M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Er kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Suður-Kanaan, spurði, að Ísrael kæmi Atarím-veginn, þá réðst hann á Ísrael og hertók nokkra þeirra.
2 Þá gjörði Ísrael Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur lýð þennan á mitt vald, skal ég banni helga borgir þeirra."
3 Og Drottinn heyrði raust Ísraels og seldi Kanaanítana þeim í hendur. Og þeir helguðu þá banni og borgir þeirra, og var staðurinn kallaður Horma.
4 Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni.
5 Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: "Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti."
6 Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael.
7 Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: "Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss." Móse bað þá fyrir lýðnum.
8 Og Drottinn sagði við Móse: "Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda."
9 Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.
10 Eftir þetta lögðu Ísraelsmenn upp og settu búðir sínar í Óbót.
11 Og þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje-Haabarím í eyðimörkinni, sem er fyrir austan Móab.
12 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar í Sered-dal.
13 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar hinum megin við Arnon, sem er í eyðimörkinni og kemur upp í landi Amoríta. Arnon skilur lönd Móabíta og Amoríta.
14 Fyrir því segir svo í bókinni um bardaga Drottins: Vaheb í Súfa og Arnondalir
15 og dalahlíðarnar, er ná þangað, sem Ar liggur, og liggja upp að löndum Móabíta.
16 Þaðan héldu þeir til Beer. Það er brunnurinn, sem Drottinn talaði um við Móse: "Safna saman lýðnum, ég vil gefa þeim vatn."
17 Þá söng Ísrael þetta kvæði: Vell þú upp, brunnur! Syngið í móti honum!
18 Brunnur, sem höfðingjarnir grófu og göfugmenni þjóðarinnar holuðu innan með veldissprota, með stöfum sínum. Frá eyðimörkinni héldu þeir til Mattana,
19 og frá Mattana til Nahalíel, og frá Nahalíel til Bamót,
20 og frá Bamót í dalinn, sem liggur í Móabslandi, að Pisgatindi, sem mænir yfir öræfin.
21 Ísrael sendi menn á fund Síhons Amorítakonungs og lét segja honum:
22 "Leyf mér að fara um land þitt. Eigi munum vér hneigja af út á akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg, þar til vér erum komnir út úr landi þínu."
23 En Síhon leyfði eigi Ísrael að fara um land sitt. Hann safnaði að sér öllum lýð sínum og fór í móti Ísrael inn í eyðimörkina. Og er hann kom til Jahsa, lagði hann til orustu við Ísrael.
24 En Ísrael vann sigur á honum með sverðseggjum og lagði undir sig land hans frá Arnon til Jabbok, allt að Ammónítum, því að landamerki Ammóníta voru ekki auðunnin.
25 Ísrael tók allar þessar borgir og settist að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum þar í kring.
26 Hesbon var borg Síhons Amorítakonungs. Hafði hann átt í ófriði við hinn fyrri konung Móabíta og tekið frá honum allt land hans að Arnon.
27 Fyrir því sögðu háðskáldin: Komið til Hesbon! Endurreist og grundvölluð verði borg Síhons!
28 Því að eldur gekk út frá Hesbon, logi frá borg Síhons. Hann eyddi Ar í Móab, lávörðum Arnonhæða.
29 Vei þér, Móab! Það er úti um þig, Kamoss lýður! Kamos lét sonu sína verða flóttamenn og dætur sínar herteknar verða af Síhon, Amorítakonungi.
30 Vér skutum á þá. Gjöreydd var Hesbon allt til Díbon, og vér fórum herskildi yfir, svo að eldurinn bálaðist upp allt til Medeba.
31 Ísrael settist nú að í landi Amoríta.
32 En Móse sendi njósnarmenn til Jaser, og þeir unnu hana og þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana, sem þar bjuggu.
33 Sneru þeir nú við og héldu veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti þeim með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí.
34 Þá sagði Drottinn við Móse: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."
35 Og þeir felldu hann og sonu hans og allt hans lið, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist, og lögðu þeir land hans undir sig.
60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,
2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
5 Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra.
6 Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum.
7 En hann skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir.
8 Hann segir: "Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?
9 Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus?
10 Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu,
11 já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!"
12 En þegar Drottinn hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans,
13 því að hann hefir sagt: "Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra.
14 Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst."
15 Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré.
16 Fyrir því mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál.
17 Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum
18 og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp.
19 Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp.
20 Á þeim degi skulu leifarnar af Ísrael og þeir af Jakobs húsi, sem af komast, eigi framar reiða sig á þann sem sló þá, heldur munu þeir með trúfesti reiða sig á Drottin, Hinn heilaga í Ísrael.
21 Leifar munu aftur hverfa, leifarnar af Jakob, til hins máttuga Guðs.
22 Því að þótt fólksfjöldi þinn, Ísrael, væri sem sjávarsandur, skulu þó aðeins leifar af honum aftur hverfa. Eyðing er fastráðin, framveltandi flóð réttlætis.
23 Því að eyðingu, og hana fastráðna, mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar framkvæma á jörðinni miðri.
24 Svo segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Þú þjóð mín, sem býr á Síon, óttast þú eigi Assúr, er hann slær þig með sprota og reiðir að þér staf sinn, eins og Egyptar gjörðu.
25 Því að eftir skamma hríð er reiðin á enda, og þá beinist heift mín að eyðing þeirra.
26 Þá reiðir Drottinn allsherjar svipuna að þeim, eins og þegar hann laust Midíansmenn hjá Óreb-kletti. Stafur hans er útréttur yfir hafið, og hann færir hann á loft, eins og gegn Egyptum forðum.
27 Á þeim degi skal byrði sú, sem hann hefir á þig lagt, falla af herðum þér og ok hans af hálsi þínum, og okið skal brotna fyrir ofurfitu.
28 Óvinurinn heldur til Ajat, fer um Mígron og lætur eftir farangur sinn í Mikmas.
29 Þeir fara yfir skarðið, þeir hafa náttból í Geba. Rama skelfist, íbúar Gíbeu Sáls leggja á flótta.
30 Hljóða þú upp, Gallímdóttir! Hlustaðu á, Lejsa! Taktu undir, Anatót!
31 Madmena flýr, íbúar Gebím forða sér undan.
32 Þennan sama dag æir hann í Nób. Hann réttir út hönd sína móti fjalli Síonardóttur, móti hæð Jerúsalemborgar.
33 Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar afsníður laufkrónuna voveiflega. Hin hávöxnu trén eru höggvin og hin gnæfandi hníga til jarðar.
34 Hann ryður skógarrunnana með öxi, og Líbanon fellur fyrir Hinum volduga.
4 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?
2 Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.
3 Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!
4 Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.
5 Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"
6 En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."
7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.
8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.
9 Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.
10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.
11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari.
12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?
13 Heyrið, þér sem segið: "Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!" _
14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.
15 Í stað þess ættuð þér að segja: "Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað."
16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.
17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.
by Icelandic Bible Society