M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Eftir pláguna sagði Drottinn við Móse og Eleasar Aronsson prests:
2 "Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna, þeirra er tvítugir eru og þaðan af eldri, eftir ættum þeirra, allra þeirra sem vopnfærir eru í Ísrael."
3 Og Móse og Eleasar prestur töldu þá á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó,
4 frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, eins og Drottinn hafði boðið Móse. Ísraelsmenn, þeir er fóru af Egyptalandi, voru:
5 Rúben, frumgetinn sonur Ísraels. Synir Rúbens: Hanok, frá honum er komin kynkvísl Hanokíta, frá Pallú kynkvísl Pallúíta,
6 frá Hesrón kynkvísl Hesróníta, frá Karmí kynkvísl Karmíta.
7 Þessar eru kynkvíslir Rúbeníta. En þeir sem taldir voru af þeim, voru 43.730.
8 Synir Pallú: Elíab;
9 og synir Elíabs: Nemúel, Datan og Abíram. Það voru þessir Datan og Abíram, fulltrúar safnaðarins, sem þráttuðu við Móse og við Aron í flokki Kóra, þá er þeir þráttuðu við Drottin.
10 Opnaði jörðin þá munn sinn og svalg þá og Kóra, þá er flokkurinn fórst, með því að eldur eyddi tvö hundruð og fimmtíu manns, og urðu þeir til tákns.
11 En synir Kóra fórust þó ekki.
12 Synir Símeons, eftir kynkvíslum þeirra: frá Nemúel er komin kynkvísl Nemúelíta, frá Jamín kynkvísl Jamíníta, frá Jakín kynkvísl Jakíníta,
13 frá Sera kynkvísl Seraíta, frá Sál kynkvísl Sálíta.
14 Þessar eru kynkvíslir Símeoníta, 22.200.
15 Synir Gaðs, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sefón er komin kynkvísl Sefóníta, frá Haggí kynkvísl Haggíta, frá Súní kynkvísl Súníta,
16 frá Osní kynkvísl Osníta, frá Erí kynkvísl Eríta,
17 frá Aród kynkvísl Aródíta, frá Arelí kynkvísl Arelíta.
18 Þessar eru ættkvíslir Gaðs sona, þeir er taldir voru af þeim, 40.500.
19 Synir Júda voru Ger og Ónan, en Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi.
20 Synir Júda, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sela er komin kynkvísl Selaníta, frá Peres kynkvísl Peresíta, frá Sera kynkvísl Seraíta.
21 Synir Peres voru: frá Hesrón kynkvísl Hesróníta, frá Hamúl kynkvísl Hamúlíta.
22 Þessar eru kynkvíslir Júda, þeir er taldir voru af þeim, 76.500.
23 Synir Íssakars, eftir kynkvíslum þeirra: frá Tóla er komin kynkvísl Tólaíta, frá Púva kynkvísl Púníta,
24 frá Jasjúb kynkvísl Jasjúbíta, frá Símron kynkvísl Símroníta.
25 Þessar eru kynkvíslir Íssakars, þeir er taldir voru af þeim, 64.300.
26 Synir Sebúlons, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sered er komin kynkvísl Seredíta, frá Elon kynkvísl Eloníta, frá Jahleel kynkvísl Jahleelíta.
27 Þessar eru kynkvíslir Sebúloníta, þeir er taldir voru af þeim, 60.500.
28 Synir Jósefs, eftir kynkvíslum þeirra: Manasse og Efraím.
29 Synir Manasse: frá Makír er komin kynkvísl Makíríta, en Makír gat Gíleað, frá Gíleað er komin kynkvísl Gíleaðíta.
30 Þessir eru synir Gíleaðs: Jeser, frá honum er komin kynkvísl Jesríta, frá Helek kynkvísl Helekíta,
31 frá Asríel kynkvísl Asríelíta, frá Síkem kynkvísl Síkemíta,
32 frá Semída kynkvísl Semídaíta, frá Hefer kynkvísl Hefríta.
