Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 16

16 Kóra, sonur Jísehars, Kahats sonar, Leví sonar, gjörði uppreisn, ásamt þeim Datan og Abíram, sonum Elíabs, Pallú sonar, Rúbens sonar.

Þeir risu upp í móti Móse og með þeim tvö hundruð og fimmtíu manns af Ísraelsmönnum. Voru það höfuðsmenn safnaðarins og fulltrúar, nafnkunnir menn.

Þeir söfnuðust saman í gegn þeim Móse og Aroni og sögðu við þá: "Nú er nóg komið! Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?"

Er Móse heyrði þetta, féll hann fram á ásjónu sína.

Því næst mælti hann við Kóra og allan flokk hans og sagði: "Á morgun mun Drottinn kunnugt gjöra, hver hans er og hver heilagur er og hvern hann lætur nálgast sig. Og þann sem hann kýs sér, mun hann láta nálgast sig.

Gjörið þetta: Takið yður eldpönnur, Kóra og allur flokkur hans,

látið eld í þær og leggið á reykelsi fyrir augliti Drottins á morgun. Og sá, sem Drottinn kýs sér, hann skal vera heilagur. Nú er nóg komið, Leví synir!"

Móse sagði við Kóra: "Heyrið, Leví synir!

Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig, til þess að þér skylduð gegna þjónustu við búð Drottins og standa frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum?

10 Og hann lét þig nálgast sig og alla bræður þína, Leví sonu, með þér, og nú viljið þér einnig ná í prestsembættið!

11 Fyrir því hefir þú og allur þinn flokkur gjört samblástur í gegn Drottni, því að hvað er Aron, að þér möglið í gegn honum?"

12 Og Móse lét kalla þá Datan og Abíram, Elíabs sonu, en þeir svöruðu: "Eigi munum vér koma.

13 Sýnist þér það lítils vert, að þú leiddir oss brott úr því landi, er flýtur í mjólk og hunangi, til þess að láta oss deyja í eyðimörkinni, úr því þú vilt einnig gjörast drottnari yfir oss?

14 Þú hefir og eigi leitt oss inn í land, er flýtur í mjólk og hunangi, né gefið oss akra og víngarða til eignar. Hvort ætlar þú, að þú megir stinga augun úr mönnum þessum? Eigi munum vér koma!"

15 Þá varð Móse afar reiður og sagði við Drottin: "Lít ekki við fórn þeirra! Eigi hefi ég tekið svo mikið sem asna frá þeim né gjört nokkrum þeirra mein."

16 Þá sagði Móse við Kóra: "Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron.

17 Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin _ tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu."

18 Tóku þeir nú hver sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu á reykelsi. Og þeir námu staðar fyrir dyrum samfundatjaldsins, svo og þeir Móse og Aron.

19 Og Kóra safnaði í móti þeim öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins. Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum,

20 og Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:

21 "Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim."

22 En Móse og Aron féllu fram á ásjónur sínar og sögðu: "Guð, Guð lífsandans í öllu holdi! Hvort munt þú reiðast öllum söfnuðinum, þótt einn maður syndgi?"

23 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

24 "Mæl þú til safnaðarins og seg: Farið burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams."

25 Móse stóð upp og gekk til Datans og Abírams, og öldungar Ísraels fylgdu honum.

26 Og hann talaði til safnaðarins og sagði: "Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra."

27 Fóru þeir þá burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams. En þeir Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu úti fyrir tjalddyrum sínum og konur þeirra, synir og ungbörn.

28 Móse mælti þá: "Af þessu skuluð þér vita mega, að Drottinn hefir sent mig til að gjöra öll þessi verk, og að ég hefi eigi gjört þau eftir hugþótta mínum.

29 Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig.

30 En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin."

31 Og er hann hafði lokið máli sínu, þá sprakk jörðin undir fótum þeirra,

32 og jörðin opnaði munn sinn og svalg þá og fjölskyldur þeirra, svo og alla menn Kóra og allan fjárhlut þeirra.

33 Og þeir fóru lifandi niður til Heljar og allt, sem þeir áttu, og jörðin luktist saman yfir þeim, og þeir fórust mitt úr söfnuðinum.

34 En allur Ísrael, er umhverfis þá var, flýði við óp þeirra, því að þeir hugsuðu: Ella mun jörðin svelgja oss.

35 Og eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið.

36 Drottinn talaði við Móse og sagði:

37 "Seg þú Eleasar, syni Arons prests, að hann skuli taka eldpönnurnar út úr brunanum, en dreif þú eldinum langt burt, því að þær eru heilagar.

38 Eldpönnur þessara syndara, sem fyrirgjört hafa lífi sínu, skulu beittar út í þunnar plötur og klætt með þeim altarið, því að þeir báru þær fram fyrir Drottin, og eru þær því heilagar. Skulu þær vera Ísraelsmönnum til tákns."

39 Eleasar prestur tók eirpönnurnar, er þeir höfðu borið fram, sem brunnið höfðu, og hann beitti þær út og klæddi með þeim altarið,

40 Ísraelsmönnum til minningar um það, að enginn annarlegur maður, sem eigi er af ætt Arons, má ganga fram til þess að bera reykelsi fram fyrir Drottin, að eigi fari eins fyrir honum og Kóra og flokki hans, eins og Drottinn hafði sagt honum fyrir munn Móse.

41 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: "Þið hafið myrt lýð Drottins!"

42 En er múgurinn safnaðist saman í gegn þeim Móse og Aroni, varð þeim litið til samfundatjaldsins, og sjá, skýið huldi það og dýrð Drottins birtist.

43 Gengu þeir Móse og Aron þá fram fyrir samfundatjaldið.

44 Drottinn talaði við Móse og sagði:

45 "Víkið burt frá þessum söfnuði, og mun ég eyða honum á augabragði!" En þeir féllu fram á ásjónur sínar.

46 Og Móse sagði við Aron: "Tak eldpönnuna og lát eld í hana af altarinu, legg á reykelsi og far í skyndi til safnaðarins og friðþæg fyrir hann, því að reiði er út gengin frá Drottni, plágan byrjuð."

47 Aron tók hana, eins og Móse bauð, og hljóp inn í miðjan söfnuðinn, og sjá, plágan var byrjuð meðal fólksins. Og hann lagði á reykelsið og friðþægði fyrir lýðinn.

48 Og er hann stóð milli hinna dauðu og hinna lifandi, þá staðnaði plágan.

49 En þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra.

50 Og Aron gekk aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins, og var plágan stöðnuð.

Sálmarnir 52-54

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

Jesaja 6

Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.

Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."

Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.

Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."

Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng,

og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."

Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"

Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!

10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."

11 Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?" Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."

12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.

13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.

Bréfið til Hebrea 13

13 Bróðurkærleikurinn haldist.

Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.

Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.

Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.

Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: "Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?

Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.

Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.

Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.

10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.

11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.

12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.

13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.

15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.

16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.

18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.

19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.

20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,

21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.

23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.

24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society