M’Cheyne Bible Reading Plan
11 Lýðurinn tók að mögla hátt gegn Drottni yfir böli sínu. Og er Drottinn heyrði það, upptendraðist reiði hans. Kviknaði þá eldur frá Drottni meðal þeirra og eyddi ysta hluta herbúðanna.
2 Þá kveinaði lýðurinn fyrir Móse, og Móse bað til Drottins. Tók þá eldurinn að slokkna.
3 Var staður þessi kallaður Tabera, því að eldur Drottins kviknaði meðal þeirra.
4 Útlendur lýður, sem með þeim var, fylltist lysting. Tóku Ísraelsmenn þá einnig að kveina og sögðu: "Hver gefur oss nú kjöt að eta?
5 Víst munum vér eftir fiskinum, sem vér átum á Egyptalandi fyrir ekki neitt, eftir agúrkunum, melónunum, graslauknum, blómlauknum og hnapplauknum.
6 En nú örmagnast sála vor. Hér er alls ekki neitt, vér sjáum ekkert nema þetta manna."
7 Manna var eins og kóríanderfræ og að útliti sem bedolakharpeis.
8 Fólkið fór á víð og dreif og tíndi, og þeir möluðu það í handkvörnum eða steyttu það í mortéli, suðu því næst í pottum og gjörðu úr því kökur, en það var á bragðið eins og olíukökur.
9 Og þegar dögg féll á nóttum yfir herbúðirnar, þá féll og manna yfir þær.
10 Móse heyrði fólkið gráta, hvern með sitt skuldalið fyrir dyrum tjalds síns. Upptendraðist þá reiði Drottins ákaflega, og féll Móse það illa.
11 Móse sagði við Drottin: "Hví gjörir þú svo illa við þjón þinn, og hví hefi ég eigi fundið náð í augum þínum, að þú skulir leggja á mig byrði alls þessa fólks?
12 Hefi ég gengið þungaður að öllu þessu fólki? Hefi ég borið það í heiminn, að þú skulir segja við mig: ,Ber það í faðmi þér, eins og barnfóstri ber brjóstmylking,` _ inn í landið, sem þú sórst feðrum þeirra?
13 Hvaðan á ég að fá kjöt til að gefa öllu þessu fólki? Því að þeir gráta fyrir mér og segja: ,Gef oss kjöt að eta!`
14 Ég rís ekki einn undir öllu þessu fólki, því að það er mér of þungt.
15 Og ef þú ætlar að fara svona með mig, þá deyð mig heldur hreinlega, ef ég hefi fundið náð í augum þínum, svo að ég þurfi eigi að horfa upp á ógæfu mína."
16 Þá sagði Drottinn við Móse: "Safna þú mér sjötíu mönnum af öldungum Ísraels, sem þú veist að eru öldungar meðal fólksins og tilsjónarmenn þess, og skalt þú fara með þá að samfundatjaldinu, svo að þeir skipi sér þar ásamt þér.
17 Og ég vil stíga niður og tala þar við þig, og ég vil taka af anda þeim, sem yfir þér er, og leggja yfir þá, svo að þeir beri með þér byrði fólksins og þú berir hana ekki einn.
18 Og til fólksins skalt þú mæla: ,Helgið yður til morguns. Þá skuluð þér fá kjöt að eta. Því að þér hafið kveinað í eyru Drottins og sagt: Hver gefur oss kjöt að eta? því að vel leið oss í Egyptalandi. _ Og Drottinn mun gefa yður kjöt að eta.
19 Þér skuluð ekki eta það einn dag, og ekki tvo daga, og ekki fimm daga, og ekki tíu daga, og ekki tuttugu daga,
20 heldur heilan mánuð, þangað til það gengur út af nösum yðar og yður býður við því, af því að þér hafið hafnað Drottni, sem meðal yðar er, og kveinað fyrir augliti hans og sagt: Hví fórum vér burt úr Egyptalandi?"`
21 Þá sagði Móse: "Fólkið, sem ég er með, er sex hundruð þúsund fótgangandi manna, og þú segir: ,Ég vil gefa þeim kjöt að eta í heilan mánuð.`
22 Á þá að slátra sauðum og nautum handa þeim, svo að þeim nægi? Eða á að safna saman öllum fiskum í sjónum handa þeim, svo að þeim nægi?"
23 Drottinn sagði við Móse: "Er þá hönd Drottins stutt orðin? Nú skalt þú sjá, hvort orð mín koma fram við þig eða ekki."
24 Móse gekk burt og bar fólkinu orð Drottins og safnaði saman sjötíu manns af öldungum fólksins og lét þá skipa sér umhverfis tjaldið.
25 Og Drottinn sté niður í skýinu og talaði við hann, og hann tók af anda þeim, sem yfir honum var, og lagði hann yfir öldungana sjötíu. Og er andinn kom yfir þá, spáðu þeir, og aldrei síðan.
26 Tveir menn höfðu orðið eftir í herbúðunum. Hét annar Eldad, en hinn Medad, og andinn kom yfir þá _ voru þeir meðal hinna skráðu, en höfðu ekki gengið út að tjaldinu _, og þeir spáðu í herbúðunum.
