yðar: Eleasar prestur og Jósúa Núnsson
18 og einn höfðingi af ættkvísl hverri til að skipta landinu,
19 og þessi eru nöfn þeirra: af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson,
20 af ættkvísl Símeons sona: Samúel Ammíhúdsson,
21 af ættkvísl Benjamíns: Elídad Kislónsson,
22 af ættkvísl Dans sona: Búkí Joglíson höfðingi,
23 af sonum Jósefs: af ættkvísl Manasse sona: Hanníel Efóðsson höfðingi,
24 af ættkvísl Efraíms sona: Kemúel Siftansson höfðingi;
25 af ættkvísl Sebúlons sona: Elísafan Parnaksson höfðingi,
26 af ættkvísl Íssakars sona: Paltíel Asansson höfðingi,
27 af ættkvísl Assers sona: Akíhúð Selómíson höfðingi,
28 af ættkvísl Naftalí sona: Pedahel Ammíhúdsson höfðingi."
29 Þessir voru þeir, er Drottinn bauð að skipta skyldu landeignum milli Ísraelsmanna í Kanaanlandi.
38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.
39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.
40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.
41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,
43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.
44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.
45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.
46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.
49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.
50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.
52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.
53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.
54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.
55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.
56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.
57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.
60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,
61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.
62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.
64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.
65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.
66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.
67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,
68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.
69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.
70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.
71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.
72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.
26 Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki.
2 Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir
3 og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.
4 Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg.
5 Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið.
6 Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.
7 Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú.
8 Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.
9 Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.
10 Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.
11 Drottinn, hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum.
12 Drottinn, veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka.
13 Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú höfðu fengið yfirráð yfir oss, en nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn.
14 Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.
15 Þú hefir gjört þjóðina stóra, Drottinn, þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins.
16 Drottinn, í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá.
17 Eins og þunguð kona, sem komin er að því að fæða, hefir hríðir og hljóðar í harmkvælum sínum, eins vorum vér fyrir þínu augliti, Drottinn!
18 Vér vorum þungaðir, vér höfðum hríðir en þegar vér fæddum, var það vindur. Vér höfum eigi aflað landinu frelsis, og heimsbúar hafa eigi fæðst.
19 Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.
20 Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá.
21 Því sjá, Drottinn gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.
4 Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.
2 Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði.
3 En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum.
4 Þér börnin mín, heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum.
5 Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá.
6 Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar.
7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.
8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.
9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.
10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.
11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.
12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss.
13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda.
14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins.
15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.
16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
17 Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er.
18 Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.
20 Ef einhver segir: "Ég elska Guð," og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.
21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.
by Icelandic Bible Society