M’Cheyne Bible Reading Plan
33 Þessir voru áfangar Ísraelsmanna, er þeir fóru af Egyptalandi, hver hersveit fyrir sig, undir forystu þeirra Móse og Arons.
2 Móse færði í letur að boði Drottins staðina, sem þeir lögðu upp frá, eftir áföngum þeirra, og þessir voru áfangar þeirra frá einum áfangastað til annars:
3 Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi,
4 meðan Egyptar voru að jarða alla frumburðina, er Drottinn hafði fyrir þeim deytt, og Drottinn hafði látið refsidóma ganga yfir goð þeirra.
5 Ísraelsmenn lögðu upp frá Ramses og settu búðir sínar í Súkkót.
6 Þeir lögðu upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.
7 Þeir lögðu upp frá Etam og sneru leið sinni til Pí-Hakírót, sem er fyrir austan Baal Sefón, og settu búðir sínar fyrir austan Mígdól.
8 Þeir lögðu upp frá Pí-Hakírót og fóru þvert yfir hafið inn í eyðimörkina. Og þeir fóru þriggja daga leið í Etameyðimörk og settu búðir sínar í Mara.
9 Þeir lögðu upp frá Mara og komu til Elím. En í Elím voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmaviðir. Þar settu þeir búðir sínar.
10 Þeir lögðu upp frá Elím og settu búðir sínar við Sefhafið.
11 Þeir lögðu upp frá Sefhafinu og settu búðir sínar í Síneyðimörk.
12 Þeir lögðu upp frá Síneyðimörk og settu búðir sínar í Dofka.
13 Þeir lögðu upp frá Dofka og settu búðir sínar í Alús.
14 Þeir lögðu upp frá Alús og settu búðir sínar í Refídím. Þar hafði lýðurinn ekki vatn að drekka.
15 Þeir lögðu upp frá Refídím og settu búðir sínar í Sínaí-eyðimörk.
16 Þeir lögðu upp frá Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í Kibrót-hattava.
17 Þeir lögðu upp frá Kibrót-hattava og settu búðir sínar í Haserót.
18 Þeir lögðu upp frá Haserót og settu búðir sínar í Ritma.
19 Þeir lögðu upp frá Ritma og settu búðir sínar í Rimmón Peres.
20 Þeir lögðu upp frá Rimmón Peres og settu búðir sínar í Líbna.
21 Þeir lögðu upp frá Líbna og settu búðir sínar í Ríssa.
22 Þeir lögðu upp frá Ríssa og settu búðir sínar í Kehelata.
23 Þeir lögðu upp frá Kehelata og settu búðir sínar á Seferfjalli.
24 Þeir lögðu upp frá Seferfjalli og settu búðir sínar í Harada.
25 Þeir lögðu upp frá Harada og settu búðir sínar í Makhelót.
26 Þeir lögðu upp frá Makhelót og settu búðir sínar í Tahat.
27 Þeir lögðu upp frá Tahat og settu búðir sínar í Tera.
28 Þeir lögðu upp frá Tera og settu búðir sínar í Mitka.
29 Þeir lögðu upp frá Mitka og settu búðir sínar í Hasmóna.
30 Þeir lögðu upp frá Hasmóna og settu búðir sínar í Móserót.
31 Þeir lögðu upp frá Móserót og settu búðir sínar í Bene Jaakan.
32 Þeir lögðu upp frá Bene Jaakan og settu búðir sínar í Hór Haggiðgað.
33 Þeir lögðu upp frá Hór Haggiðgað og settu búðir sínar í Jotbata.
34 Þeir lögðu upp frá Jotbata og settu búðir sínar í Abróna.
35 Þeir lögðu upp frá Abróna og settu búðir sínar í Esjón Geber.
36 Þeir lögðu upp frá Esjón Geber og settu búðir sínar í Síneyðimörk, það er Kades.
37 Þeir lögðu upp frá Kades og settu búðir sínar á Hórfjalli, á landamærum Edómlands.
38 Og Aron prestur fór að boði Drottins upp á Hórfjall og andaðist þar á fertugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna af Egyptalandi, í fimmta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins.
39 Aron var hundrað tuttugu og þriggja ára, þegar hann andaðist á Hórfjalli.
40 Og Kanaanítinn, konungurinn í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanlands, spurði komu Ísraelsmanna.
41 Þeir lögðu upp frá Hórfjalli og settu búðir sínar í Salmóna.
42 Þeir lögðu upp frá Salmóna og settu búðir sínar í Fúnón.
43 Þeir lögðu upp frá Fúnón og settu búðir sínar í Óbót.
44 Þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje Haabarím, Móabslandi.
45 Þeir lögðu upp frá Íjím og settu búðir sínar í Díbon Gað.
46 Þeir lögðu upp frá Díbon Gað og settu búðir sínar í Almón Díblataím.
47 Þeir lögðu upp frá Almón Díblataím og settu búðir sínar í Abarímfjöllum, fyrir austan Nebó.
48 Þeir lögðu upp frá Abarímfjöllum og settu búðir sínar á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó.
49 Settu þeir búðir sínar við Jórdan frá Bet Hajesímót til Abel Hasittím á Móabsheiðum.
50 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:
51 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,
52 skuluð þér stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði.
53 Og þér skuluð kasta eign yðar á landið og festa byggð í því, því að yður hefi ég gefið landið til eignar.
54 Og þér skuluð fá erfðahluti í landinu eftir hlutkesti, hver ættkvísl fyrir sig. Þeirri ættkvísl, sem mannmörg er, skuluð þér fá mikinn erfðahlut, en þeirri, sem fámenn er, skuluð þér fá lítinn erfðahlut. Þar sem hlutur hvers eins fellur, það skal verða hans, eftir kynkvíslum feðra yðar skuluð þér fá það í erfðahlut.
55 En ef þér stökkvið ekki íbúum landsins burt undan yður, þá munu þeir af þeim, er þér skiljið eftir, verða þyrnar í augum yðar og broddar í síðum yðar, og þeir munu veita yður þungar búsifjar í landinu, sem þér búið í,
56 og þá mun svo fara, að ég mun gjöra svo við yður sem ég hafði fyrirhugað að gjöra við þá."
78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.
3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,
8 og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.
9 Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.
10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.
11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.
12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.
13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.
14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.
15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,
16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.
17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.
18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust
19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?
20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"
21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,
22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.
23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;
25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.
26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,
28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.
29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.
30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,
31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.
32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.
33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.
34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði
35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.
36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.
37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.
25 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.
2 Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.
3 Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.
4 Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir,
5 glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.
6 Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.
7 Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.
8 Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.
9 Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"
10 Hönd Drottins mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli.
11 Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans.
12 Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.
3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki.
2 Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.
3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn.
4 Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.
5 Þér vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd.
6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
7 Börnin mín, látið engan villa yður. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur.
8 Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.
9 Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd, því að það, sem Guð hefur í hann sáð, varir í honum. Hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði.
10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.
11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.
12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.
13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.
14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.
15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.
16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.
17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?
18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.
19 Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum,
20 hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.
21 Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs.
22 Og hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.
23 Og þetta er hans boðorð, að vér skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hver annan, samkvæmt því sem hann hefur gefið oss boðorð um.
24 Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í oss þekkjum vér af andanum, sem hann hefur gefið oss.
by Icelandic Bible Society