M’Cheyne Bible Reading Plan
10 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Gjör þér tvo lúðra af silfri. Með drifnu smíði skalt þú gjöra þá. Skalt þú hafa þá til að kalla saman söfnuðinn og þá er herinn tekur sig upp.
3 Og þegar blásið er í þá báða, skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér fyrir dyrum samfundatjaldsins.
4 En sé eigi blásið nema í annan þeirra, þá skulu foringjarnir koma til þín, höfuðsmenn Ísraels þúsunda.
5 Þegar þér blásið hvellt, skal herinn, sem tjaldar að austanverðu, leggja upp.
6 Og þegar þér blásið hvellt í annað sinn, skal herinn, sem tjaldar að sunnanverðu, leggja upp. Skal blása hvellt, þegar leggja skal upp.
7 En þegar safna á saman söfnuðinum, skuluð þér blása, en þó eigi hvellt.
8 Synir Arons, prestarnir, skulu blása í lúðrana, og skal það vera ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.
9 Þá er þér farið í stríð í landi yðar móti óvinum yðar, sem á yður herja, skuluð þér blása hvellt í lúðrana, og mun yðar minnst verða af Drottni, Guði yðar, og þér frelsaðir verða frá fjandmönnum yðar.
10 Á gleðidögum yðar, á löghátíðum yðar og í mánaðarbyrjun skuluð þér og blása í lúðrana við brennifórnir yðar og heillafórnir, og skulu þeir vera yður til minningar frammi fyrir Guði yðar. Ég er Drottinn, Guð yðar."
11 Á öðru ári, í öðrum mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins hófst skýið upp frá sáttmálsbúðinni.
12 Tóku Ísraelsmenn sig þá upp eftir röð úr Sínaí-eyðimörk, og skýið nam staðar í Paran-eyðimörk.
13 Þannig lögðu þeir upp í fyrsta skiptið að boði Drottins, er Móse flutti.
14 Tók merki herbúða Júda sona sig fyrst upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Nakson Ammínadabsson.
15 Og fyrir her ættkvíslar Íssakars sona var Netanel Súarsson.
16 Og fyrir her ættkvíslar Sebúlons sona var Elíab Helónsson.
17 Er búðin var ofan tekin, tóku Gersons synir og Merarí synir sig upp. Báru þeir búðina.
18 Merki Rúbens herbúða tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísúr Sedeúrsson.
19 Og fyrir her ættkvíslar Símeons sona var Selúmíel Súrísaddaíson.
20 Og fyrir her ættkvíslar Gaðs sona var Eljasaf Degúelsson.
21 Þá tóku Kahatítar sig upp. Báru þeir hina helgu dóma. En búðin skyldi sett upp, áður en þeir kæmu.
22 Merki herbúða Efraíms sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísama Ammíhúdsson.
23 Og fyrir her ættkvíslar Manasse sona var Gamlíel Pedasúrsson.
24 Og fyrir her ættkvíslar Benjamíns sona var Abídan Gídeóníson.
25 Merki herbúða Dans sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra. Fór það síðast allra herbúðanna, en fyrir her hans var Akíeser Ammísaddaíson.
26 Og fyrir her ættkvíslar Assers sona var Pagíel Ókransson.
27 Og fyrir her ættkvíslar Naftalí sona var Akíra Enansson.
28 Þessi var röðin á Ísraelsmönnum eftir hersveitum þeirra, er þeir lögðu upp.
29 Þá sagði Móse við Hóbab Regúelsson Midíaníta, tengdaföður Móse: "Vér leggjum nú upp áleiðis til þess staðar, sem Drottinn hét, að hann mundi gefa oss. Kom þú með oss, og munum vér gjöra vel við þig, því að Drottinn hefir heitið Ísrael góðu."
30 Hóbab svaraði: "Eigi vil ég fara, heldur mun ég halda heim í land mitt og til ættfólks míns."
31 En Móse sagði: "Eigi mátt þú yfirgefa oss, af því að þú veist, hvar vér getum tjaldað í eyðimörkinni, og skalt þú vera oss sem auga.
32 Og farir þú með oss og oss hlotnast þau gæði, sem Drottinn vill veita oss, þá munum vér gjöra vel við þig."
33 Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim.
34 Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum.
35 En er örkin tók sig upp, sagði Móse: "Rís þú upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og fjendur þínir flýi fyrir þér."
36 Og er hún nam staðar, sagði hann: "Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels."
46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.
2 Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.
3 Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.
4 Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]
5 Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.
6 Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.
7 Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
8 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
9 Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.
10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.
11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."
12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
8 Ó, að þú værir mér sem bróðir, er sogið hefði brjóst móður minnar. Hitti ég þig úti, mundi ég kyssa þig, og menn mundu þó ekki fyrirlíta mig.
2 Ég mundi leiða þig, fara með þig í hús móður minnar, í herbergi hennar er mig ól. Ég mundi gefa þér kryddvín að drekka, kjarneplalög minn.
3 Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig.
4 Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Ó, vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.
5 Hver er sú, sem kemur þarna úr heiðinni og styðst við unnusta sinn? Undir eplatrénu vakti ég þig, þar fæddi móðir þín þig með kvöl, þar fæddi með kvöl sú er þig ól.
6 Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn, ástríðan hörð eins og Hel. Blossar hennar eru eldblossar, logi hennar brennandi.
7 Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni. Þótt einhver vildi gefa öll auðæfi húss síns fyrir elskuna, þá mundu menn ekki gjöra annað en fyrirlíta hann.
8 Við eigum unga systur, sem enn er brjóstalaus. Hvað eigum við að gjöra við systur okkar, þá er einhver kemur að biðja hennar?
9 Ef hún er múrveggur, þá reisum við á honum silfurtind, en ef hún er hurð, þá lokum við henni með sedrusbjálka.
10 Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar. Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna.
11 Salómon átti víngarð í Baal Hamón. Hann fékk víngarðinn varðmönnum, hver átti að greiða þúsund sikla silfurs fyrir sinn hlut ávaxtanna.
12 Víngarðurinn minn, sem ég á, er fyrir mig. Eig þú þúsundin, Salómon, og þeir sem gæta ávaxtar hans, tvö hundruð.
13 Þú sem býr í görðunum, vinir hlusta á rödd þína, lát mig heyra hana.
8 Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum.
2 Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður.
3 Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera.
4 Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar.
5 En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: "Gæt þess," segir hann, "að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."
6 En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.
7 Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan.
8 En nú ávítar Guð þá og segir: Sjá, dagar koma, segir Drottinn, er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda,
9 ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá út af Egyptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn.
10 Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.
11 Og enginn mun þá kenna landa sínum og enginn bróður sínum og segja: "Þekktu Drottin!" Allir munu þeir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir.
12 Því að ég mun vera vægur við misgjörðir þeirra og ég mun ekki framar minnast synda þeirra.
13 Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það, sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.
by Icelandic Bible Society