Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 29

29 Í sjöunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Þann dag skal blásið í básúnur hjá yður.

Í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin skuluð þér þá fórna einu ungneyti, einum hrút og sjö veturgömlum sauðkindum gallalausum.

Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum,

og einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda.

Enn fremur einn geithafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður, _

auk tunglkomu-brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja, að réttum sið _ til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.

Tíunda daginn í þessum sama sjöunda mánuði skuluð þér halda helga samkomu og fasta. Þá skuluð þér ekkert verk vinna.

En í brennifórn skuluð þér færa Drottni til þægilegs ilms eitt ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar.

Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum,

10 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda.

11 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk syndafórnar til friðþægingar, og stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.

12 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu, heldur halda Drottni hátíð í sjö daga.

13 Þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, þrettán ungneyti, tvo hrúta og fjórtán sauðkindur veturgamlar. Skulu þær vera gallalausar.

14 Og í matfórn með þeim fínt mjöl olíublandað, þrjá tíundu parta með hverju þeirra þrettán nauta, tvo tíundu parta með hvorum þeirra tveggja hrúta

15 og einn tíunda part með hverri þeirra fjórtán sauðkinda.

16 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

17 Annan daginn tólf ungneyti, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

18 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

19 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.

20 Þriðja daginn ellefu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

21 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

22 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

23 Fjórða daginn tíu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

24 matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

25 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

26 Fimmta daginn níu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

27 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

28 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

29 Sjötta daginn átta naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

30 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

31 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnanna, er henni fylgja.

32 Sjöunda daginn sjö naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,

33 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

34 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

35 Áttunda daginn skuluð þér halda hátíðastefnu. Eigi skuluð þér vinna neina stritvinnu.

36 Og þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, eitt naut, einn hrút og sjö veturgamlar sauðkindur gallalausar,

37 matfórn og dreypifórnir með nautinu, hrútnum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.

38 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

39 Þessu skuluð þér fórna Drottni á löghátíðum yðar, auk heitfórna yðar og sjálfviljafórna, hvort heldur eru brennifórnir, matfórnir, dreypifórnir eða heillafórnir."

40 Og Móse lagði að öllu leyti svo fyrir Ísraelsmenn sem Drottinn hafði boðið honum.

Sálmarnir 73

73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.

Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,

því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.

Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.

Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.

Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.

Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.

Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.

Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.

10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.

11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"

12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,

14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.

15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.

16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,

17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:

18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.

19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.

20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,

22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.

23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.

24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.

25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.

26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.

28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.

Jesaja 21

21 Spádómur um öræfin við hafið. Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi.

Hörð tíðindi hafa mér birt verið: "Ránsmenn ræna, hermenn herja! Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum."

Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert.

Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu.

Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið. "Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!"

Svo sagði Drottinn við mig: "Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér.

Og sjáir þú menn á reið, tvo reiðmenn, annan ríðandi á asna, hinn á úlfalda, þá legg þú hlustirnar við."

En ég kallaði: "Æ, Drottinn, á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?"

En sjá, þá komu menn ríðandi, tveir reiðmenn. Og þeir tóku til orða og sögðu: "Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni."

10 Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af Drottni allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður.

11 Spádómur um Dúma. Það er kallað til mín frá Seír: "Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?"

12 Vökumaðurinn svarar: "Morgunninn kemur, og þó er nótt. Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið."

13 Spádómur um Arabíu. Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna!

14 Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum!

15 Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins.

16 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða,

17 og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir sagt það.

Síðara almenna bréf Péturs 2

En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.

Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt.

Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki.

Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.

Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.

Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.

En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.

Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.

Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,

10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.

11 Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni.

12 Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða

13 og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla.

14 Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim.

15 Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun.

16 En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins.

17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur.

18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.

19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.

20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.

21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.

22 Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: "Hundur snýr aftur til spýju sinnar," og: "Þvegið svín veltir sér í sama saur."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society