M’Cheyne Bible Reading Plan
31 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Hefn þú Ísraelsmanna á Midíanítum. Eftir það skalt þú safnast til þíns fólks."
3 Móse talaði við lýðinn og sagði: "Hervæðið menn af yður til herfarar, og skulu þeir fara á móti Midíansmönnum til þess að koma fram hefnd Drottins á Midíansmönnum.
4 Skuluð þér senda þúsund manns af ættkvísl hverri af öllum ættkvíslum Ísraels til herfararinnar."
5 Voru þá látnir til af þúsundum Ísraels þúsund af ættkvísl hverri, tólf þúsund herbúinna manna.
6 Og Móse sendi þá, þúsund manns af ættkvísl hverri, til herfarar, og með þeim Pínehas, son Eleasars prests, og hafði hann með sér hin helgu áhöld og hvellilúðrana.
7 Og þeir börðust við Midíansmenn, eins og Drottinn hafði boðið Móse, og drápu alla karlmenn.
8 Þeir drápu og konunga Midíansmanna, auk annarra, er þeir felldu: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, fimm konunga Midíansmanna. Bíleam Beórsson drápu þeir og með sverði.
9 Ísraelsmenn tóku að herfangi konur Midíansmanna og börn þeirra og rændu öllum eykjum þeirra, öllum fénaði þeirra og öllum eigum þeirra.
10 En þeir lögðu eld í allar borgir þeirra, sem þeir bjuggu í, og í allar tjaldbúðir þeirra.
11 Og þeir tóku allt ránsféð og allt herfangið, bæði menn og skepnur,
12 og færðu Móse og Eleasar presti og söfnuði Ísraelsmanna hið hertekna fólk, herfangið og ránsféð í herbúðirnar, til Móabsheiða, sem eru við Jórdan gegnt Jeríkó.
13 Móse og Eleasar prestur og allir höfuðsmenn safnaðarins gengu í móti þeim út fyrir herbúðirnar.
14 Reiddist Móse þá hersveitarforingjunum, bæði þeim er settir voru yfir þúsundir og þeim er settir voru yfir hundruð og komu úr leiðangrinum,
15 og sagði við þá: "Gáfuð þér öllum konum líf?
16 Sjá, það voru einmitt þær, sem urðu tilefni til þess, að Ísraelsmenn að ráði Bíleams sýndu Drottni ótrúmennsku vegna Peórs, svo að plágan kom yfir söfnuð Drottins.
17 Drepið því öll piltbörn. Drepið og allar þær konur, er samræði hafa átt við karlmann,
18 en látið öll stúlkubörn, er eigi hafa átt samræði við karlmann, lifa handa yður.
19 En sjálfir skuluð þér hafast við fyrir utan herbúðirnar í sjö daga. Hver sem drepið hefir mann og hver sem snert hefir veginn mann, þér skuluð syndhreinsa yður á þriðja degi og sjöunda degi, svo og þeir, er þér hafið tekið að herfangi.
20 Þér skuluð og syndhreinsa allan klæðnað, alla hluti af skinni gjörva, allt sem gjört er úr geitahárum, svo og öll tréílát."
21 Og Eleasar prestur sagði við hermennina, er gengið höfðu í bardagann: "Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið Móse.
22 En láta skuluð þér gull, silfur, eir, járn, tin og blý,
23 allt sem eld þolir, ganga í gegnum eld, og er það þá hreint. Þó skal það enn syndhreinsað með hreinsunarvatni. En allt sem eigi þolir eld, skuluð þér láta ganga í gegnum vatn.
24 Og þér skuluð þvo klæði yðar á sjöunda degi, og eruð þá hreinir. Eftir það megið þér koma í herbúðirnar."
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
26 "Tel þú herfangið, bæði menn og skepnur, þú og Eleasar prestur og ætthöfðingjar safnaðarins,
27 og skipt þú herfanginu til helminga milli þeirra, er vopnaviðskiptin áttu, þeirra er í leiðangurinn fóru, og alls safnaðarins.
