Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 25

25 Meðan Ísrael dvaldi í Sittím, tók lýðurinn að drýgja hór með Móabs dætrum.

Buðu þær lýðnum til fórnarmáltíða goða sinna, og lýðurinn át og tilbað goð þeirra.

Og Ísrael hafði mök við Baal Peór. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael.

Drottinn sagði við Móse: "Tak með þér alla höfðingja lýðsins og líflát þá úti undir berum himni fyrir Drottni, svo að hin ákafa reiði Drottins hverfi í brott frá Ísrael."

Móse sagði þá við dómarana í Ísrael: "Drepi nú hver um sig þá af sínum mönnum, er mök hafa haft við Baal Peór."

Sjá, einn af Ísraelsmönnum kom og hafði með sér midíanska konu til bræðra sinna í augsýn Móse og alls safnaðar Ísraelsmanna, er þeir voru grátandi fyrir dyrum samfundatjaldsins.

En er Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, sá það, gekk hann fram úr söfnuðinum og tók spjót í hönd sér.

Fór hann á eftir Ísraelsmanninum inn í svefnhýsið og lagði þau bæði í gegn, Ísraelsmanninn og konuna, gegnum kviðinn. Staðnaði þá plágan meðal Ísraelsmanna.

En þeir sem dóu í plágunni, voru tuttugu og fjórar þúsundir.

10 Drottinn talaði við Móse og sagði:

11 "Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, hefir bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum með því að vandlæta meðal þeirra með mínu vandlæti. Hefi ég því eigi gjöreytt Ísraelsmönnum í vandlæti mínu.

12 Seg því: ,Sjá, ég gef honum minn friðarsáttmála.

13 Hann og niðjar hans eftir hann skulu hljóta sáttmála ævarandi prestdóms fyrir það, að hann vandlætti vegna Guðs síns og friðþægði fyrir Ísraelsmenn."`

14 Hinn vegni Ísraelsmaður, sá er veginn var ásamt midíönsku konunni, hét Simrí Salúson. Var hann höfðingi eins ættleggs meðal Símeoníta.

15 Og midíanska konan, sem vegin var, hét Kosbí Súrsdóttir, en hann var höfðingi yfir ættstofni einum í Midían.

16 Og Drottinn talaði við Móse og sagði: "Kreppið að Midíansmönnum og fellið þá,

18 því að þeir hafa komið yður í krappan stað með brögðum þeim, er þeir beittu yður, bæði að því er snertir dýrkun Peórs og systur þeirra, Kosbí, dóttur midíanska höfðingjans, hennar sem vegin var, þá er plágan reið yfir sökum dýrkunar Peórs."

Sálmarnir 68

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:

13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.

14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.

16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.

17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.

23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,

24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.

26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.

27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.

28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss

30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.

31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!

32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]

34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.

35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.

36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

Jesaja 15

15 Spádómur um Móab. Já, á náttarþeli verður Ar í Móab unnin og gjöreydd! Já, á náttarþeli verður Kír í Móab unnin og gjöreydd!

Íbúar Díbon stíga upp á hæðirnar til að gráta. Móab kveinar á Nebó og í Medeba. Hvert höfuð er sköllótt, allt skegg af rakað.

Á strætunum eru þeir gyrtir hærusekk. Uppi á þökunum og á torgunum kveina þeir allir, fljótandi í tárum.

Íbúar Hesbon og Eleale hljóða svo hátt, að það heyrist til Jahas. Þess vegna æpa hermennirnir í Móab, þeim er horfinn hugur.

Hjarta mitt kveinar yfir Móab, flóttamenn þeirra flýja til Sóar, til Eglat Selisía. Grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít. Á veginum til Hórónaím hefja þeir neyðarkvein tortímingarinnar.

Nimrímvötn eru orðin að öræfum, því að grasið skrælnar, jurtirnar eyðast, allt grængresi hverfur.

Fyrir því bera þeir það, sem þeir hafa dregið saman, og það, sem þeir hafa geymt, yfir Pílviðará.

Neyðarkveinið gengur yfir gjörvallt Móabsland. Hljóðin berast allt til Eglaím, hljóðin berast allt til Beer Elím.

Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.

Fyrra almenna bréf Péturs 3

Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna,

þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.

Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur,

heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.

Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar,

eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.

Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.

Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.

Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.

10 Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik.

11 Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.

12 Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra.

13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er?

14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.

15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.

16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.

17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa.

18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.

19 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.

20 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar _ það er átta _ sálir í vatni.

21 Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,

22 sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society