Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 23

23 Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta."

Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju.

Bíleam sagði við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér." Fór hann þá upp á skóglausa hæð.

Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: "Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari."

Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."

Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum.

Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig, konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla. "Kom þú, bölva Jakob fyrir mig, kom þú, formæl Ísrael!"

Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna, og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir?

Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.

10 Hver mun telja mega duft Jakobs, og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels? Deyi önd mín dauða réttlátra og verði endalok mín sem þeirra.

11 Þá sagði Balak við Bíleam: "Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá."

12 En Bíleam svaraði og sagði: "Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?"

13 Þá sagði Balak við Bíleam: "Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, _ þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, _ og bið þeim þar bölbæna fyrir mig."

14 Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði.

15 Þá mælti Bíleam við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð."

16 Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."

17 Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: "Hvað sagði Drottinn?"

18 Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti: Rís þú upp, Balak, og hlýð á! Hlusta þú á mig, Sippórs sonur!

19 Guð er ekki maður, að hann ljúgi, né sonur manns, að hann sjái sig um hönd. Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi?

20 Sjá, að blessa var mér falið, fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur.

21 Eigi sést óheill með Jakob, né heldur má mein líta með Ísrael. Drottinn, Guð hans, er með honum, og konungsfögnuður er hjá honum.

22 Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins.

23 Því að eigi er galdur með Jakob né fjölkynngi með Ísrael. Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael: Hversu mikla hluti hefir Guð gjört!

24 Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja og reisir sig sem ljón, hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð og drukkið blóð veginna manna.

25 Þá sagði Balak við Bíleam: "Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann."

26 En Bíleam svaraði og sagði við Balak: "Hefi ég ekki sagt þér: ,Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra`?"

27 Þá mælti Balak við Bíleam: "Kom þú, ég vil fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þóknist, að þú biðjir þeim þar bölbæna fyrir mig."

28 Tók Balak þá Bíleam með sér upp á Peórtind, sem mænir yfir öræfin.

29 Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta."

30 Og Balak gjörði sem Bíleam mælti og fórnaði uxa og hrút á altari hverju.

Sálmarnir 64-65

64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.

Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,

er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng

til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.

Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"

Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.

Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,

og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.

11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Jesaja 13

13 Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni.

Reisið merki á skóglausri hæð! Kallið hárri röddu til þeirra! Bendið þeim með hendinni, að þeir fari inn um hlið harðstjóranna!

Ég er sá, sem boðið hefi út vígðum liðsmönnum mínum og kallað á kappa mína til að framkvæma reiðidóm minn, þessa hreyknu og hróðugu menn mína.

Heyr þysinn á fjöllunum, eins og af mannmergð, heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. Drottinn allsherjar er að kanna liðið.

Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda, Drottinn með verkfæri reiði sinnar, til þess að leggja í eyði gjörvalla jörðina.

Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar.

Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi.

Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.

10 Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.

11 Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna.

12 Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull.

13 Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði.

14 Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land.

15 Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla.

16 Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.

17 Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið.

18 Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna.

19 Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.

20 Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.

21 Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um.

22 Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum. Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.

Fyrra almenna bréf Péturs 1

Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu,

en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,

til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.

Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.

Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.

Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.

Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,

þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.

10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast.

11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir.

12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.

13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.

14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.

15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.

16 Ritað er: "Verið heilagir, því ég er heilagur."

17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.

18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,

19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.

20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.

21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.

22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.

23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.

24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.

25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society