Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 15

15 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður til bólfestu,

og þér færið Drottni eldfórn, hvort heldur er brennifórn eða sláturfórn, til að efna heit eða í sjálfviljafórn eða í tilefni af löghátíðum yðar, til þess að gjöra Drottni þægilegan ilm af nautum eða sauðfénaði,

þá skal sá, er færir Drottni fórnargjöf sína, jafnframt bera fram í matfórn einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við einn fjórða part úr hín af olíu.

En af víni í dreypifórn skalt þú fórna einum fjórða parti úr hín með brennifórn eða sláturfórn með hverri sauðkind.

Eða sé það með hrút, þá skalt þú fórna tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við þriðjung hínar af olíu í matfórn,

en af víni í dreypifórn þriðjung hínar. Skalt þú fram bera það sem þægilegan ilm Drottni til handa.

Og þegar þú fórnar ungneyti í brennifórn eða sláturfórn til þess að efna heit eða í heillafórn Drottni til handa,

þá skal fram bera í matfórn með ungneytinu þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við hálfa hín af olíu,

10 en af víni skalt þú fram bera í dreypifórn hálfa hín sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.

11 Skal svo gjört við sérhvern uxa, sérhvern hrút, við sérhvert lamb, hvort heldur er af sauðkindum eða geitum.

12 Eftir tölunni á því, sem þér fórnið, skuluð þér svo gjöra við hverja skepnu eftir tölu þeirra.

13 Sérhver innborinn maður skal fara eftir þessu, þegar hann færir Drottni eldfórn þægilegs ilms.

14 Og ef útlendingur dvelur um hríð meðal yðar eða einhver, sem tekið hefir sér fastan bústað meðal yðar, og hann fórnar Drottni eldfórn þægilegs ilms, þá skal hann gjöra svo sem þér gjörið.

15 Að því er söfnuðinn snertir, þá skulu vera ein lög bæði fyrir yður og útlendan mann, er hjá yður dvelur. Er það ævarandi lögmál frá kyni til kyns. Fyrir Drottni gildir hið sama um útlendan mann sem um yður.

16 Ein lög og einn réttur skal vera bæði fyrir yður og útlendan mann, sem með yður dvelur."

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

18 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í,

19 þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins.

20 Sem frumgróða af deigi yðar skuluð þér fórna köku að fórnargjöf. Eins og fórnargjöfinni af láfanum, svo skuluð þér fórna henni.

21 Af frumgróðanum af deigi yðar skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf frá kyni til kyns.

22 Ef yður yfirsést og þér haldið eigi öll þessi boðorð, sem Drottinn hefir lagt fyrir Móse,

23 allt það sem Drottinn hefir boðið yður fyrir munn Móse, frá þeim degi, er Drottinn bauð það og upp frá því, frá kyni til kyns,

24 og ef misgjörðin er framin án þess söfnuðurinn viti af, þá skal allur söfnuðurinn fórna ungneyti í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin, ásamt matfórn og dreypifórn, er því fylgja, að réttum sið, og geithafri í syndafórn.

25 Og presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna, og þeim mun fyrirgefið verða. Því að það var yfirsjón, og þeir hafa fram borið fórnargjöf sína, eldfórn Drottni til handa, svo og syndafórn sína, fram fyrir Drottin vegna yfirsjónar sinnar.

26 Og öllum söfnuði Ísraelsmanna mun fyrirgefið verða, svo og útlendum manni, er meðal yðar dvelur, því að yfirsjónin féll á allan söfnuðinn.

27 Ef einhver maður syndgar af vangá, skal hann fórna veturgamalli geit í syndafórn.

28 Og presturinn skal frammi fyrir Drottni friðþægja fyrir þann, er yfirsjón hefir hent og syndgað hefir af vangá, til þess að friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.

29 Þér skuluð hafa ein lög fyrir þann, er gjörir eitthvað af vangá, bæði fyrir mann innborinn meðal Ísraelsmanna og fyrir útlending, er dvelur meðal þeirra.

30 En sá maður, er fremur eitthvað af ásetningi, hvort heldur er innborinn maður eða útlendingur, hann smánar Drottin, og skal sá maður upprættur verða úr þjóð sinni,

31 því að hann hefir virt orð Drottins að vettugi og brotið boðorð hans. Slíkur maður skal vægðarlaust upprættur verða; misgjörð hans hvílir á honum."

32 Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi.

33 Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn.

34 Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara.

35 En Drottinn sagði við Móse: "Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar."

36 Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

37 Drottinn talaði við Móse og sagði:

38 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana.

39 Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða Drottins, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar.

40 Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Guði yðar.

41 Ég er Drottinn Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Ég er Drottinn Guð yðar."

Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jesaja 5

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð.

Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.

Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns!

Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?

En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður.

Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.

Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.

Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi.

Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus.

10 Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu.

11 Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni.

12 Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.

13 Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta.

14 Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað.

15 Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút.

16 En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi.

17 Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta.

18 Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum,

19 þeim er segja: "Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við."

20 Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.

21 Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti.

22 Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk,

23 þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra.

24 Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael.

25 Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt.

26 Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá.

27 Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra.

28 Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur.

29 Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað.

30 Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.

Bréfið til Hebrea 12

12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.

Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.

Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.

Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.

Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?

En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.

Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?

10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.

11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.

12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.

13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.

14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.

15 Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.

16 Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.

17 Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.

18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris

19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.

20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."

21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."

22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,

23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,

24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.

25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.

26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."

27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.

28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.

29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society