M’Cheyne Bible Reading Plan
28 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þér skuluð gæta þess að færa mér á tilteknum tíma fórnargjöf mína, mat minn af eldfórnunum til þægilegs ilms, er mér ber.
3 Og þú skalt segja við þá: Þetta er eldfórnin, sem þér skuluð færa Drottni: Tvær sauðkindur veturgamlar, gallalausar, á dag í stöðuga brennifórn.
4 Annarri sauðkindinni skalt þú fórna að morgni, hinni skalt þú fórna að kveldi um sólsetur,
5 og tíunda parti úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olíuberjum, í matfórn.
6 Er það hin stöðuga brennifórn, sem færð var undir Sínaífjalli til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.
7 Í dreypifórn skal fylgja hverri sauðkind fjórðungur úr hín. Í helgidóminum skalt þú dreypa Drottni dreypifórn af áfengum drykk.
8 Hinni sauðkindinni skalt þú fórna um sólsetur, með sömu matfórn sem um morguninn og þeirri dreypifórn, er henni fylgir, sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
9 Á hvíldardegi skal fórna tveim sauðkindum veturgömlum gallalausum, og tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og dreypifórninni, er henni fylgir.
10 Þetta er brennifórnin, sem færa skal á hverjum hvíldardegi, auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.
11 Á fyrsta degi hvers mánaðar skuluð þér færa Drottni í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar,
12 og þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverju nauti, tvo tíundu parta af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hrútnum,
13 og einn tíunda part af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverri sauðkind, sem brennifórn þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.
14 Dreypifórnirnar, er þeim fylgja, skulu vera hálf hín af víni með hverju nauti, þriðjungur úr hín með hrútnum og fjórðungur úr hín með hverri sauðkind. Þetta er brennifórnin, sem fórna skal á hverjum mánuði árið um kring.
15 Auk þess einn geithafur í syndafórn Drottni til handa. Skal fórna honum auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.
16 Í fyrsta mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar Drottins.
17 Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð.
18 Fyrsta daginn er haldin helg samkoma. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
19 Og þér skuluð færa Drottni í eldfórn, í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar.
20 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu. Skuluð þér fórna þremur tíundu pörtum með hverju nauti og tveimur tíundu pörtum með hrútnum.
21 Einum tíunda parti skalt þú fórna með hverri þeirra sjö sauðkinda.
22 Enn fremur einn hafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður.
23 Þessu skuluð þér fórna, auk morgunbrennifórnarinnar, sem fram er borin í hina stöðugu brennifórn.
24 Þessu skuluð þér fórna á degi hverjum í sjö daga sem eldfórnarmat þægilegs ilms Drottni til handa. Skal fórna því auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er honum fylgir.
25 Sjöunda daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
26 Frumgróðadaginn, þegar þér færið Drottni nýja matfórn, á viknahátíð yðar, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
27 Og í brennifórn þægilegs ilms Drottni til handa skuluð þér færa tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar.
28 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu, þrjá tíundu parta með hverju nauti, tvo tíundu parta með hrútnum,
29 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda;
30 einn geithafur til þess að friðþægja fyrir yður.
31 Auk hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, skuluð þér fórna þessu, ásamt dreypifórnunum, er því fylgja. Skuluð þér hafa það gallalaust.
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
19 Spádómur um Egyptaland. Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.
2 Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki.
3 Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum.
4 Ég vil selja Egypta harðráðum drottnara á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
5 Vötnin í sjónum munu þverra og fljótið grynnast og þorna upp.
6 Árkvíslarnar munu fúlna, fljót Egyptalands þverra og þorna, reyr og sef visna.
7 Engjarnar fram með Níl, á sjálfum Nílarbökkunum, og öll sáðlönd við Níl þorna upp, eyðast og hverfa.
8 Þá munu fiskimennirnir andvarpa og allir þeir sýta, sem öngli renna í Níl, og þeir, sem leggja net í vötn, munu örvilnast.
9 Þeir, sem vinna hörinn, munu standa ráðþrota, kembingarkonurnar og vefararnir blikna.
10 Stoðir landsins skulu brotnar verða sundur, allir þeir, sem vinna fyrir kaup, verða hugdaprir.
11 Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku. Hvernig dirfist þér að segja við Faraó: "Ég er sonur vitringanna og kominn af fornkonungunum"?
12 Hvar eru nú vitringar þínir? Þeir ættu nú að segja þér, og mega vita, hverja fyrirætlan Drottinn allsherjar hefir með Egyptaland.
13 Höfðingjarnir í Sóan standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nóf eru á tálar dregnir. Þeir sem eru hyrningarsteinar ættkvísla Egyptalands, hafa leitt það á glapstigu.
14 Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína.
15 Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra.
16 Á þeim degi munu Egyptar verða sem konur, þeir munu skelfast og hræðast reidda hönd Drottins allsherjar, er hann reiðir gegn þeim.
17 Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er Drottinn allsherjar hefir ráðið gegn þeim.
18 Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni Drottni allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar.
19 Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin.
20 Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá.
21 Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau.
22 Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá.
23 Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum.
24 Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri.
25 Drottinn allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!
20 Árið sem yfirhershöfðinginn kom til Asdód, sendur af Sargon Assýríukonungi, og herjaði á Asdód og vann hana, _
2 í það mund talaði Drottinn fyrir munn Jesaja Amozsonar á þessa leið: Far og leys hærusekkinn af lendum þér og drag skó þína af fótum þér. Og hann gjörði svo og gekk fáklæddur og berfættur.
3 Og Drottinn mælti: Eins og Jesaja þjónn minn hefir gengið fáklæddur og berfættur í þrjú ár sem tákn og fyrirburður um Egyptaland og Bláland,
4 svo skal Assýríukonungur færa burt bandingjana frá Egyptalandi og útlagana frá Blálandi, bæði unga og gamla, fáklædda og berfætta, með bera bakhlutina, Egyptum til smánar.
5 Þá munu þeir skelfast og skammast sín vegna Blálands, er þeir reiddu sig á, og Egyptalands, er þeir stærðu sig af. Og þeir, sem búa á þessari strönd, munu segja á þeim degi: "Svo er þá komið fyrir þeim, er vér reiddum oss á og flýðum til í von um hjálp til þess að frelsast undan Assýríukonungi! Hversu megum vér þá sjálfir komast undan?"
1 Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim, sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér fyrir réttlæti Guðs vors og frelsara vors Jesú Krists.
2 Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.
3 Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð.
4 Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.
5 Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu,
6 í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni,
7 í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.
8 Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.
9 En sá, sem ekki hefur þetta til að bera, er blindur í skammsýni sinni og hefur gleymt hreinsun fyrri synda sinna.
10 Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.
11 Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.
12 Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast.
13 Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður.
14 Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér.
15 Og ég vil einnig leggja kapp á, að þér ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa.
16 Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans.
17 Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."
18 Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.
19 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.
20 Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.
21 Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.
by Icelandic Bible Society