33 En Selofhað sonur Hefers átti enga sonu, heldur aðeins dætur. Dætur Selofhaðs hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.
34 Þessar eru kynkvíslir Manasse, og þeir sem taldir voru af þeim, 52.700.
35 Þessir eru synir Efraíms, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sútela er komin kynkvísl Sútelaíta, frá Beker kynkvísl Bekeríta, frá Tahan kynkvísl Tahaníta.
36 Þessir voru synir Sútela: frá Eran kynkvísl Eraníta.
37 Þessar eru kynkvíslir Efraíms sona, þeir er taldir voru af þeim, 32.500. Þessir eru synir Jósefs eftir kynkvíslum þeirra.
38 Synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra: frá Bela er komin kynkvísl Belaíta, frá Asbel kynkvísl Asbelíta, frá Ahíram kynkvísl Ahíramíta,
39 frá Súfam kynkvísl Súfamíta, frá Húfam kynkvísl Húfamíta.
40 Synir Bela voru Ard og Naaman, frá Ard er komin kynkvísl Ardíta, frá Naaman kynkvísl Naamíta.
41 Þessir eru synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra, og þeir sem taldir voru af þeim, 45.600.
42 Þessir eru synir Dans, eftir kynkvíslum þeirra: frá Súham er komin kynkvísl Súhamíta. Þessar eru kynkvíslir Dans, eftir kynkvíslum þeirra.
43 Allar kynkvíslir Súhamíta, þeir er taldir voru af þeim, 64.400.
44 Synir Assers, eftir kynkvíslum þeirra: frá Jímna er komin kynkvísl Jímníta, frá Jísví kynkvísl Jísvíta, frá Bría kynkvísl Brííta,
45 frá sonum Bría: frá Heber kynkvísl Hebríta, frá Malkíel kynkvísl Malkíelíta.
46 Dóttir Assers hét Sera.
47 Þessar eru kynkvíslir Assers sona, þeir er taldir voru af þeim, 53.400.
48 Synir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra: frá Jahseel er komin kynkvísl Jahseelíta, frá Gúní kynkvísl Gúníta,
49 frá Jeser kynkvísl Jisríta, frá Sillem kynkvísl Sillemíta.
50 Þessar eru kynkvíslir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra, sem taldir voru af þeim, 45.400.
51 Þetta voru þeir, sem taldir voru af Ísraelsmönnum, 601.730.
52 Drottinn talaði við Móse og sagði:
53 "Meðal þessara skal landinu skipta til eignar eftir nafnatölu.
54 Þeirri kynkvísl, sem mannmörg er, skalt þú fá mikið land til eignar, en þeirri, sem fámenn er, lítið land til eignar. Sérhverjum skal land gefið til eignar í réttu hlutfalli við talda menn hans.
55 Þó skal landinu skipt með hlutkesti, svo að þeir hljóti það til eignar eftir nöfnum ættstofnanna.
56 Eftir því sem hlutkestið segir til, skal eignum skipt milli þeirra, svo sem þeir eru margir og fáir til."
57 Þessir eru levítarnir, sem taldir voru, eftir kynkvíslum þeirra: frá Gerson er komin kynkvísl Gersoníta, frá Kahat kynkvísl Kahatíta, frá Merarí kynkvísl Meraríta.
58 Þessar eru kynkvíslir Leví: kynkvísl Libníta, kynkvísl Hebroníta, kynkvísl Mahelíta, kynkvísl Músíta, kynkvísl Kóraíta. Kahat gat Amram.
59 Og kona Amrams hét Jókebed, dóttir Leví; fæddist hún Leví í Egyptalandi. En hún fæddi Amram þá Aron og Móse og systur þeirra Mirjam.