28 Og þú skalt taka í skattgjald Drottni til handa af bardagamönnunum, þeim er í leiðangurinn fóru, eina sál af hverjum fimm hundruðum _ af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði.
29 Takið það af þeirra helmingi, og skalt þú fá það Eleasar presti sem fórnargjöf Drottni til handa.
30 En af helmingi Ísraelsmanna skalt þú taka frá eina af hverjum fimmtíu _ af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði, af öllum skepnum, og fá levítunum, sem annast búð Drottins."
31 Og Móse og Eleasar prestur gjörðu eins og Drottinn hafði boðið Móse.
32 En herfangið _ það sem eftir var af ránsfé því, er herfólkið hafði rænt _ voru 675.000 af sauðfénaði,
33 72.000 af nautgripum
34 og 61.000 asnar,
35 og alls 32.000 konur er eigi höfðu átt samræði við karlmann.
36 En helmingshlutur þeirra, er í leiðangurinn fóru, var að tölu 337.500 af sauðfénaði,
37 og skattgjaldið til handa Drottni af sauðfénaðinum var 675,
38 af nautgripum 36.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 72,
39 asnarnir 30.500, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 61,
40 og mennirnir 16.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 32 sálir.
41 Móse fékk Eleasar presti fórnarskattgjaldið Drottni til handa, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
42 Og af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu og Móse skipti frá hermönnunum _
43 en í hluta safnaðarins kom: af sauðfénaði 337.500,
44 af nautgripum 36.000,
45 af ösnum 30.500
46 og af mönnum 16.000, _
47 af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu, tók Móse frá einn af hverjum fimmtíu, bæði af mönnum og skepnum, og fékk levítunum, er annast búð Drottins, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
48 Höfuðsmennirnir yfir þúsundum hersins, fyrirliðarnir fyrir þúsundunum og fyrirliðarnir fyrir hundruðunum, gengu nú fram fyrir Móse
49 og sögðu við Móse: "Vér þjónar þínir höfum talið bardagamennina, er vér áttum yfir að ráða, og vér söknum eigi neins af þeim.
50 Fyrir því færum vér Drottni að fórnargjöf hver það, er hann hefir komist yfir af gullgripum: armhringa, armbönd, fingurgull, eyrnagull og hálsmen, til þess að friðþægja fyrir sálir vorar fyrir Drottni."
51 Þeir Móse og Eleasar tóku við gullinu af þeim. Var það alls konar listasmíði.
52 En gullið, sem þeir færðu Drottni að fórnargjöf, var alls 16.750 siklar, og var það frá fyrirliðunum fyrir þúsundunum og frá fyrirliðunum fyrir hundruðunum.
53 Hermennirnir höfðu rænt hver handa sér.
54 Og þeir Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af fyrirliðunum fyrir þúsundunum og hundruðunum og færðu það í samfundatjaldið, Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni.
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
23 Spádómar um Týrus. Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í! Frá Kýpur berst þeim sú fregn.
2 Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara,
3 og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna!
4 Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: "Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar."
5 Þegar fregnin kemur til Egyptalands, munu þeir skelfast af fregninni um Týrus.
6 Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar.
7 Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga og stikað hefir langar leiðir til þess að taka sér bólfestu?
8 Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu?
9 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu.
10 Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til.
11 Drottinn rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans.
12 Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld.
13 Sjá land Kaldea, það er þjóðin, sem orðin er að engu. Assýringar hafa fengið það urðarköttum. Þeir reistu vígturna sína, rifu niður hallirnar, gjörðu landið að rústum.
14 Kveinið, þér Tarsis-knerrir, því að varnarvirki yðar er lagt í eyði.
15 Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs. En að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu:
16 Tak gígjuna, far um alla borgina, þú gleymda skækja! Leik fagurlega, syng hátt, svo að eftir þér verði munað!
17 Að liðnum þeim sjötíu árum mun Drottinn vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru;
18 en aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða Drottni. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti Drottins, skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.
1 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.
2 Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss.
3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.
4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."
6 Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.
7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.
8 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki synd," þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.
9 Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.
10 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki syndgað," þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.
by Icelandic Bible Society