M’Cheyne Bible Reading Plan
22 Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó.
2 En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum.
3 Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum.
4 Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: "Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga." Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab.
5 Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: "Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér.
6 Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar."
7 Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks.
8 Bíleam sagði við þá: "Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér." Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina.
9 En Guð kom til Bíleams og sagði: "Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?"
10 Bíleam sagði við Guð: "Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending:
11 ,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt."`
12 En Guð sagði við Bíleam: "Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð."
13 Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: "Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður."
14 Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: "Bíleam færðist undan að fara með oss."
15 Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru.
16 Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: "Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund.
17 Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna."`
18 En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: "Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru.
19 En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala."
20 Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: "Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér."
21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta.
22 En reiði Guðs upptendraðist af því, að hann fór, og engill Drottins stóð í götunni fyrir honum. En hann reið ösnu sinni, og tveir sveinar hans voru með honum.
23 Og er asnan sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, sneri hún af götunni og fór út á grundina, en Bíleam barði ösnuna til þess að koma henni aftur á götuna.
24 Þá gekk engill Drottins í öngvegið milli víngarðanna, og var grjótgarður á báðar hliðar.
25 Og er asnan sá engil Drottins, þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Barði hann hana þá aftur.
26 Þá gekk engill Drottins enn fram fyrir og nam staðar í einstigi, þar sem ekki varð vikið til hægri né vinstri.
27 Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam. Þá reiddist Bíleam og barði hana með staf sínum.
28 Drottinn lauk þá upp munni ösnunnar, og hún sagði við Bíleam: "Hvað hefi ég gjört þér, er þú hefir nú barið mig þrisvar?"
29 En Bíleam sagði við ösnuna: "Af því að þú hefir dregið dár að mér. Væri svo vel, að ég hefði sverð í hendi, mundi ég óðara drepa þig."
30 Þá sagði asnan við Bíleam: "Er ég eigi asna þín, er þú hefir riðið alla þína ævi fram á þennan dag? Hefi ég nokkurn tíma verið vön að gjöra þér þetta?" En hann sagði: "Nei."
31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams, svo að hann sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, og hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.
32 En engill Drottins sagði við hann: "Hví hefir þú nú barið ösnu þína þrisvar sinnum? Sjá, það er ég, sem kominn er til að standa fyrir þér, því að þessi för er háskaleg í mínum augum.
33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið fyrir mér, mundi ég nú þegar hafa deytt þig, en hana mundi ég hafa látið lífi halda."
34 Þá sagði Bíleam við engil Drottins: "Ég hefi syndgað, því að ég vissi ekki að þú stóðst fyrir mér á veginum. Vil ég því snúa aftur, ef þér mislíkar."
35 En engill Drottins sagði við Bíleam: "Far þú með mönnunum, en ekki mátt þú tala annað en það, sem ég mun segja þér." Bíleam fór þá með höfðingjum Balaks.
36 Er Balak frétti að Bíleam kæmi, fór hann út í móti honum til Ír-Móab, sem liggur á landamærunum við Arnon, á ystu landamærunum.
37 Og Balak sagði við Bíleam: "Sendi ég ekki menn til þín til þess að sækja þig? Hví komst þú þá ekki til mín? Mun ég eigi þess megnugur að veita þér sæmd fyrir?"
38 En Bíleam sagði við Balak: "Sjá, ég er nú kominn til þín. En mun ég fá mælt nokkuð? Þau orð, sem Guð leggur mér í munn, þau mun ég mæla."
39 Bíleam fór þá með Balak, og þeir komu til Kirjat Kúsót.
40 Og Balak fórnaði nautum og sauðum og sendi Bíleam og höfðingjum þeim, sem með honum voru.
41 Um morguninn eftir tók Balak Bíleam með sér og fór með hann upp til fórnarhæðar Baals, en þaðan sá hann ysta hluta herbúða Ísraels.
62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]
6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]
10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.
12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.
2 Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.
3 Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.
4 Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.
5 Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.
6 Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.
7 Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.
8 Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.
9 Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.
10 Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.
11 Á þeim degi mun Drottinn útrétta hönd sína í annað sinn til þess að endurkaupa þær leifar fólks síns, sem eftir eru í Assýríu, Norður-Egyptalandi, Suður-Egyptalandi, Blálandi, Elam, Babýloníu, Hamat og á eyjum hafsins.
12 Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins.
13 Þá mun öfund Efraíms hverfa og fjandskapur Júda líða undir lok. Efraím mun ekki öfundast við Júda og Júda ekki fjandskapast við Efraím.
14 Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir.
15 Og Drottinn mun þurrka upp voga Egyptahafs og bregða hendi sinni yfir fljótið í stríðum stormi og skipta því í sjö kvíslir, svo að yfir má ganga með skó á fótum.
16 Og það skal verða brautarvegur fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýríu, eins og var fyrir Ísrael, þá er hann fór af Egyptalandi.
12 Á þeim degi skaltu segja: "Ég vegsama þig, Drottinn, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig.
2 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði."
3 Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
4 Og á þeim degi munuð þér segja: "Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans.
5 Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.
6 Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín."
5 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.
2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,
3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.
4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.
5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.
6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.
7 Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn.
8 Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.
9 Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum.
10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.
11 Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.
12 En umfram allt, bræður mínir, sverjið ekki, hvorki við himininn né við jörðina né nokkurn annan eið. En já yðar sé já, nei yðar sé nei, til þess að þér fallið ekki undir dóm.
13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.
14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum.
15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.
16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.
17 Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði.
18 Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.
19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,
by Icelandic Bible Society