Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 24

24 Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar.

Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann.

Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

Hve fögur eru tjöld þín, Jakob! bústaðir þínir, Ísrael!

Eins og víðir árdalir, eins og aldingarðar á fljótsbökkum, eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett, eins og sedrustré við vötn.

Vatn rennur úr skjólum hans, og sáð hans hefir nægt vatn. Konungur hans mun meiri verða en Agag, og konungdómur hans mun verða vegsamlegur.

Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. Hann upp etur óvinaþjóðir, og bein þeirra brýtur hann og nístir þá með örvum sínum.

Hann leggst niður, hvílist sem ljón og sem ljónynja, _ hver þorir að reka hann á fætur? Blessaður sé hver sá, sem blessar þig, en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér.

10 Balak reiddist þá Bíleam mjög og barði saman hnefunum og sagði við Bíleam: "Til þess að biðja bölbæna óvinum mínum kallaði ég þig, en sjá, þú hefir nú blessað þá þrem sinnum.

11 Far þú því sem skjótast heim til þín! Ég hugðist veita þér mikla sæmd, en sjá, Drottinn hefir svipt þig þeirri sæmd."

12 Þá sagði Bíleam við Balak: "Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum:

13 ,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla`?

14 Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum."

15 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

16 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs og þekkir ráð hins hæsta, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

17 Ég sé hann, þó eigi nú, ég lít hann, þó eigi í nánd. Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti rís af Ísrael. Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum.

18 Og Edóm mun verða þegnland og Seír mun verða þegnland _ þessir óvinir hans, en Ísrael eykur vald sitt.

19 Frá Jakob mun drottnari koma og eyða flóttamönnum í borgunum.

20 En er hann leit Amalekíta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Fremstur af þjóðunum er Amalek, en að lyktum hnígur hann í valinn.

21 Og er hann leit Keníta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Traustur er bústaður þinn, og hreiður þitt er byggt á kletti.

22 Og þó er Kain eyðingin vís. Brátt mun Assúr flytja þig burt hernuminn.

23 Og hann flutti kvæði sitt og mælti: Vei, hver mun fá lífi haldið, er Guð lætur þetta að bera!

24 Og skip koma vestan frá Kýpur, og þau lægja Assúr og þau lægja Eber. En hann mun og hníga í valinn.

25 Síðan tók Bíleam sig upp, hélt af stað og hvarf aftur heimleiðis, og Balak fór einnig leiðar sinnar.

Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Jesaja 14

14 Drottinn mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús.

Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum.

Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð,

þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja: Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn, hve hljótt í kvalastaðnum!

Drottinn hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu, sprota yfirdrottnaranna,

sem laust þjóðflokkana í bræði högg á högg ofan, og kúgaði þjóðirnar í reiði með vægðarlausri kúgan.

Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.

Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér og sedrustrén á Líbanon: "Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga til þess að fella oss."

Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna til þess að taka á móti þér. Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur, alla foringja jarðarinnar. Af hásætum sínum lætur hún upp standa alla þjóðkonunga.

10 Þeir taka allir til máls og segja við þig: "Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér, orðinn jafningi vor!

11 Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar, hreimnum harpna þinna! Ormar eru breiddir undir þig, og ábreiðan þín eru maðkar."

12 Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna!

13 Þú, sem sagðir í hjarta þínu: "Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri.

14 Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta!"

15 Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar.

16 Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér: "Er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungsríkin,

17 gjörði jarðkringluna að eyðimörk, eyddi borgir hennar og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?"

18 Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir, hver í sínu húsi,

19 en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni, eins og auvirðilegum kvisti. Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði, eins og fótum troðið hræ.

20 Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir, hefir þú eigi samneyti, því að land þitt hefir þú eytt, myrt þjóð þína. Eigi skal nefnt verða að eilífu afsprengi illvirkjanna.

21 Búið nú sonum hans rauðan serk sakir misgjörða feðra þeirra. Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina né fyllt jarðkringluna rústum!

22 Ég vil rísa upp í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur _ segir Drottinn.

23 Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar, segir Drottinn allsherjar.

24 Drottinn allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.

25 Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra.

26 Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum.

27 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?

28 Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist.

29 Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki.

30 Hinir allralítilmótlegustu skulu hafa viðurværi, og hinir fátæku hvílast óhultir, en rót þína vil ég með hungri deyða, og leifarnar af þér munu drepnar verða.

31 Kveina, þú hlið! Hljóða þú, borg! Gnötra þú, gjörvöll Filistea! því að mökkur kemur úr norðurátt, í fylkingum hans dregst enginn aftur úr.

32 Og hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar? Að Drottinn hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.

Fyrra almenna bréf Péturs 2

Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal.

Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,

enda "hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður."

Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur,

og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.

Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.

Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini

og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.

En þér eruð "útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans," sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.

10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir "Guðs lýður". Þér, sem "ekki nutuð miskunnar", hafið nú "miskunn hlotið".

11 Þér elskuðu, ég áminni yður sem gesti og útlendinga að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni.

12 Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.

13 Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta,

14 og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.

15 Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.

16 Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.

17 Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.

18 Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með allri lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu.

19 Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.

20 Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.

21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.

22 "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans."

23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.

24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.

25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society