M’Cheyne Bible Reading Plan
27 Þá komu dætur Selofhaðs Heferssonar, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Manasse Jósefssonar. Þær hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.
2 Gengu þær fyrir Móse og Eleasar prest og fyrir höfuðsmennina og allan söfnuðinn, fyrir dyrum samfundatjaldsins, og sögðu:
3 "Faðir vor dó í eyðimörkinni, og var hann þó ekki í flokki þeirra manna, er samblástur gjörðu gegn Drottni, í flokki Kóra, því að hann dó vegna sinnar eigin syndar. En hann átti enga sonu.
4 Hvers vegna á nú nafn föður vors að hverfa úr ætt hans, af því að hann átti engan son? Fá oss óðal meðal bræðra föður vors."
5 Móse flutti mál þeirra fyrir Drottin.
6 Og Drottinn sagði við Móse: "Dætur Selofhaðs hafa rétt að mæla.
7 Fá þeim óðalsland meðal bræðra föður þeirra, og þú skalt láta eignarland föður þeirra ganga til þeirra.
8 En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: ,Nú deyr maður og á ekki son. Skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans.
9 En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans.
10 En eigi hann enga bræður, þá skuluð þér fá föðurbræðrum hans eignarland hans.
11 En eigi faðir hans enga bræður, þá skuluð þér fá nánasta skyldmenni hans í ættinni eignarland hans, hann skal eignast það."` Þetta skulu lög vera með Ísraelsmönnum, svo sem Drottinn hefir boðið Móse.
12 Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú hér upp á Abarímfjall og lít yfir landið, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum.
13 Og er þú hefir litið það, skalt þú einnig safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn gjörði,
14 sökum þess að þið þrjóskuðust gegn skipun minni í Síneyðimörk, þá er lýðurinn möglaði og þið skylduð helga mig fyrir augum þeirra með vatninu." _ Þar eru nú Meríbavötn hjá Kades í Síneyðimörk.
15 En Móse talaði við Drottin og sagði:
16 "Drottinn, Guð lífsandans í öllu holdi, setji mann yfir lýðinn,
17 sem gangi út fyrir þeim og gangi inn fyrir þeim, sem leiði þá út og leiði þá inn, svo að söfnuður Drottins sé eigi eins og hjörð, sem engan hirði hefir."
18 Þá sagði Drottinn við Móse: "Tak þú Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og legg hönd þína yfir hann.
19 Leið hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn og skipa hann í embætti í augsýn þeirra.
20 Og þú skalt leggja yfir hann af tign þinni, svo að allur söfnuður Ísraelsmanna hlýði honum.
21 Og hann skal ganga fyrir Eleasar prest, en Eleasar leita úrskurðar með úrím fyrir hann frammi fyrir Drottni. Að hans boði skulu þeir ganga út, og að hans boði skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum og allur söfnuðurinn."
22 Og Móse gjörði eins og Drottinn hafði boðið honum. Tók hann Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn,
23 lagði því næst hendur sínar yfir hann og skipaði hann í embætti, eins og Drottinn hafði sagt fyrir Móse.
70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.
3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.
5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"
6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.
19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
17 Spádómur um Damaskus. Sjá, Damaskus skal verða afmáð og ekki vera borg framar, hún skal verða að rústum.
2 Borgir Aróer skulu verða yfirgefnar, hjörðum skulu þær verða til beitar, þar skulu þær liggja og enginn styggja þær.
3 Varnarvirki Efraíms líður undir lok og konungdómurinn hverfur frá Damaskus. Fyrir leifum Sýrlands skal fara eins og fyrir vegsemd Ísraelsmanna _ segir Drottinn allsherjar.
4 Á þeim degi mun vegsemd Jakobs verða lítilfengleg og fitan á holdi hans rýrna.
5 Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður safnar kornstöngum og armleggur hans afsníður öxin, og eins og þegar öx eru tínd í Refaím-dal.
6 Eftirtíningur skal eftir verða af þeim, eins og þegar olíuviður er skekinn, tvö eða þrjú ber efst í laufinu, fjögur eða fimm á greinum aldintrésins _ segir Drottinn, Ísraels Guð.
7 Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael.
8 Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna.
9 Á þeim degi munu hinar víggirtu borgir hans verða sem yfirgefnir staðir Amoríta og Hevíta, er þeir fyrirlétu, þá er þeir hrukku undan Ísraelsmönnum, og landið skal verða að auðn,
10 því að þú hefir gleymt Guði hjálpræðis þíns og eigi minnst þess hellubjargsins, sem er hæli þitt. Vegna þess að þú plantar yndislega garða og setur þar niður útlenda gróðurkvistu,
11 ræktar garð þinn á daginn og lætur á morgnana útsæði þitt blómgast, skal uppskeran bregðast á degi hins banvæna sárs og hinna ólæknandi kvala.
12 Heyr gný margra þjóða _ þær gnýja sem gnýr hafsins. Heyr dyn þjóðflokkanna _ þeir dynja eins og dynur mikilla vatnsfalla.
13 Þjóðflokkarnir dynja eins og dynur margra vatnsfalla. En Drottinn hastar á þá, og þá flýja þeir langt burt. Þeir tvístrast eins og sáðir á hólum fyrir vindi, eins og rykmökkur fyrir stormi.
14 Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.
18 Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta,
2 er gjörir út sendimenn yfir hafið og í reyrbátum yfir vötnin. Farið, þér hröðu sendiboðar, til hinna hávöxnu og gljáandi þjóðar, til lýðsins, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, til hinnar afar sterku þjóðar, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna:
3 Allir þér, sem heimskringluna byggið og á jörðu búið, skuluð sjá, þegar merkið er reist á fjöllunum, og hlusta, þegar blásið er í lúðurinn.
4 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Ég vil halda kyrru fyrir og horfa á frá bústað mínum, meðan loftið er glóandi í sólskininu, meðan döggin er mikil í breiskjuhita kornskurðartímans.
5 Áður en uppskeran kemur, þegar blómgunin er á enda og blómið verður að fullvöxnu vínberi, heggur hann vínviðargreinarnar af með sniðlinum, og frjóangana stýfir hann, sníður þá af.
6 Allir saman skulu þeir gefnir verða ránfuglum fjallanna og dýrum jarðarinnar. Ránfuglarnir skulu sitja á þeim sumarlangt og öll dýr jarðarinnar halda sig þar þegar vetrar.
7 Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar Drottni allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, frá hinni afar sterku þjóð, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna, _ til þess staðar, þar sem nafn Drottins hersveitanna er, til Síonfjalls.
5 Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða:
2 Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.
3 Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.
4 Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.
5 Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að "Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð".
6 Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.
7 Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.
8 Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.
9 Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.
10 En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.
11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.
12 Með hjálp Silvanusar, hins trúa bróður, í mínum augum, hef ég stuttlega ritað yður þetta til þess að minna á og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðugir í henni.
13 Yður heilsar söfnuðurinn í Babýlon, útvalinn ásamt yður, og Markús sonur minn.
by Icelandic Bible Society