Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 19

19 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

"Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið, er hann sagði: Seg við Ísraelsmenn, að þeir skuli færa þér rauða kvígu gallalausa, sem engin lýti hefir og ekki hefir verið leidd undir ok.

Skuluð þér fá hana Eleasar presti, og skal því næst færa hana út fyrir herbúðirnar og slátra henni í augsýn hans.

Og Eleasar prestur skal taka af blóði hennar með fingri sínum og stökkva sjö sinnum af blóði hennar mót framhlið samfundatjaldsins.

Síðan skal brenna kvíguna fyrir augum hans. Skal brenna bæði húðina, kjötið og blóðið, ásamt gorinu.

Þá skal prestur taka sedrusvið, ísópsvönd og skarlat og kasta á bálið, þar sem kvígan brennur.

Því næst skal prestur þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. Þó skal prestur vera óhreinn til kvelds.

Sömuleiðis skal sá, sem brennir hana, þvo klæði sín í vatni og lauga líkama sinn í vatni. Hann skal og vera óhreinn til kvelds.

Síðan skal einhver, sem hreinn er, safna saman öskunni af kvígunni og láta hana á hreinan stað fyrir utan herbúðirnar, svo að hún sé geymd handa söfnuði Ísraelsmanna í hreinsunarvatn. Þetta er syndafórn.

10 En sá sem safnar saman öskunni af kvígunni, skal þvo klæði sín og vera óhreinn til kvelds. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir Ísraelsmenn og fyrir þá útlendinga, er dvelja meðal þeirra:

11 Sá sem snertir lík, af hvaða manni sem vera skal, hann skal vera óhreinn sjö daga.

12 Hann skal syndhreinsa sig með hreinsunarvatninu á þriðja degi og á sjöunda degi, og er þá hreinn. En ef hann syndhreinsar sig ekki á þriðja degi og á sjöunda degi, mun hann eigi hreinn verða.

13 Hver sem snertir dauðan mann, lík af dauðum manni, og syndhreinsar sig ekki, hann saurgar búð Drottins, og skal sá maður upprættur verða úr Ísrael. Af því að hreinsunarvatninu var ekki stökkt á hann, er hann óhreinn. Óhreinleiki hans loðir enn við hann.

14 Þetta skulu lög vera, þegar maður deyr í tjaldi: Hver sem inn í tjaldið gengur, og hver sem í tjaldinu er, skal vera óhreinn sjö daga.

15 Og hvert opið ílát, sem ekki er bundið yfir, skal vera óhreint.

16 Og hver sem úti á víðavangi snertir lík af vegnum manni eða látnum manni eða mannabein eða gröf, hann skal vera óhreinn sjö daga.

17 En handa þeim, er saurgað hefir sig, skal taka ösku af brenndu syndafórninni, láta hana í ker og hella yfir hana rennandi vatni.

18 Síðan skal hreinn maður taka ísópsvönd, dýfa í vatnið og stökkva á tjaldið og öll ílátin og á þá menn, sem þar voru inni, svo og á þann, er snert hefir mannabein eða lík af vegnum manni eða látnum eða gröf.

19 Og skal hinn hreini stökkva á hinn óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi, og hann skal syndhreinsa hann á sjöunda degi. Því næst skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni, og er hann þá hreinn að kveldi.

20 En ef einhver saurgar sig og syndhreinsar sig ekki, _ sá maður skal upprættur verða úr söfnuðinum, því að hann hefir saurgað helgidóm Drottins. Hreinsunarvatni hefir ekki verið stökkt á hann, hann er óhreinn.

21 Skal þetta vera yður ævinlegt lögmál. Sá sem stökkvir hreinsunarvatninu, skal þvo klæði sín, og sá sem snertir hreinsunarvatnið, skal vera óhreinn til kvelds.

22 Og allt það, sem hinn óhreini snertir, skal vera óhreint, og ef maður snertir hann, skal hann vera óhreinn til kvelds."

Sálmarnir 56-57

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.

Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.

Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.

Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!

Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.

Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.

12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

Jesaja 8:1-9:7

Drottinn sagði við mig: "Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán.

Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason."

Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: "Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán.

Því að áður en sveinninn lærir að kalla ,faðir minn` og ,móðir mín,` skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung."

Og Drottinn talaði enn við mig og sagði:

Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni,

sjá, fyrir því mun Drottinn láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins _ Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka.

Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel!

Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast!

10 Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!

11 Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur:

12 Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri`, sem þetta fólk kallar ,samsæri`, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast.

13 Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing.

14 Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa.

15 Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir.

16 Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum.

17 Ég treysti Drottni, þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans.

18 Sjá, ég og synirnir, sem Drottinn hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá Drottni allsherjar, sem býr á Síonfjalli.

19 Ef þeir segja við yður: "Leitið til andasæringarmanna og spásagnarmanna, sem hvískra og umla! _ Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" _

20 þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!" Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða

21 og munu ráfa hrjáðir og hungraðir. Og er þá hungrar munu þeir fyllast bræði og formæla konungi sínum og Guði sínum. Hvort sem horft er til himins

22 eða litið til jarðar, sjá, þar er neyð og myrkur. Í angistarsorta og niðdimmu eru þeir útreknir.

Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna.

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.

Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.

Því að hið þunga ok hennar, stafinn, sem reið að herðum hennar, brodd rekstrarmannsins, hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíans.

Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur.

Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.

Hið almenna bréf Jakobs 2

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.

Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,

ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"

hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?

Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?

En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?

Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?

Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: "Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig", þá gjörið þér vel.

En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn.

10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess.

11 Því sá sem sagði: "Þú skalt ekki hórdóm drýgja", hann sagði líka: "Þú skalt ekki morð fremja." En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið.

12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.

13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.

14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?

15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi

16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.

19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.

20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?

21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?

22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.

23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.

24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.

25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?

26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society