27 Þá kom ungmenni hlaupandi og sagði Móse og mælti: "Eldad og Medad eru að spá í herbúðunum!"
28 Jósúa Núnsson, er þjónað hafði Móse frá æsku, svaraði og sagði: "Móse, herra minn, bannaðu þeim það!"
29 En Móse sagði við hann: "Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig? Ég vildi að allur lýður Drottins væri spámenn, svo að Drottinn legði anda sinn yfir þá."
30 Og Móse gekk aftur í herbúðirnar, hann og öldungar Ísraels.
31 Þá tók að blása vindur frá Drottni, og flutti hann lynghæns frá sjónum og varp þeim yfir herbúðirnar, svo sem dagleið í allar áttir, hringinn í kringum herbúðirnar, og um tvær álnir frá jörðu.
32 Og fólkið fór til allan þann dag og alla nóttina og allan daginn eftir og safnaði lynghænsum. Sá sem minnstu safnaði, safnaði tíu kómer. Og þeir breiddu þau allt í kringum herbúðirnar.
33 Meðan kjötið var enn milli tanna þeirra, áður en það var upp unnið, upptendraðist reiði Drottins gegn fólkinu, og Drottinn lét þar verða mjög mikinn mannfelli meðal fólksins.
34 Og staður þessi var nefndur Kibrót-hattava, því að þar grófu þeir fólkið, er fyllst hafði græðgi.
35 Frá Kibrót-hattava hélt lýðurinn til Haserót, og þeir staðnæmdust í Haserót.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
1 Vitrun Jesaja Amozsonar, er hann fékk um Júda og Jerúsalem á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda.
2 Heyrið, þér himnar, og hlusta þú, jörð, því að Drottinn talar: Ég hefi fóstrað börn og fætt þau upp, og þau hafa risið í gegn mér.
3 Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.
4 Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismannanna, spilltum sonum! Þeir hafa yfirgefið Drottin, smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum.
5 Hvar ætlið þér að láta ljósta yður framvegis, fyrst þér haldið áfram að þverskallast? Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt.
6 Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt, tómar undir, skrámur og nýjar benjar, sem hvorki er kreist úr né um bundið og þær eigi mýktar með olíu.
7 Land yðar er auðn, borgir yðar í eldi brenndar, útlendir menn eta upp akurland yðar fyrir augum yðar, slík eyðing sem þá er land kemst í óvina hendur.
8 Dóttirin Síon er ein eftir eins og varðskáli í víngarði, eins og vökukofi í melónugarði, eins og umsetin borg.
9 Ef Drottinn allsherjar hefði eigi látið oss eftir leifar, mundum vér brátt hafa orðið sem Sódóma, _ líkst Gómorru!
10 Heyrið orð Drottins, dómarar í Sódómu! Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorru-lýður!
11 Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? _ segir Drottinn. Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.
12 Þegar þér komið til þess að líta auglit mitt, hver hefir þá beðið yður að traðka forgarða mína?
13 Berið eigi lengur fram fánýtar matfórnir; þær eru mér andstyggilegur fórnarreykur! Tunglkomur, hvíldardagar, hátíðastefnur, _ ég fæ eigi þolað að saman fari ranglæti og hátíðaþröng.
14 Sál mín hatar tunglkomur yðar og hátíðir, þær eru orðnar mér byrði, ég er þreyttur orðinn að bera þær.
15 Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.
16 Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt,
17 lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.
18 Komið, eigumst lög við! _ segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.
19 Ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir, þá skuluð þér njóta landsins gæða,
20 en ef þér færist undan því og þverskallist, þá skuluð þér verða sverði bitnir. Munnur Drottins hefir talað það.
21 Hvernig stendur á því, að hún er orðin að skækju _ borgin trúfasta? Hún var full réttinda, og réttlætið hafði þar bólfestu, en nú manndrápsmenn.
22 Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt vatni blandað.
23 Höfðingjar þínir eru uppreistarmenn og leggja lag sitt við þjófa. Allir elska þeir mútu og sækjast ólmir eftir fégjöfum. Þeir reka eigi réttar hins munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær eigi að koma fyrir þá.
24 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum.
25 Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið.
26 Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta.
27 Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti.
28 En tortíming kemur yfir alla illræðismenn og syndara, og þeir, sem yfirgefa Drottin, skulu fyrirfarast.
29 Þér munuð blygðast yðar fyrir eikurnar, sem þér höfðuð mætur á, og þér munuð skammast yðar fyrir lundana, sem voru yndi yðar.
30 Því að þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur.
31 Og hinn voldugi skal verða að strýi og verk hans að eldsneista, og hvort tveggja mun uppbrenna hvað með öðru og enginn slökkva.
9 Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm.
2 Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún "hið heilaga".
3 En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét "hið allrahelgasta".
4 Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin.
5 En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.
6 Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína.
7 Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá.
8 Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur.
9 Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn.
10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.
11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun.
12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.
13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika,
14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.
15 Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.
16 Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði.
17 Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir.
18 Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs.
19 Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn
20 og mælti: "Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður."
21 Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna.
22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.
23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara.
24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.
25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.
26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.
27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,
28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.
by Icelandic Bible Society