Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 30

30 Móse talaði við höfuðsmenn ættkvísla Ísraelsmanna á þessa leið: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið.

Nú gjörir maður Drottni heit eða vinnur eið að því að leggja á sig bindindi, og skal hann þá eigi bregða orði sínu. Hann skal að öllu leyti svo gjöra sem hann hefir talað.

Ef kona gjörir Drottni heit og leggur á sig bindindi, meðan hún er í æsku í föðurhúsum,

og faðir hennar veit af heitinu eða bindindinu, er hún hefir á sig lagt, en segir ekkert við hana, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.

En ef faðir hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um það, þá skulu öll heit hennar ógild vera og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt, og Drottinn mun fyrirgefa henni, af því að faðir hennar bannaði henni.

En giftist hún, og heit hvíla á henni og óvarlega töluð orð, er hún hefir bundið sig með,

og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana, þá skulu heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.

En ef maður hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um, ógildir hann heitið, sem á henni hvílir, og óvarkárnisorðin, er hún hefir bundið sig með, og Drottinn mun fyrirgefa henni.

Heit ekkju eða konu brottrekinnar _ allt sem hún hefir bundist, er skuldbindandi fyrir hana.

10 En gjöri hún heit í húsi manns síns eða leggi á sig bindindi með eiði,

11 og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana og bannar henni ekki, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt.

12 En ef maður hennar ógildir jafnskjótt og hann fær vitneskju um, þá skal allt, sem komið hefir yfir varir hennar, ógilt vera, hvort heldur eru heit eða bindindisskuldbinding. Maður hennar hefir ógilt það, og Drottinn mun fyrirgefa henni.

13 Sérhvert heit og sérhvern skuldbindingareið um að fasta getur maður hennar staðfest eða ógilt.

14 En ef maður hennar segir alls ekkert við hana dag eftir dag, þá staðfestir hann öll heit hennar eða allar þær skuldbindingar, er á henni hvíla. Hann hefir staðfest þær með því að segja ekkert við hana, þá er hann fékk vitneskju um það.

15 En ef hann ógildir þær eftir að hann hefir fengið vitneskju um, þá tekur hann á sig misgjörð hennar."

16 Þetta eru þau ákvæði, er Drottinn bauð Móse að gilda skyldu milli manns og konu, milli föður og dóttur, meðan hún er í æsku og í föðurhúsum.

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Jesaja 22

22 Spádómur um Sjóna-dalinn. Hvað kemur að þér, að allt fólk þitt skuli vera stigið upp á húsþökin,

þú ofkætisfulli, hávaðasami bær, þú glaummikla borg? Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki fallið fyrir sverði né beðið bana í orustum.

Höfðingjar þínir lögðu allir saman á flótta, voru handteknir án þess skotið væri af boga. Allir menn þínir, er náðust, voru handteknir hver með öðrum, þótt þeir hefðu flúið langt burt.

Þess vegna segi ég: "Látið mig einan, ég vil gráta beisklega. Gjörið mér eigi ónæði með því að hugga mig yfir eyðingu dóttur þjóðar minnar."

Því að dagur skelfingar, undirokunar og úrræðaleysis var kominn frá hinum alvalda, Drottni allsherjar, í Sjóna-dalnum. Múrar voru brotnir niður, óhljóðin heyrðust til fjalla.

Elam tók örvamælinn, ásamt mönnuðum vögnum og hestum, og Kír tók hlífar af skjöldum.

Þínir fegurstu dalir fylltust hervögnum, og riddarar tóku sér stöðu fyrir borgarhliðunum.

Og hann tók skýluna burt frá Júda. Á þeim degi skyggndist þú um eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu,

og þér sáuð, að veggskörðin voru mörg í Davíðsborg. Og þér söfnuðuð vatninu í neðri tjörninni,

10 tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð húsin til þess að treysta með múrvegginn.

11 Og þér bjugguð til vatnstæðu milli múrveggjanna tveggja fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En að honum, sem þessu veldur, gáfuð þér eigi gætur, og til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu, lituð þér ekki.

12 Á þeim degi kallaði hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, menn til að gráta og kveina, til að reyta hár sitt og gyrðast hærusekk.

13 En sjá, hér er gleði og glaumur, naut drepin, sauðum slátrað, kjöt etið, vín drukkið: "Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!"

14 Opinberun Drottins allsherjar hljómar í eyrum mínum: "Sannlega skuluð þér eigi fá afplánað þessa misgjörð áður en þér deyið"_ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.

15 Svo mælti hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Far þú og gakk til þessa dróttseta, hans Sébna, er forstöðu veitir húsi konungsins:

16 Hvað hefir þú hér að gjöra? Og hvern átt þú hér, er þú lætur höggva þér hér gröf? Þú sem höggva lætur gröf handa þér á háum stað og lætur grafa handa þér legstað í berginu.

17 Sjá, Drottinn varpar þér burt, maður! Hann þrífur fast í þig,

18 vefur þig saman í böggul og þeytir þér sem sopp út á víðan vang. Þar skalt þú deyja og þar skulu þínir dýrlegu vagnar vera, þú sem ert húsi Drottins þíns til svívirðu!

19 Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða.

20 En á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason.

21 Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja.

22 Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka.

23 Ég rek hann eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns.

24 En hengi allur þungi föðurættar hans sig á hann með niðjum sínum og skyldmennum, öll smákerin, eigi aðeins skálarnar, heldur og öll leirkerin,

25 þá mun naglinn _ það eru orð Drottins allsherjar, _ sem rekinn var á haldgóðum stað, jafnskjótt láta undan, brotna og detta niður, og byrðin, sem á honum hékk, skal sundur molast, því að Drottinn hefir talað það.

Síðara almenna bréf Péturs 3

Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður.

Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.

Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum

og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar."

Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs.

Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.

En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.

En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.

Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.

10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.

11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni,

12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.

13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.

14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.

15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.

16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.

17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society