Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 14

14 Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt.

Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: "Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk!

Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?"

Og þeir sögðu hver við annan: "Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!"

Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna.

En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín.

Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: "Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland.

Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi.

Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!"

10 Allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti, en þá birtist dýrð Drottins í samfundatjaldinu öllum Ísraelsmönnum.

11 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra?

12 Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru."

13 Móse sagði við Drottin: "En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim,

14 og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. Þeir hafa heyrt, að þú, Drottinn, sért meðal þessa fólks, að þú, Drottinn, hafir birst þeim augliti til auglitis, og að ský þitt standi yfir þeim og að þú gangir fyrir þeim í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur.

15 Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið:

16 ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.`

17 Sýn nú mátt þinn mikinn, Drottinn minn, eins og þú hefir heitið, þá er þú sagðir:

18 ,Drottinn er þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot, en lætur þau þó eigi með öllu óhegnd, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið.`

19 Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað."

20 Drottinn sagði: "Ég fyrirgef, eins og þú biður.

21 En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins:

22 Allir þeir menn, sem séð hafa dýrð mína og tákn mín, þau er ég gjörði í Egyptalandi og í eyðimörkinni, og nú hafa freistað mín tíu sinnum og óhlýðnast röddu minni,

23 þeir skulu vissulega ekki sjá landið, sem ég sór feðrum þeirra. Og engir þeirra manna, sem mig hafa fyrirlitið, skulu sjá það.

24 En af því að annar andi er yfir þjóni mínum Kaleb, og af því að hann hefir fylgt mér trúlega, þá vil ég leiða hann inn í landið, sem hann fór til, og niðjar hans skulu eignast það.

25 En Amalekítar og Kanaanítar búa á láglendinu. Snúið við á morgun og farið í eyðimörkina leiðina til Sefhafs."

26 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

27 "Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér? Ég hefi heyrt kurr Ísraelsmanna, er þeir hafa gjört í gegn mér.

28 Seg þú þeim: ,Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _, eins og þér hafið talað í mín eyru, svo mun ég við yður gjöra.

29 Í þessari eyðimörk skuluð þér dauðir hníga, allir þér, sem taldir voruð, með fullri tölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, þér sem möglað hafið í gegn mér.

30 Þér skuluð vissulega ekki koma inn í landið, sem ég sór að gefa yður til bústaðar, nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.

31 En börn yðar, er þér sögðuð að verða mundu að herfangi, þau mun ég flytja þangað, og þau munu fá að kynnast landinu, sem þér höfnuðuð.

32 En sjálfir skuluð þér dauðir hníga í þessari eyðimörk.

33 Og synir yðar skulu fara með hjarðir um eyðimörkina í fjörutíu ár og gjalda fráhvarfs yðar, uns þér allir liggið dauðir í eyðimörkinni.

34 Eins og þér voruð í fjörutíu daga að kanna landið, svo skuluð þér bera misgjörð yðar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag, og fá að reyna, hvað það er að vera yfirgefinn af mér.`

35 Ég Drottinn hefi sagt: ,Sannarlega mun ég svo gjöra við allan þennan illa lýð, sem gjört hefir samblástur móti mér. Í þessari eyðimörk skulu þeir farast og þar skulu þeir deyja."`

36 Þeir menn, sem Móse hafði sent til að kanna landið og aftur hurfu og komu öllum lýðnum til að mögla móti honum með því að segja illt af landinu, _

37 þeir menn, sem lastað höfðu landið, biðu bráðan bana fyrir augliti Drottins.

38 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson lifðu eftir af þeim mönnum, sem farið höfðu að kanna landið.

39 Móse flutti öllum Ísraelsmönnum þessi orð. Varð fólkið þá mjög sorgbitið.

40 Og þeir risu árla um morguninn og gengu upp á fjallshrygginn og sögðu: "Hér erum vér! Viljum vér nú fara til þess staðar, sem Drottinn hefir talað um, því að vér höfum syndgað!"

41 Þá mælti Móse: "Hví brjótið þér boð Drottins? Það mun eigi lánast!

42 Farið eigi, því að Drottinn er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.

43 Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði. Sökum þess að þér hafið snúið baki við Drottni, mun Drottinn eigi með yður vera."

44 En þeir létu eigi af þrályndi sínu og fóru upp á fjallstindinn, en sáttmálsörk Drottins og Móse viku eigi úr herbúðunum.

45 Þá komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.

Sálmarnir 50

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

"Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!

Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,

10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.

13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?

14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.

15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."

Jesaja 3-4

Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns,

hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum,

höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum.

Ég vil fá þeim ungmenni fyrir höfðingja, og smásveinar skulu drottna yfir þeim.

Á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum.

Þegar einhver þrífur í bróður sinn í húsi föður síns og segir: "Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi,"

þá mun hann á þeim degi hefja upp raust sína og segja: "Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra."

Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn Drottni til þess að storka dýrðaraugum hans.

Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu.

10 Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna.

11 Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans.

12 Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn.

13 Drottinn gengur fram til að sækja sökina, hann stendur frammi til að dæma þjóðirnar.

14 Drottinn gengur fram til dóms í gegn öldungum lýðs síns og höfðingjum hans: "Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar.

15 Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu," _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.

16 Drottinn sagði: Sökum þess að dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum og tifa í göngunni og láta glamra í ökklaspennunum,

17 þá mun Drottinn gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra.

18 Á þeim degi mun Drottinn burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin,

19 eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar,

20 motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin,

21 fingurgullin, nefhringana,

22 glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar,

23 speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar.

24 Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar.

25 Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu.

26 Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.

Á þeim degi munu sjö konur þrífa í sama manninn og segja: "Vér skulum sjálfar fæða oss og klæða, lát þú oss aðeins nefnast eftir nafni þínu, nem burt smán vora."

Á þeim degi mun kvistur Drottins prýðilegur og veglegur verða, og ávöxtur landsins hár og fagur fyrir þá af Ísrael, sem undan komast.

Þeir sem af lifa í Síon og eftir verða í Jerúsalem, skulu kallast heilagir, allir þeir, sem skráðir eru meðal hinna lifandi í Jerúsalem.

Þá er Drottinn hefir afþvegið óhreinindi Síonardætra og hreinsað blóð Jerúsalemborgar af henni með refsidómsanda og hreinsunaranda,

mun hann skapa ský um daga og reyk og skínandi eldsloga um nætur yfir öllum helgidóminum á Síonarfjalli og samkomunum þar, því að yfir öllu því, sem dýrlegt er, skal verndarhlíf vera.

Og laufskáli skal vera þar til forsælu fyrir hitanum á daginn og til hælis og skýlis fyrir steypiregni og skúrum.

Bréfið til Hebrea 11

11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.

Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.

Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.

Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.

Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."

En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.

Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.

Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.

Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.

10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.

11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.

12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.

13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.

14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.

15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.

16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.

18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.

20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.

21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".

22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.

23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins.

24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós,

25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna.

27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.

28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá.

29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.

31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.

32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum.

33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna,

34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.

35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.

36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.

37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.

38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.

39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.

40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society