60 Og Aroni fæddust Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.
61 En Nadab og Abíhú dóu, er þeir báru annarlegan eld fram fyrir Drottin.
62 Þeir sem taldir voru af levítum, voru 23.000, allt karlkyn mánaðargamalt og þaðan af eldra. Þeir voru ekki taldir með Ísraelsmönnum, af því að þeim var eigi fengið land til eignar meðal Ísraelsmanna.
63 Þetta er manntalið, sem Móse og Eleasar prestur tóku, er þeir töldu Ísraelsmenn á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó.
64 Enginn þeirra var á manntalinu, sem Móse og Aron prestur tóku meðal Ísraelsmanna í Sínaí-eyðimörk,
65 því að Drottinn hafði sagt um þá: "Þeir skulu vissulega deyja í eyðimörkinni," enda var enginn orðinn eftir af þeim nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.
69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.
2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.
4 Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.
5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.
6 Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.
7 Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.
8 Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.
9 Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.
10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.
11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.
12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.
13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.
14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.
15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.
16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.
17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.
18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.
19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.
20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.
21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.
22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.
23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.
24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.
25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.
26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,
27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.
28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.
29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.
30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.
31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.
16 Sendið landshöfðingjanum sauðaskattinn úr klettagjánum gegnum eyðimörkina til fjalls Síondóttur.
2 Eins og flöktandi fuglar, eins og ungar, fældir úr hreiðri, skulu Móabsdætur verða við vöðin á Arnon.
3 "Legg nú ráð, veit hjálp, gjör skugga þinn um hábjartan dag sem nótt. Fel hina burtreknu, seg ekki til flóttamannanna.
4 Ljá hinum burtreknu úr Móab dvöl hjá þér. Ver þeim verndarskjól fyrir eyðandanum. Þegar kúgarinn er horfinn burt, eyðingunni linnir og undirokararnir eru farnir úr landinu,
5 þá mun veldisstóll reistur verða með miskunnsemi og á honum sitja með trúfesti í tjaldi Davíðs dómari, sem leitar réttinda og temur sér réttlæti."
6 Vér höfum heyrt drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ ofmetnað hans, drambsemi og ofsa, og hin marklausu stóryrði hans.
7 Þess vegna kveina nú Móabítar yfir Móab, allir kveina þeir. Yfir rúsínukökum Kír Hareset munu þeir andvarpa harla hnuggnir.
8 Því að akurlönd Hesbon eru fölnuð og víntré Síbma. Vín þeirra varpaði höfðingjum þjóðanna til jarðar. Vínviðarteinungarnir náðu til Jaser, villtust út um eyðimörkina. Greinar þeirra breiddu sig út, fóru yfir hafið.
9 Fyrir því græt ég með Jaser yfir víntrjám Síbma. Ég vökva þig með tárum mínum, Hesbon og Eleale! því að fagnaðarópum óvinanna laust yfir sumargróða þinn og vínberjatekju.
10 Fögnuður og kæti eru horfin úr aldingörðunum, og í víngörðunum heyrast engir gleðisöngvar né fagnaðarhljóð. Troðslumenn troða ekki vínber í vínþröngunum, ég hefi látið fagnaðaróp þeirra þagna.
11 Fyrir því titrar hjarta mitt sem gígjustrengur sökum Móabs og brjóst mitt sökum Kír Hares.
12 Og þó að Móab sýni sig á blóthæðinni og streitist við og fari inn í helgidóm sinn til að biðjast fyrir, þá mun hann samt engu til leiðar koma.
13 Þetta er það orð, sem Drottinn talaði um Móab fyrrum.
14 En nú talar Drottinn á þessa leið: Áður en þrjú ár eru liðin, slík sem ár kaupamanna eru talin, skal vegsemd Móabs með öllum hinum mikla mannfjölda fyrirlitin verða, en leifar munu eftir verða, lítilfenglegar, eigi teljandi.
4 Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,
2 hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.
3 Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.
4 Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.
5 En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.
6 Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.
7 En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.
8 Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.
9 Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.
10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.
11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.
13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.
14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.
15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.
16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.
17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?
18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?
19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.
by Icelandic Bible Society